Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í desember

11.12.2015

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% í desember frá nóvembermánuði. Gangi spáin eftir verður verðbólga óbreytt í 2,0% í desember. Verðbólga verður því miðað við spána áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa heldur batnað frá síðustu spá okkar, en til meðallangs tíma eru horfurnar lítið breyttar. Horfur eru á að verðbólga verði lág fram á næsta vor, en aukist þegar líður á árið 2016. Verður hún samkvæmt spánni rétt við verðbólgumarkmið að jafnaði á næsta ári, en nærri efri mörkum markmiðsins árið 2017. Hagstofan birtir VNV fyrir desember kl. 09:00 þann 22. desember næstkomandi.

Umtalsverð hækkun á flugfargjöldum...í bili

Meginbreyting spár okkar fyrir desember frá bráðabirgðaspá felst í mun meiri hækkun flugfargjalda í spánni nú. Gerum við ráð fyrir 25% hækkun á flugfargjöldum til útlanda, og að flugliðurinn í heild hækki um rúm 23% (0,29% í VNV). Flugfargjöld til útlanda hafa lækkað látlaust frá júlí síðastliðnum, og nemur lækkunin í heild nærri 40%. Desembermæling Hagstofu hittir þar að auki á árstíðarbundinn annatíma, og í því ljósi er ekki óeðlilegt að verð flugmiðans taki stökk upp á við. Þessi áhrif ganga svo að mestu til baka á næstu mánuðum að okkar mati.

Húsnæðisliður VNV hefur áhrif til 0,09% hækkunar í desember. Mæling okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni hækka um 0,4% í mánuðinum (0,06% í VNV). Greidd húsaleiga og aðrir kostnaðarliðir hafa svo áhrif til 0,03% hækkunar VNV.

Þá gerum við ráð fyrir að verðhækkun á mat- og drykkjarvörum hafi áhrif til 0,04% hækkunar VNV í desember. Er ástæðan að stærstum hluta árstíðabundin hækkun á kjöti og ávöxtum.

Á móti vegur 2,3% verðlækkun á fötum og skóm (-0,10% í VNV), þar sem einna helst gætir fyrirfram áhrifa af yfirvofandi afnámi vörugjalda á fatnað innfluttan frá löndum utan EES-svæðisins. Einnig vegur 1,9% lækkun á eldsneytisverði til 0,07% lækkunar VNV í desember í spá okkar. Eldsneytisverð hefur almennt lækkað á bensínstöðvum, en við bætist að Skeljungur breytti hluta af Orku-stöðvum sínum í Orkan X, þar sem eldsneyti er selt á lægra verði en á þjónustustöðvum án þess að til þess þurfi sérstakt auðkenni. Mun Hagstofan því væntanlega taka tillit til lægra verðs þessara nýju stöðva, ólíkt því sem er um fyrri lágverðsstöðvar þar sem krafist er skráningar.

Hófleg verðbólga framan af ári 2016

Á fyrsta fjórðungi næsta árs gerum við ráð fyrir samtals 0,5% hækkun VNV. Spáum við 0,6% lækkun í janúar, 0,6% hækkun í febrúar og 0,5% hækkun í mars.

Janúar markast ávallt af mótverkandi kröftum útsöluáhrifa til lækkunar annars vegar, og áramótahækkunum á gjaldskrám til hækkunar hins vegar. Við teljum að útsöluáhrifin muni hafa vinninginn að þessu sinni, en þar gerum við ráð fyrir svipuðum áhrifum og síðustu ár. Hins vegar gætu gjaldskrárhækkanir orðið í vægari kantinum, ekki síst þar sem veitukostnaður virðist munu hækka minna en oft áður. Auk þess gengur desemberhækkun flugfargjalda að stórum hluta til baka í janúar í spá okkar, og horfur eru á að eldsneyti lækki frekar hérlendis í kjölfar lækkunar síðustu vikna erlendis.

Febrúar og mars eru jafnan talsvert litaðir af útsölulokum, og svo er einnig í spá okkar. Einnig mun húsnæðisliður hækka jafnt og þétt samkvæmt spánni, og hefur svipuð áhrif til hækkunar og verið hefur undanfarið að jafnaði. Verðbólga mun samkvæmt spánni hjaðna á 1. ársfjórðungi og mælast 1,5% í mars.

Vaxandi verðbólga þegar frá líður

Þegar líður á árið 2016 gerum við ráð fyrir að bæti í verðbólgutaktinn. Teljum við að verðbólgan fari yfir 2,5% verðbólgumarkmiðið næsta haust, og verði komin í 3,5% í árslok 2016. Ári síðar gerum við ráð fyrir að verðbólgan mælist einnig 3,5%. Ástæður fyrir vaxandi verðbólgu eru fyrst og fremst mikill innlendur kostnaðarþrýstingur vegna ríflegra kjarasamninga og hitnunar hagkerfisins. Áhrif verðhjöðnunar á innfluttum vörum munu einnig fjara út samkvæmt spá okkar, enda gerum við ráð fyrir stöðugu gengi út spátímann og lítilsháttar hækkun á alþjóðlegu vöruverði.

Krónan er líkt og fyrri daginn einn helsti óvissuþátturinn í spá okkar. Til skamms tíma virðast meiri líkur á styrkingu hennar en veikingu, enda hefur innflæði gjaldeyris verið viðvarandi síðustu misserin og útlit er fyrir að slit búa gömlu bankanna og losun aflandskróna muni ekki hafa í för með sér verulegt gjaldeyrisútflæði á heildina litið. Frekari styrking krónu gæti þó reynst skammgóður vermir, þar sem frekari hækkun raungengisins grefur að okkar mati undan samkeppnishæfni þjóðarbúsins og eykur að sama skapi hættu á gengisfalli síðar meir. Einnig gæti hækkun launa reynst hraðari næsta kastið en við gerum ráð fyrir, sem vegur þá til aukinnar verðbólgu á næstu misserum.

Verðbólguspá fyrir desember

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall