Morgunkorn Íslandsbanka

Óbreyttir stýrivextir en tónninn hertur

29.08.2018

Peningastefnunefnd hefur nokkrar áhyggjur af hækkun verðbólguvæntinga og mun að líkindum taka að horfa til hækkunar vaxta ef ekki verður lát á hækkun væntinganna á komandi mánuðum. Á móti gerir Seðlabankinn nú ráð fyrir heldur hagfelldari samsetningu hagvaxtar en áður. Bankinn væntir þess að verðbólga verði í grennd við markmið bankans á komandi árum og að þokkalegt jafnvægi muni ríkja í utanríkisviðskiptum.  

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í morgun. Meginvextir Seðlabankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25% en þeir hafa verið óbreyttir frá október á síðasta ári.

Tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar er hins vegar nokkru harðari en verið hefur undanfarið:

 „Vísbendingar eru um að langtíma verðbólguvæntingar hafi farið eitthvað yfir markmið. Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. 

Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Framvirk leiðsögn hallast því fremur til hækkunar vaxta en hitt, en leiðsögnin hefur verið hlutlaus undanfarin misseri. Þó er ekki að okkar mati lokað á möguleikann á lækkun vaxta þegar fram í sækir ef ofangreint samspil helstu áhrifaþátta verður með hagfelldum hætti. 

Þróun verðbólguvæntinga á komandi mánuðum verður væntanlega lykilatriði fyrir síðustu vaxtaákvarðanir ársins. Áhersla nefndarinnar á að hún bæði vilji og geti haldið verðbólgu við markmið er nýlunda í yfirlýsingum hennar, og er líklega ætlað að halda aftur af frekari hækkun verðbólguvæntinganna. Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina benti Már Guðmundsson Seðlabankastjóri þó á að slík áminning gæti hæglega verið í öllum yfirlýsingum nefndarinnar en væntanlega hefur hækkunarleitni í síðustu mælingum á verðbólguvæntingum haft áhrif á að þessi setning fær inni í yfirlýsingunni nú. Verðbólguvæntingar eru þó enn í grennd við verðbólgumarkmið bankans á flesta kvarða líkt og við fjöllum um í Korni nýverið.

Svipaður hagvöxtur en ögn meiri verðbólga

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir aðeins meiri hagvexti í ár (3,6%) en í fyrri spá (3,3%). Samsetning hagvaxtar á árinu er auk þess hagstæðari, með hægari vexti þjóðarútgjalda og hagstæðara framlagi utanríkisviðskipta (bæði meiri útflutningsvexti og minni vexti innflutnings) en var í fyrri spá. Alla jafna ætti slík tilfærsla á vexti frá innlendri eftirspurn yfir í utanríkisviðskipti að draga heldur úr þensluþrýstingi og þar með þörf fyrir peningalegt aðhald. Hagvaxtarspá fyrir næstu tvö ár er lítið breytt, nema hvað vöxturinn færist eilítið milli ára. Er nú gert ráð fyrir 2,7% hagvexti á næsta ári en 3,0% vexti árið 2020. Í maíspá bankans var þessu öfugt farið.

Ný verðbólguspá Seðlabankans hljóðar upp á aðeins meiri verðbólgu að meðaltali á næsta ári (2,8%) en fyrri spá (2,6%). Nýja verðbólguspáin er áþekk okkar nýjustu verðbólguspá og hljóðar upp á verðbólgu rétt við markmið bankans út áratuginn. Á kynningarfundinum í morgun ítrekaði Seðlabankastjóri að ekki ætti að horfa á 2,5% verðbólgumarkmið bankans sem algilt skammtímamarkmið, heldur fremur horfa til hvort verðbólga væri við markmið að jafnaði til meðallangs tíma. Það má því segja að enn sé bitamunur en ekki fjár á verðbólguhorfum og verðbólgumarkmiðinu samkvæmt spám okkar og Seðlabankans.

Þá gerir Seðlabankinn ráð fyrir að gengi krónu haldist á svipuðum slóðum og nú út spátímann, en áfram verði þó lítilsháttar afgangur af utanríkisviðskiptum. Virðist því mat bankans í stórum dráttum vera að raungengi krónu sé ekki svo hátt að það ógni ytra jafnvægi þjóðarbúsins að sinni. Aðspurður sagði Már að raungengið virtist vera í samræmi við jafnvægisgengi en áhyggjur Seðlabankafólks sneri fremur að því hvort hætta væri á að gengið hækkaði umtalsvert á komandi fjórðungum. Væri það þáttur í því mati peningastefnunefndar að ekki væri tímabært að slaka á innflæðishöftum að sinni.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall