Morgunkorn Íslandsbanka

Lækkandi fata- og flugverð skýrir hjaðnandi verðbólgu í nóvember

28.11.2017

Veruleg verðlækkun á flugfargjöldum og fatnaði er ein helsta skýring þess að verðbólga reyndist minni í nóvember en vænst var. Hækkun íbúðaverðs virðist hins vegar hafa tekið við sér að nýju, þótt takturinn sé mun hægari en fyrr á árinu. Útlit er fyrir að verðbólga verði undir 2,5% markmiði Seðlabankans enn um sinn.

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,16% í nóvember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 1,7% en var 1,9% í október. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,49% í nóvember og m.v. þá vísitölu mælist 2,3% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. 

Mæling nóvembermánaðar er fyrir neðan birtar spár.  Við spáðum óbreyttri VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,1% lækkun – 0,2% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að mestu í meiri lækkun flugfargjalda en við spáðum, og verðlækkun á fötum og skóm. Á móti vegur að markaðsverð húsnæðis hækkaði meira samkvæmt mælingu Hagstofunnar en við áttum von á.

Húsnæðisverð hækkar á ný

Síðustu þrjá mánuði hefur markaðsverð á íbúðarhúsnæði nánast staðið í stað samkvæmt mælingu Hagstofu, en sú mæling er uppistaðan í undirliðnum Reiknuð húsaleiga sem vegur þungt í vísitölu neysluverðs. Nú ber hins vegar svo við að markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkar um 0,75% í nóvembermælingu VNV. Hækkunin nú er fyrst og fremst tilkomin vegna nærri 3% hækkunar húsnæðis á landsbyggðinni, en fjölbýli á höfuðborgarsvæði hækkar um 0,4% á meðan sérbýli lækkar um 0,2%.
 
Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landsbyggðinni hækkað um 22%. Hækkunin á landsbyggðinni á því tímabili er því öllu hraðari en á höfuðborgarsvæðinu, en þar nam hún ríflega 17% í fjölbýlum á þennan mælikvarða en tæpum 19% hvað sérbýli varðar. Á heildina litið hefur íbúðaverð hækkað um ríflega 18% undanfarna 12 mánuði, og hefur hækkun íbúðaverðs hefur verið einn helsti hækkunarvaldur VNV á því tímabili. Verður fróðlegt að sjá hvort hinar nýju tölur gefa tóninn varðandi hækkunartakt komandi mánaða, eða hvort þær voru frekar til marks um fjörkipp í annars hóflegum hækkunartakti líkt og síðustu mánuðir bentu til.

 

Aukin samkeppni segir til sín í verðlagi

Auk húsnæðisliðarins kom veruleg lækkun flugfargjalda og verðs á fötum og skóm okkur hvað mest á óvart.Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um tæplega 20% (-0,22% í VNV) og fata- og skóverð um 3,5% (-0,13% í VNV) frá fyrri mánuði. Í báðum þessum neysluflokkum hefur samkeppni aukist umtalsvert síðustu misseri. Hvað flugfargjöld varðar er alla jafna árstíðarsveifla til lækkunar í nóvember, þótt lækkunin hafi verið óvenju hressileg að þessu sinni. Verð á fatnaði og skóm hefur nú lækkað um nærri 6% frá miðju ári. Þá lækkaði verð á þjónustu veitinga- og gististaða um 0,7% (0,03% í VNV) og er líklegt að þar sé að miklu leyti um árstíðabundin áhrif að ræða.

Hagstofan sendi í kjölfar verðbólgutalnanna út fréttatilkynningu þar sem fjallað er um áhrif breytinga á innkaupum heimila með tilkomu nýrra verslana. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að heimili landsins hafi breytt innkaupum sínum í nokkrum mæli í kjölfar þessa. Á sama tíma hafa verslanir sem fyrir eru á markaði lækkað verð á ýmsum vörum til að mæta aukinni samkeppni og þannig stuðlað að nýju markaðsjafnvægi. Telur Hagstofan því að áhrifin af tilkomu hinna nýju verslana á neysluverð virðist vera komin fram í vísitölu neysluverðs.

Verðbólga áfram undir markmiði

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aukast heldur næstu mánuðina. Við spáum 0,3% hækkun VNV í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,9% í árslok. Í janúar 2018 spáum við 0,3% lækkun VNV, en 0,7% hækkun í febrúar. Verðbólgan verður samkvæmt því áfram undir 2,5% markmiði Seðlabankans næstu 3 mánuði hið minnsta, og raunar gæti orðið áframhald á þeirri þróun ef verðhækkun íbúðarhúsnæðis verður með hóflegra móti og krónan gefur ekki verulega eftir.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,2% í mánuði hverjum að jafnaði. Það eru þó talsvert minni áhrif en voru framan af yfirstandandi ári. Í desember gerum við ráð fyrir árstíðabundinni hækkun flugfargjalda. í janúar munu að vanda togast á hækkunaráhrif af hækkun opinberra krónutölugjalda og verðskráa annars vegar, og lækkunaráhrif af útsölum hins vegar. Útsölulok munu svo að vanda setja svip sinn á mælingu febrúarmánaðar. 

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall