Morgunkorn Íslandsbanka

Stýrivextir óbreyttir þvert á væntingar

04.02.2015

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að halda stýrivöxtum Seðlabankans óbreyttum. Er það úr takti við spá okkar og annarra, en við líkt og aðrir greiningaraðilar reiknuðum með 25 punkta lækkun vaxta. Eru vextir á 7 daga veðlánum því áfram 5,25%, vextir á daglánum 6,25%, og vextir á 7 daga bundnum innlánum 4,50%, en bankinn horfir til síðasttöldu vaxtanna sem meginvaxta sinna um þessar mundir.

Komandi kjarasamningar ráða för

Í yfirlýsingu sinni segir peningastefnunefndin að vegna mikillar óvissu um horfur á vinnumarkaði á sama tíma og vísbendingar eru um öflugan hagvöxt á næstu misserum sé rétt að staldra við uns efnahagshorfur skýrast frekar. Nefndin er hér að horfa talsvert í niðurstöðu komandi kjarasamninga þar sem framkomnar launakröfur gefa vísbendingu um að kjaraviðræður verði erfiðar, og að væntingar sumra aðila verkalýðshreyfingarinnar varðandi hækkun launa eru talsvert hærri en samrýmist verðbólgumarkmiði bankans.  

Nefndin gefur óvissu vegna komandi kjarasamninga meira vægi en við töldum. Reiknuðum við með því að nefndin myndi aðallega vera á þessu stigi viðræðnanna í því að vara við því að ef kjarasamningar færu úr böndunum þá myndi hún bregðast við með hækkun stýrivaxta. Þrátt fyrir að verðbólguspá bankans hljóði upp á afar lága verðbólgu næsta kastið og að öðru óbreyttu gæfi tilefni til vaxtalækkunar nú er ljóst að nefndin telur að óvissan í þeirri spá út frá launaliðnum sé til hækkunar, og að óvissan þar sé það mikil að rétt sé að staldra við í vaxtalækkunarferlinu sem staðið hefur síðan í nóvember á síðasta ári og leitt til 0,75 prósentu lækkunar stýrivaxta á tímabilinu. 

Hins vegar segir nefndin að ef launahækkanir í komandi kjarasamningum verða í samræmi við verðbólgumarkmiðið og verðbólga helst undir markmiði geti skapast forsendur fyrir frekari vaxtalækkun. Á móti gæti mikil hækkun launa í komandi samningum leitt til þess að hækka þyrfti vexti að nýju. Það virðist því líklegt að vextir verði óbreyttir við næstu vaxtaákvörðun þann 18 mars næstkomandi, enda teljum við ólíklegt að kjarasamningar verði í höfn þá. Hins vegar má spyrja, í ljósi þess að peningastefnunefndin telur raunvexti nokkuð háa í stöðu hagsveiflunnar og nær horfa, hvort ekki hefði verið rúm til þess að lækka vexti frekar nú og bregðast í kjölfarið við niðurstöðu kjarasamninga þegar þar að kæmi.

Vanspáir Seðlabankinn verðbólgu?

Í nýbirtum Peningamálum lækkar Seðlabankinn verðbólguspá sína umtalsvert frá síðustu spá þeirra sem birt var í nóvember sl. Er þetta í takti við það sem við reiknuðum með, og reyndar gott betur. Bankinn spáir til að mynda 0,7% verðbólgu að meðaltali á árinu 2015, sem okkur virðist fremur ólíkleg niðurstaða. Hann spáir 1,4% verðbólgu yfir árið í ár, og að verðbólga mælist 2,7% yfir árið 2016. Til samanburðar gerum við ráð fyrir 2,4% verðbólgu yfir þetta ár, og 2,8% verðbólgu yfir árið 2016. Verðbólguspár Seðlabankans hafa undanfarið ofspáð verðbólgu til skamms og meðallangs tíma, en nú virðist okkur sem bankinn kunni að vera lagstur á hina hliðina og verðbólguspá þeirra heldur bjartsýn.

Hagvöxtur færður milli ára

Seðlabankinn áætlar nú að hagvöxtur hafi verið minni árið 2014 en í síðustu spá, eða 2,0% í stað 2,9% vaxtar í nóvemberspánni. Er hægari vöxtur að mestu tilkominn vegna minni vaxtar einkaneyslu og fjárfestingar en áður var spáð. Á móti spáir bankinn meiri hagvexti í ár, eða 4,2% í stað 3,5% áður. Meiri hagvöxtur í ár skýrist að stærstum hluta af talsvert meiri vexti útflutnings en áður var spáð (5,3% í stað 2,6%). Hins vegar er spáð heldur hægari vexti þjóðarútgjalda í ár en áður, og á það bæði við um einkaneyslu og fjármunamyndun.

Bjartari horfur um greiðslujöfnuð

Bættar horfur um utanríkisviðskipti fela einnig í sér að SBÍ er nú mun bjartsýnni á viðskiptajöfnuð en áður og spáir bankinn nú talsverðum undirliggjandi viðskiptaafgangi út spátímann: 3,8% af VLF í ár, 2,1% árið 2016 og 2,1% árið 2017. Skv. því mun undirliggjandi viðskiptaafgangur duga fyrir öllum áætluðum ófjármögnuðum afborgunum af erlendum lánum annarra en Seðlabankans og ríkissjóðs næstu árin, en samkvæmt áætlun sem birtist í Fjármálastöðugleika í fyrrahaust munu slíkar afborganir nema 3,2% af VLF á yfirstandandi ári, 2,2% árið 2016 og 2,3% árið 2017. Sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, á kynningarfundi að hér væri vissulega um jákvæða breytingu að ræða, þótt eftir sem áður skipti mestu að stöðugleiki héldist á fjármagnsjöfnuði við komandi afléttingu fjármagnshafta.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall