Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 15. mars næstkomandi

10.03.2017

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum þann 15. mars næstkomandi. Í ákvörðun nefndarinnar munu vegast á áhrif af talsverðri styrkingu krónu, betri skammtíma verðbólguhorfur og minni óvissa á vinnumarkaði annars vegar, og hraður vöxtur innlendrar eftirspurnar og mikil hækkun íbúðaverðs hins vegar. Nefndin kann þó að opna á þann möguleika í framsýnni leiðsögn að vextir lækki fljótlega ef krónan styrkist frekar og verðbólga hjaðnar á komandi mánuðum. Við gerum í kjölfarið ráð fyrir að sú þróun raungerist, og að stýrivextir SBÍ muni lækka um 0,5 prósentur fyrir mitt yfirstandandi ár. Virkir stýrivextir verða því 4,5% á seinni helmingi yfirstandandi árs, gangi spáin eftir.

Samhljómur um óbreytta vexti í febrúar

Við síðustu vaxtaákvörðun, sem birt var þann 8. febrúar síðastliðinn, hélt peningastefnunefndin stýrivöxtum óbreyttum. Nefndin var samhljóða í þeirri ákvörðun samkvæmt fundargerð, og raunar voru aðrir möguleikar ekki ræddir yfir höfuð ef marka má fundargerðina. Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni í febrúar sagði að ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum kallaði á peningalegt aðhald svo að tryggja mætti verðstöðugleika til meðallangs tíma. Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hefði hins vegar gert peningastefnunefnd mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika við lægra vaxtastig en ella. Loks klykkti nefndin út með setningunni: „Kröftugur vöxtur eftirspurnar og órói á vinnumarkaði kalla á varkárni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“ 

Þessi síðasta setning gefur að mati okkar til kynna að peningastefnunefndin vilji hafa vaðið fyrir neðan sig áður en brugðist er við skammtímaþróun í hagkerfinu þótt tína megi til ýmis rök fyrir vaxtalækkun nú. Í ljósi umfangs ofangreindra breytinga mun það skjóta nokkuð skökku við, og ekki vera til þess fallið að auka gegnsæi og fyrirsjáanleika peningastefnunnar, ef horfið væri beint frá þessum samhljómi um óbreytta vexti, hlutlausri framsýnni leiðsögn og varfærna tóni um framhaldið í vaxtalækkun rúmum mánuði síðar.

Gengisstyrking og hraður hagvöxtur áhrifaþættir

Gengisþróun krónu hefur haft áhrif á ákvarðanir peningastefnunefndar undanfarið, þótt þau áhrif hafi birst með nokkuð misjöfnum og misgegnsæjum hætti í síðustu ákvörðunum hennar. Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur krónan styrkst um 5,8% m.v. viðskiptavegna gengisvísitölu og er krónan nú ríflega 4% sterkari en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá sinni sem birt var í febrúar. Styrkingin var afar hröð í febrúar, en frá marsbyrjun hefur gengið hins vegar gefið lítillega eftir að nýju. Gengisflökt hefur þar að auki stóraukist undanfarna mánuði, og þar með óvissan um skammtímahreyfingar krónunnar. Við teljum því líklegt að peningastefnunefndin vilji sjá styrkingarleitni krónunnar festa sig betur í sessi að nýju áður en frekari ákvarðanir eru teknar byggt á gengisþróuninni.

Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur verðbólga haldist óbreytt, en hún mældist 1,9% í febrúar líkt og mánuðina tvo á undan. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur lækkað lítillega á sama tíma. Það er nú 2,0% til 5 ára og 2,3% til 10 ára, en við vaxtaákvörðunina var 5 ára álagið 2,1% og 10 ára álagið 2,4%. Skammtímahorfur varðandi verðbólgu hafa þó líklega batnað nokkuð, ekki síst fyrir tilstilli styrkingar krónu. Þar má nefna að IKEA tilkynnti nýlega um 10% verðlækkun á vöruframboði sínu að jafnaði vegna hagstæðrar gengisþróunar. Loks eru vísbendingar um að aukin samkeppni, bæði við verslunarkeðjur sem opna hér á landi á komandi mánuðum og við netverslun, haldi aftur af verðlagi á ýmsum sérvörum. Peningastefnunefndin mun hins vegar ekki hafa nýja opinbera verðbólguspá frá bankanum til stuðnings að þessu sinni, og verður því væntanlega að stíga fremur varlega til jarðar hvað breyttar verðbólguhorfur varðar.

 

Á dögunum var tilkynnt að kjarasamningar ASÍ og SA myndu halda fram á næsta ár þrátt fyrir að ein forsenda þeirra, um að aðrir hópar en launþegar innan ASÍ fengju ekki umtalsvert meiri hækkun launa, hefði brostið. Þessi tíðindi munu væntanlega leggjast vel í peningastefnunefndina, en hún hefur haft töluverðar áhyggjur af óvissu á vinnumarkaði undanfarið. Almenn kjarasamningsbundin hækkun launa verður mun minni á þessu ári en því síðasta að því gefnu að samningar haldi, og kostnaðarþrýstingur á innlent verðlag vex hægar sem því nemur.
 
Á móti ofangreindum þáttum er helst hægt að nefna tvo þætti sem gætu hvatt peningastefnunefndina til meira aðhalds en ella. Þar ber fyrst að nefna hraðan hagvöxt, en nýbirtar tölur Hagstofunnar leiddu í ljós að hagvöxtur á síðasta ári var talsvert meiri (7,2%) en SBÍ hafði áætlað  í síðasta mánuði (6,0%). Þar vegur þó á móti að ástæður fráviks áætlunar SBÍ frá Hagstofutölunum lágu fyrst og fremst í hraðari vexti þjónustuútflutnings og íbúðafjárfestingar en áætlað hafði verið. Samsetning hagvaxtarins er því eftir sem áður með hagfelldasta móti. Þannig uxu þjóðarútgjöld um 8,7% sem er í takti við spá SBÍ þrátt fyrir hraðari hagvöxt en spáð var. Má hér nefna að peningastefnunefndin lækkaði stýrivexti í desember ofan í nýlegar hagvaxtartölur sem sýndu, líkt og nú, hraðari vöxt en vænst var með þeim rökum að samsetning vaxtarins væri hagstæðari en spáð hafði verið.

Þróun íbúðaverðs verður nefndinni líklega meiri þyrnir í augum, en undanfarið hefur bætt jafnt og þétt í hækkunartaktinn þar og er nú svo komið að raunhækkun íbúðaverðs mælist nær tvöfalt hraðari en aukning kaupmáttar launa. Það er viðsnúningur frá undanförnum misserum þar sem allgott samræmi hefur verið milli þessara stærða. 

Við teljum að peningastefnunefndin muni, að teknu tilliti til ofangreindra þátta, vilja bíða og sjá enn um sinn áður en stýrivextir verða lækkaðir frekar. Mun nefndin væntanlega tiltaka kröftugan vöxt eftirspurnar og hugsanlega óvissuþætti tengda haftalosun og gengisþróun krónu sem rök fyrir varfærni við ákvörðun vaxta. Þó gæti vel hugsast að hagstæð gengisþróun undanfarið, minni óvissa á vinnumarkaði næsta kastið og vísbendingar um minni skammtíma verðbólguþrýsting verði nefndinni tilefni til að opna á mögulega lækkun vaxta síðar á árinu. Framsýna leiðsögnin halli þá til lækkunar vaxta fremur en að vera hlutlaus líkt og undanfarið.

Vextir lækkaðir í tvígang á öðrum ársfjórðungi

Sem fyrr segir teljum við líklegt að krónan muni styrkjast frekar fram eftir yfirstandandi ári. Ef það gengur eftir gæti verðbólga hjaðnað að nýju með hækkandi sól. Verðbólguspá okkar frá febrúar gerði ráð fyrir svipaðri verðbólgu og nú er út árið, en forsenda þeirrar spár var nokkru lægra gengi krónu en nú er útlit fyrir. Óvissan m.v. þá spá er því til minni verðbólgu næsta kastið að okkar mati. Ef verðbólgutakturinn minnkar að nýju á komandi mánuðum samhliða því að styrkingarferli krónu festir sig í sessi á nýjan leik teljum við rök fyrir því hjá peningastefnunefndinni að lækka stýrivexti svo peningalegt aðhald aukist ekki frekar með hækkandi raunvöxtum. Spáum við því að stýrivextirnir verði lækkaðir um 0,25 prósentur á vaxtaákvörðunardeginum 17. maí, og aftur þann 14. júní næstkomandi. Virkir stýrivextir SBÍ, þ.e. vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða þá orðnir 4,5%. Í kjölfarið spáum við því að vextirnir verði óbreyttir út árið en raunvextir lækki jafnt og þétt þegar frá líður vegna vaxandi verðbólgu.

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall