Morgunkorn Íslandsbanka

Ferðamönnum mun fjölga áfram í vetur

21.08.2014

nullSamkvæmt gögnum Isavia yfir úthlutuð stæði á Keflavíkurflugvelli á tímabilinu 26. október 2014 til 25. mars 2015 er útlit fyrir að farþegum um flughöfnina gæti fjölgað um 14,3% milli ára yfir þetta tímabil. Ef litið er á aukninguna hlutfallslega milli mánaða þá sést að aukningin verður mest í nóvember, 21,5%. Yfir aðra mánuði nemur aukningin á bilinu 11-13%. Það ber þó að hafa í huga að úthlutuð stæði þurfa ekki endilega að verða mælikvarði á endanlega flogið flug. Þannig hafa til dæmis brottfarir um Keflavíkurflugvöll undanfarið verið umtalsvert fleiri flesta mánuði en tölur yfir úthlutuð stæði gáfu tilefni til að ætla.

Markaðshlutdeild Icelandair dregst heldur saman milli ára

Í vetur hafa 10 félög fengið úthlutuðum stæðum á Keflavíkurflugvelli. Félögin eru Icelandair, WOW, lágjaldafélögin Norwegian og Easyjet, fraktflutningafélagið Bluebird, Flybe, leiguflugfélagið Primera, SAS og Transaero Airlines. Flest félögin flugu einnig á síðasta ári en Flybe og rússneskja félagið Transaero koma ný inn með stæði.

nullIcelandair hefur sem fyrr stærstu markaðshlutdeildina í flugi um flugvöllinn þó hún lækki heldur milli ára. Yfir vetrarmánuðina verða áfangastaðir að mestu þeir sömu og síðasta vetur, en félagið heldur þó áfram að fljúga til Edmonton í vetur auk þess sem félagið hefur fengið úthlutað stæðum fyrir flug til Birmingham frá febrúar á næsta ári. Félagið verður þar með í beinni samkeppni við Flybe sem hóf flug til Keflavíkur frá Birmingham á árinu. Flugvöllurinn í Birmingham er miðsvæðis í Bretlandi og lággjaldaflugfélög kjósa því oft a nota hann sem áningarstað (e.hub). Miðað við úthlutuð stæði mun sætum hjá Icelandair fjölga mest hlutfallslega á flugleiðunum til London – Gatwick, Toronto, Glasgow og Denver að undanskilinni hinni nýju flugleið til Edmonton. Þá virðist einhver vöxtur verða á flugi til Frankfurt, Helsinki, München, París og Sanford Flórída.

nullFélagið virðist aftur vera að bregðast við aukinni samkeppni með fækkun á flugum til Kaupmannahafnar og Bergen. Athyglisvert er þó að í þeim gögnum sem við fengum frá Isavia virðist WOW jafnframt ætla að draga úr framboði til Kaupmannahafnar. Nokkuð hefur verið rætt um hugsanlegt flug Norwegian á milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur en nú lítur út fyrir að ekki verði af því, í það minnsta ekki í vetur. Sem fyrr verður framboð Icelandair á einstökum flugleiðum mest til Kaupmannahafnar en litlu minna til London – Heathrow. Í töflunni hér til hliðar má sjá þær flugleiðir sem stærstar verða hjá Icelandair í vetur m.v. hámarksfjölda farþega (MP) í úthlutuðum stæðum.

Markaðshlutdeild WOW dregst einnig saman

Markaðshlutdeild WOW byggt á sömu gögnum fer úr 15% í 12% í vetur. Framboð áfangastaða virðist verða óbreytt hjá félaginu yfir þetta tímabil frá sama tímabili síðasta árs. Stærstu áfangastaðir félagsins eru Berlin, Kaupmannahöfn, London – Gatwick og París. Félagið mun auka framboð verulega til Berlínar, eða um 30%, en draga framboð saman um nær sömu prósentu frá Kaupmannahöfn. Framboð til London – Gatwick mun dragast saman um 12% og um 3% til Parísar. Við vinnslu þessarar greiningar sendum við fyrirspurn á WOW vegna þess samdráttar sem sést í úthlutuðum stæðum. Félagið segist ekki geta tjáð sig um þessa þætti sökum samkeppnisaðstæðna en segir þó að félagið hyggist auka sætaframboð sitt um 40% á næsta ári. Þær tölur sem við höfum úr að vinna byggja aðeins á stæðum er þegar hefur verið úthlutað, og er alls ekki útilokað að félagið muni bæta inn flugum. Einnig ná þessi gögn aðeins yfir lítinn hluta næsta árs. Sami fyrirvari gildir eðlilega einnig er kemur að túlkun þessara gagna vegna annarra félaga.

WOW ekki með stæði fyrir Norður-Ameríkuflug

Það kemur nokkuð á óvart að WOW er ekki með úthlutuð stæði fyrir Norður-Ameríkuflug samkvæmt gögnum Isavia. Síðasta vetur var fjallað töluvert um mögulegt Norður-Ameríkuflug WOW en þá fékk félagið ekki úthlutað þeim stæðum sem það taldi sig þurfa til að ná heppilegum tengitíma milli Norður-Ameríku og Evrópu. Markaðurinn um flugleiðina Evrópa - Norður-Ameríka gæti þó verið að breytast, en Norwegian hefur ákveðið að reyna lággjaldaflug til Norður-Ameríku og flýgur félagið nú þangað frá London.

Tilraunir til að hefja lággjaldaflug yfir Atlantshafið hafa hingað til mistekist. Menn telja nú að markaðurinn kunni að hafa breyst síðan slíkt flug var reynt síðast fyrir alvöru enda þurfi félögin ekki lengur að selja þjónustu sína í gegnum skilgreinda söluaðila þar sem ferðamenn geta keypt flug milliliðalaust í gegnum netið. Á móti benda margir á að lággjaldaflug henti illa á lengri flugleiðum enda verði olíukostnaður í slíkum flugum svo stór hluti heildar kostnaðar að erfitt sé að halda slíku flugi arðbæru. Norwegian bindur þó vonir við að sá olíusparnaður sem næst fram í Boeing 787 Dreamliner vélunum geti gert slík flug arðbær.

Easyjet og Norwegian sækja á

nullFramboð Norwegian og Easyjet eykst mest milli ára sé horft til úthlutaðra stæða. Framboð Icelandair eykst lítillega á sama tíma og framboð WOW dregst saman m.v. úthlutuð stæði. Nokkuð stökk má sjá í framboði Primera, en í vetur er félagið með bókuð stæði fyrir flug til Tenerife. Líklega er félagið að taka við leiguflugi þangað sem Icelandair sá um áður.

Norwegian hefur fengið úthlutað stæðum fyrir flug til Bergen, Osló og London, en yfir sama tímabil síðasta árs flaug flugfélagið aðeins til Osló. Icelandair virðist hafa brugðist við samkeppninni um flugleiðina til Bergen með því að draga verulega úr framboði sínu á flugi þangað. Easyjet hefur fengið úthlutað stæðum fyrir flug til Belfast, Bristol, Edinborg, London – Luton og Manchester. Belfast er eina nýja flugleið félagsins, en félagið er að auka flug á öðrum flugleiðum verulega. Flug til Bristol og Edinborg eykst um tæp 50%, flug til London – Luton, sem er stærsta flugleið félagsins, eykst um 60% og flug til Manchester um 30%. Primera Air hefur í vetur aðeins fengið stæði til flugs til Tenerife en á síðasta ári var félagið einnig með stöku flug til Kaupmannahafnar og Las Palmas á Spáni yfir þetta tímabil. SAS flýgur aftur líkt og á síðasta ári aðeins til Osló.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall