Morgunkorn Íslandsbanka

Metafgangur af þjónustujöfnuði í fyrra

01.03.2017

Afgangur af þjónustujöfnuði í fyrra var sá mesti frá upphafi. Meginástæðan er vitaskuld hraður vöxtur ferðaþjónustunnar, sem nú er orðin langstærsti útflutningsgeiri þjóðarbúsins. Þjónustuafgangurinn er helsta ástæða fyrir myndarlegum viðskiptaafgangi árið 2016, og er útlit fyrir að sama verði uppi á teningnum í ár.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar voru þjónustuviðskipti við útlönd jákvæð um 43,4 ma. kr. á síðasta ársfjórðungi 2016. Er það nærri tvöfalt meiri afgangur en á sama tíma árið áður. Þennan aukna afgang má fyrst og fremst þakka 50% aukningu í tekjum vegna ferðalaga og 13% aukningu í tekjum af samgöngum á milli ára. Þessir liðir áttu hvað stærstan þátt í að þjónustuútflutningur jókst á fjórðungnum um 16% á milli ára, en hann nam tæpum 143 mö. kr. á tímabilinu. Þjónustuinnflutningur stóð hins vegar nánast í stað á sama tíma, og nam alls ríflega 99 mö. kr. á lokafjórðungi síðasta árs.

Þjónustuafgangur nærri 11% af VLF í fyrra

Á árinu 2016 í heild var þjónustujöfnuður jákvæður um 260,3 ma. kr., sem samsvarar tæplega 11% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF). Er það aukning um rúma 58 ma. kr. á milli ára. Rétt eins og í ofangreindum ársfjórðungstölum áttu auknar tekjur af ferðamönnum langstærstan þátt í auknum afgangi á árinu í heild. Þjónustuútflutningur í fyrra nam alls um 649 mö. kr., og jókst hann í krónum talið um tæpa 75 ma. kr. milli ára. Þar af jukust tekjur vegna ferðalaga um rúma 78 ma. kr. og tekjur af samgöngum og flutningum um 13 ma. kr. Á móti varð lítilsháttar samdráttur í ýmsum öðrum tegundum þjónustuútflutnings. Þjónustuinnflutningur á síðasta ári nam hins vegar tæpum 389 mö. kr. og jókst um ríflega 16 ma. kr. milli ára. Var aukningin fyrst og fremst vegna neyslu Íslendinga erlendis enda var árið 2016 metár í utanlandsferðum Íslendinga.

Meiri vöruskiptahalli vegur á móti vaxandi þjónustuafgangi

Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd var um 159 ma. kr. á síðasta ári samkvæmt nýrri brúartöflu Hagstofu fyrir slík viðskipti, sem aðlagar vöruskiptatölur stöðlum greiðslujafnaðar. Það samsvarar tæpum 7% af VLF ársins. Þar kemur fram að vöruskiptahalli nam tæpum 102 mö. kr. í fyrra m.v. greiðslujafnaðargrunn, sem er u.þ.b. 7 ma. kr. minni halli en lesa mátti beint úr vöruskiptatölum. Á milli ára minnkaði samanlagður vöru- og þjónustuafgangur um tæpa 8 ma. kr., en afgangurinn er þó sá þriðji mesti frá upphafi. Skrifast þessi afgangur alfarið á 66 ma. kr. meiri vöruskiptahalla á milli ára. Í krónum talið er rótin að þessum aukna halla samdráttur í útflutningstekjum, en sé leiðrétt fyrir gengis- og verðhreyfingum er ástæðan þó fyrst og fremst sú að innflutningur jókst mun hraðar í magni mælt en útflutningur. Þannig sýndu fyrstu tölur Hagstofunnar fyrir magnþróun vöruinnflutnings og -útflutnings allt árið 2016 að innflutningur jókst um 13,5% í magni talið á sama tíma og útflutningur jókst um 0,8%.

Ferðaþjónustan langstærsti útflutningsgeirinn

Árið 2016 var fyrsta árið í hagsögu lýðveldisins þar sem þjónustuútflutningur reyndist meiri í krónum talið en vöruútflutningur. Endurspeglar það hversu mikið vægi ferðaþjónustunnar er orðið í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Tölur um samanlagðar tekjur af erlendum ferðamönnum hérlendis og erlendis fyrir allt árið 2016 munu liggja fyrir á föstudag, en við áætlum að þær hafi numið u.þ.b. 39% af heildar útflutningstekjum í fyrra. Til samanburðar námu tekjur af útflutningi sjávarafurða u.þ.b. 19% og tekjur af álútflutningi 15% heildartekna af útflutningi í fyrra að okkar mati. Bilið á milli tekna ferðaþjónustunnar annars vegar, og vöruútflutningsgreinanna hins vegar, á svo væntanlega eftir að aukast enn meira á þessu ári enda eru horfur á mun hraðari vexti í ferðaþjónustu en í sjávarútvegi eða áliðnaði.

Gefur tóninn fyrir viðskiptajöfnuðinn

Líklegt má telja að viðskiptajöfnuður ársins 2016 reynist á svipuðum nótum og vöru- og þjónustujöfnuðurinn, en Seðlabankinn birtir þær tölur á morgun. Þar til nýlega hafði jöfnuður frumþáttatekna oftast talsverð neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð, enda var erlend staða þjóðarbúsins ávallt talsvert neikvæð. Nú er staðan hins vegar sú að erlendar eignir þjóðarbúsins eru lítillega umfram erlendar skuldbindingar, og hefur framlag þáttatekna að sama skapi orðið tiltölulega lítið undanfarna ársfjórðunga, og raunar oftar jákvætt en hitt. Sem hlutfall af VLF er því líklegt að viðskiptaafgangur árið 2016 reynist á bilinu 6 – 7%. Með hliðsjón af þeim tölum er ekki að undra að gengi krónu hafi styrkst verulega í fyrra, og erlend staða þjóðarbúsins batnað.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall