Morgunkorn Íslandsbanka

Gjaldeyriseignum safnað af miklum móð í fyrra

08.04.2019

Söfnun gjaldeyriseigna lífeyrissjóða og annarra innlendra aðila átti stóran þátt í því að gengi krónu gaf talsvert eftir á síðasta ári þrátt fyrir myndarlegan viðskiptaafgang. Gjaldeyrisflæði vegna fjárfestinga inn og út úr hagkerfinu mun að mati okkar ekki ráða minna um gengisþróun en þróun viðskiptajafnaðar það sem eftir lifir árs. Því er ekki víst að frekari veiking krónu sé í kortunum í bili.

Sparnaður enn meiri en afgangur

Í nýlega birtu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, er að finna forvitnilegt yfirlit um stefnur og strauma á gjaldeyrismarkaði á síðasta ári. Seðlabankinn býr yfir ítarlegum upplýsingum um slíkt flæði vegna upplýsingaskyldu fjármálastofnana gagnvart bankanum.

Líkt og undanfarin ár var innflæði gjaldeyris vegna viðskiptajafnaðar myndarlegt í fyrra. Áætlar Seðlabankinn að það hafi alls numið 88 mö.kr. Við það bættist innflæði um fjármagnsjöfnuð, m.a. vegna nýrrar erlendrar lántöku (26 ma.kr.), hreinnar aukningar á nýfjárfestingu erlendra aðila hér á landi (21 ma.kr.), útlánum banka í gjaldeyri og lækkunar á gjaldeyriseignum þeirra (29 ma.kr.) og annarra smærri liða (5.ma.kr.).

 

Það útflæði sem þyngst vó á móti skv. tölum Seðlabankans voru gjaldeyriskaup lífeyrissjóða sem námu u.þ.b. 109 mö.kr. Hækkun á gjaldeyrisinnstæðum heimila og fyrirtækja nam 31 ma.kr. og hækkun banka á gnóttstöðu á móti framvirkum samningum viðskiptavina nam 17 mö.kr. Þá voru greiddar afborganir af erlendum lánum sem nam 53 mö.kr. 

Í sem stystu máli, og með talsverðri einföldun, má því segja að ráðstöfun sparnaðar út úr íslenskri krónu ásamt hreinni uppgreiðslu erlendra lána hafi vegið upp viðskiptaafgang og fjárfestingainnflæði og gott betur á síðasta ári.

Lesið Korn Íslandsbanka hér

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall