Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga eykst um hálfa prósentu

29.11.2018

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,24% í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,3% en var 2,8% í október. VNV án húsnæðis hækkaði um 0,18% í nóvember og m.v. þá vísitölu mælist 2,4% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling nóvembermánaðar er rétt undir öllum birtum spám.  Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,3% – 0,35% hækkun milli mánaða. Helstu liðir eru að þróast í ágætu samræmi við spá okkar.

 

Nánast engin raunhækkun á fjölbýlum á höfuðborgarsvæði

Samkvæmt mælingu Hagstofu hækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,4% í nóvembermánuði. Svipaður taktur var í hækkuninni milli mánaða hvort sem litið er til fjölbýla eða sérbýla, höfuðborgarsvæðis eða landsbyggðar. Árstaktur íbúðaverðs er samkvæmt sömu tölum 5,5% hækkun og dregur heldur úr honum á milli mánaða. Undanfarið ár hefur íbúðaverð á landsbyggðinni hækkað mun hraðar en á höfuðborgarsvæðinu. Nemur verðhækkunin 11,4% á fyrrnefnda svæðinu og vegur þar allþungt drjúg hækkun íbúðaverðs í stórum þéttbýliskjörnum á borð við Reykjanesbæ, Árborg og Akranes. Á höfuðborgarsvæðinu hefur sérbýli hækkað um 5,9% undanfarið ár, en verð á fjölbýlum hefur hins vegar aðeins hækkað um 3,5%. Raunhækkun á verði smærri eigna á höfuðborgarsvæði undanfarið ár er því aðeins 0,2%, sé tekið mið af vísitölu neysluverðs.

Bifreiðaverð hækkar umtalsvert

Nýir bílar vega helst til hækkunar í nóvember en þeir hækkuðu um 1,63% (0,14 í VNV) í verði. Hefur bifreiðaverð samtals hækkað um nærri 6% frá miðju ári. Aðrir liðir sem vega umtalsvert til hækkunar eru húsgögn og heimilisbúnaður sem hækkaði um 1,67% milli mánaða (0,07 í VNV) ásamt tómstundum og menningu sem hækkaði um 0,74% (0,07 í VNV). Það sem vegur þyngst til hækkunar í liðnum tómstundir og menning eru blöð, bækur og ritföng sem hækka um 3,49% í verði.

Flugfargjöld, eldsneyti og símaþjónusta lækka í verði í nóvember

Það helsta sem vó til lækkunar í nóvembermánuði var liðurinn ferðir og flutningar sem lækkaði um 0,30% (-0,05% í VNV). Þar vega flugfargjöld til útlanda þyngst og lækkuðu þau um 13,69% (-0,19 í VNV), en um árstíðarbundna lækkun á flugfargjöldum er að ræða. Einnig lækkaði eldsneyti  í verði um 1,02% (-0,03 í VNV) sem skýrist af verulegri lækkun á olíuverði á heimsmarkaði frá októberbyrjun, þótt veiking krónu á sama tíma dragi talsvert úr þeim áhrifum. 

Símaþjónusta lækkaði talsvert í mánuðinum eða um 3,09% (-0,07 í VNV) í nóvember frá fyrri mánuði. Símaþjónusta hefur verið haft sterka lækkunarleitni undanfarin misseri en þessi lækkun þó óvenju mikil miðað við undanfarna mánuði.

Aukin verðbólga næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni hækka næstu mánuði og mun verðbólga áfram verða nokkuð yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,5% hækkun VNV í desember,  0,1% lækkun í janúar næstkomandi og 0,7% hækkun í febrúar. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 3,5% í árslok og 3,6% í febrúar. Á komandi mánuðum munu áhrif gengislækkunar krónu lita VNV-þróunina talsvert. Í janúar togast að vanda útsöluáhrif annars vegar, og hækkanir á gjaldskrám og ýmsum opinberum gjöldum hins vegar. Í febrúar ganga svo útsöluáhrifin til baka að verulegu leyti.

Olíuverðlækkun á erlendum mörkuðum síðustu vikur gæti þó dregið eitthvað úr skammtíma-verðbólguþrýstingi, en í bráðabirgðaspá okkar var miðað við olíuverð eins og það var í lok októbermánaðar. Síðan hefur verð á hráolíu lækkað um fimmtung í dollurum talið en dollarinn styrkst á móti um ríflega 3% gagnvart krónu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall