Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga aftur komin undir markmið Seðlabankans

27.04.2018

Óvænt lækkun á húsnæðislið vísitölu neysluverðs (VNV) er ein helsta ástæða þess að verðbólga mælist nú á ný undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Hægt hefur um helming á hækkunartakti íbúðaverðs frá síðasta sumri á sama tíma og áhrif af innfluttri verðhjöðnun hafa fjarað út. Útlit er fyrir að verðbólga verði áfram við markmið Seðlabankans fram eftir ári. 

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,04% í apríl skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,3% en var 2,8% í mars. Verðbólga er því aftur komin undir markmið Seðlabankans eftir að hafa gægst yfir markmiðið í síðasta mánuði í fyrsta sinn frá janúar 2014. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,08% í apríl og m.v. þá vísitölu mælist 0,2% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Það dregur því áfram saman með verðbólgumælikvörðunum með eða án húsnæðis.

Mæling aprílmánaðar er undir öllum birtum spám.  Við spáðum 0,1% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,1% – 0,25% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að stærstum hluta í óvæntri lækkun reiknaðrar húsaleigu um 0,2%, en hún endurspeglar íbúðaverð að mestu. Á móti hækkaði ferða- og flutningaliður VNV lítillega, en við höfðum spáð lækkun á þeim lið.

Hægari hækkunartaktur á íbúðamarkaði

Óhætt er að segja að lækkun húsnæðisliðar VNV í apríl hafi komið okkur nokkuð á óvart, en liðurinn lækkaði síðast milli mánaða í desember síðastliðnum. Þar vegur þyngst að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu, lækkaði um 0,18% á milli mánaða. Flökt á milli mánaðarmælinga þessa liðar hefur hins vegar verið mikið undanfarið og því aldrei á vísan að róa við að spá um mánaðarhreyfingar hans þessa dagana. Er það ekki síst vegna mikilla sveiflna í verðþróun íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni á milli mánaða. Að þessu sinni liggur rótin að lækkuninni í 2,6% lækkun markaðsverðs íbúða á landsbyggðinni. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæði stóð nánast í stað í apríl frá síðasta mánuði, en verð á sérbýlum hækkaði hins vegar um 1,6%. 

Talsvert hefur hægt á hækkunartakti húsnæðisverðs upp á síðkastið. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar nemur árshækkun húsnæðisverðs á landinu öllu nú ríflega 10%. Hefur takturinn ekki verið hægari í hálft annað ár, en hæst fór hann í rúm 24% um mitt ár 2017. Mest hefur hægt á verðhækkun fjölbýla á höfuðborgarsvæði. Miðað við nýjustu tölur nemur árshækkun þeirra nú 8%. Sérbýli á höfuðborgarsvæði hafa hins vegar hækkað um rúm 12% undanfarna 12 mánuði og verð á landsbyggðinni hefur hækkað um tæp 15% á sama tíma.

Íbúðaverð og innflutningsverð vegast á í verðbólgu

Undanfarið hafa vegist á í verðbólguþróuninni áhrif af hægari hækkun íbúðaverðs annars vegar, og hins vegar minnkandi áhrif af innfluttri verðhjöðnun eftir að verulegri styrkingu krónunnar lauk á vordögum í fyrra. Innlendur kostnaðarþrýstingur hefur aftur á móti verið fremur hóflegur þegar húsnæðisliðnum sleppir og hefur aukin samkeppni á smásölumarkaði átt þar talsverðan hlut að máli að okkar mati. Þá hefur gengi krónu styrkst um ríflega 2% frá áramótum og hefur það væntanlega einnig átt þátt í að halda aftur af verðbólgu síðustu mánuði. Má þar nefna að verð á heimilisbúnaði lækkaði um 0,6% í apríl og verð á sjónvörpum, tölvum og slíkum tækjum lækkaði um 1,7%. Á heildina litið var verð á innfluttum vörum óbreytt í apríl frá mánuðinum á undan.

Útlit er fyrir að verðbólga verði við markmið Seðlabankans næstu mánuðina. Við spáum 0,2% hækkun VNV í maí, 0,2% hækkun í júní en 0,1% lækkun VNV í júlí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,4% í júlímánuði. Ef áfram hægir á hækkunartakti íbúðaverðs og krónan gefur ekki verulega eftir á nýjan leik eru í kjölfarið horfur á því að verðbólga verði áfram við 2,5% verðbólgumarkmiðið á seinni hluta ársins.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall