Morgunkorn Íslandsbanka

Hóflegur vöxtur í kortatölum

18.05.2015

Kortavelta einstaklinga jókst um 3,5% í apríl sl. frá sama tíma í fyrra að raunvirði (m.v. VNV án húsnæðis) samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslukortaveltu. Þrátt fyrir að um ágætis vöxt hafi verið að ræða er þetta nokkuð hægari vöxtur en verið hefur að jafnaði síðasta árið (5,0%), þá bæði í veltu innanlands sem og erlendis. Þannig jókst kortavelta einstaklinga innanlands um 2,2% (3,5%) að raungildi á milli ára en kortavelta erlendis um 13,2% (17,5%). Sé tekið mið af fyrstu fjórum mánuðum ársins nemur raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga 4,9% frá sama tímabili í fyrra, þar af 3,7% innanlands en 15,4% erlendis.

Þrátt fyrir að vöxturinn í apríl hafi verið eitthvað undir því sem hann hefur að jafnaði verið síðasta árið þá teljum við það ekki til marks um að hægja sé á vextinum. Þannig eru oft á tíðum miklar sveiflur í kortatölum á milli mánaða, sem getur m.a. skýrst af árstíðarbundnum þáttum eins og hvort páskarnir lenda í mars eða apríl. Í mars sl. var vöxtur í kortaveltu einstaklinga mjög myndarlegur, eða um 9,3% að raunvirði á milli ára, sem við teljum að líklega megi rekja til þess að stór hluti af innkaupum Íslendinga vegna páskaleyfa hafi átt sér stað í mars í ár en í apríl í fyrra. 

Myndarlegt gjaldeyrisinnflæði tengt ferðaþjónustu 

Líkt og fyrri daginn var mikill vöxtur í kortaveltu útlendinga í aprílmánuði. Þannig nam kortavelta útlendinga hér á landi tæplega 9,4 mö. kr. í mánuðinum, sem er rúmlega 2,6 mö. kr. meira en velta þeirra var í apríl í fyrra. Jafngildir þetta aukningu upp á 39% í krónum talið á milli ára. Þetta bendir til þess að um ágætis fjölgun þeirra hafi verið að ræða á sama tíma, en Ferðamálastofa hefur enn sem komið er ekki birt tölur um fjölda erlendra ferðamanna í apríl sl. 

Kortavelta Íslendinga í útlöndum (vegna ferðalaga og netviðskipta) nam alls 8,0 mö. kr. í apríl sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga erlendis) þar með jákvæður um 1,3 ma. kr. í mánuðinum. Þetta er í fyrsta sinn sem kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi er umfram Íslendinga í útlöndum í aprílmánuði.

Gríðarleg umskipti

Frá áramótum talið nemur kortavelta útlendinga hér á landi 34,4 mö. kr. en Íslendinga í útlöndum 28,9 mö. kr. Hefur kortavelta útlendinga aukist um 39% í krónum talið á milli ára en Íslendinga aukist um 16% á sama tímabili. Er kortaveltujöfnuður þar með hagstæður um 5,5 ma. kr. á þessu tímabili samanborið við að vera svo til á pari á sama tíma í fyrra, en fyrir þann tíma var jöfnuðurinn ávallt í halla á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Við teljum að þessi jöfnuður muni verða enn hagstæðari á komandi mánuðum eftir því sem háannatími brestur á í ferðaþjónustunni.

Seðlabankinn styrkir gjaldeyrisforðann

Sá mikli uppgangur sem verið hefur í ferðaþjónustu er að mati okkar veigamikill áhrifaþáttur í þeim stöðugleika sem einkennt hefur gengi krónu undanfarin misseri. Má þar nefna að á fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur Seðlabankinn keypt gjaldeyri sem nemur 291 m. evra (jafnvirði tæplega 43,4 ma. kr.) á millibankamarkaði og jók því gjaldeyrisforða sinn sem því nemur. Á sama tíma hefur gengi krónu hins vegar verið stöðugt gagnvart körfu helstu viðskiptamynta og endurspegla kaup Seðlabankans því að verulegu leyti það nettó gjaldeyrisinnflæði sem var á innlendum gjaldeyrismarkaði á tímabilinu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall