Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 11. maí nk.

04.05.2016

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SBÍ) muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi sínum 11. maí nk. Verður rökstuðningur nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum væntanlega sá að verðbólga er undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og útlit fyrir að verðbólgan verði hófleg næsta kastið samkvæmt nýrri verðbólguspá bankans sem birt verður samhliða stýrivaxtaákvörðuninni nú.  

Líkt og í yfirlýsingu nefndarinnar vegna síðustu vaxtaákvörðunar mun nefndin að okkar mati árétta í yfirlýsingu sinni nú að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni. Þó að verðbólguhorfur hafi batnað litið eitt til skemmri tíma, þá eru líkur á því að verðbólgan aukist nokkuð undir lok þessa árs og þegar líður á næsta ár, og að hún fari þá nokkuð yfir verðbólgumarkmiðið. 

Verðbólgan hefur verið undir spá Seðlabankans

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,21% í apríl og var hækkunin undir birtum spám sem voru á bilinu 0,3-0,4% hækkun. Verðbólgan mælist nú 1,6% en var 2,2% við síðustu vaxtaákvörðun í mars. Hefur verðbólgan þar með hjaðnað frá síðasta fundi peningastefnunefndar. Verðbólga m.v. VNV án húsnæðis mælist nú 0,2% og hefur hjaðnað frá síðustu vaxtaákvörðun en þá mældist hún 0,7%. 

Við teljum að verðbólgan muni verða áfram hófleg næstu mánuði og haldast undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út þetta ár. Við spáum því hins vegar að verðbólgan fari yfir verðbólgumarkmiðið í byrjun næsta árs og verði yfir markmiði bankans allt það ár. Gangi spáin eftir mun verðbólga hafa verið undir verðbólgumarkmiði bankans í þrjú ár þegar hún fer yfir það á næsta ári.   

Peningastefnunefnd mun hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína nýja þjóðhags- og verðbólguspá bankans sem birt verður samhliða vaxtaákvörðuninni nú. Teljum við að verðbólguhorfur hafi batnað nokkuð frá síðustu verðbólguspá bankans sem birt var í febrúar sl. Spáum við því að verðbólgan á núverandi ársfjórðungi verði allnokkuð undir febrúarspá bankans, eða 1,5% samanborið við spá bankans um 1,9% verðbólgu. Verðbólgan mun síðan samkvæmt okkar spá haldast undir febrúarspánni fram á seinni helming ársins 2018.

Peningastefnunefnd mun einnig við ákvörðun sína nú vera með niðurstöður nýrrar könnunar á verðbólguvæntingum aðila á fjármálamarkaði. Síðast var slík könnun gerð í byrjun febrúar síðastliðins í tenglum við vaxtaákvörðunina þá og útgáfu Peningamála. Samkvæmt þeirri könnun reiknuðu markaðsaðilar með því að verðbólga yrði 3% eftir eitt ár og 3,5% eftir tvö ár. Reiknum við með því að breytingar í þessum væntingum endurspegli ofangreindar breytingar í verðbólguhorfum. 

Hagvaxtarhorfur áfram góðar 

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja þjóðhagsspá. Mun nýja spáin m.a. taka með í reikninginn tölur um landsframleiðslu síðastliðins árs sem birtar voru eftir síðustu spá. Samkvæmt þeim tölum var hagvöxturinn á síðastliðnu ári 4,0%. Er þetta nálægt spá Seðlabankans fyrir það ár, en hann reiknaði með 4,1% hagvexti á síðasta ári.  

Reikna má með því að ný spá seðlabankans sé á þann veg að heldur bæti í hagvöxtinn í ár frá síðasta ári. Sé t.d. tekið mið af kortaveltu og innflutningstölum virðist mikill vöxtur hafa verið í þáttum tengdum einkaneyslu og fjárfestingu á fyrstu mánuðum þessa árs. Umtalsverður vöxtur virðist því vera í þjóðarútgjöldum um þessar mundir. Einnig er mjög kröftugur vöxtur í þjónustuútflutningi og sérstaklega í gjaldeyristekjum af ferðaþjónustu. Drifkraftar hagvaxtar á þessu ári verða því líkt og í fyrra einkaneysla, fjárfesting atvinnuvega og þjónustuútflutningur. Vegna verulegrar aukningar í innflutningi, sem aftur tengist hröðum vexti í innlendri eftirspurn og útflutningi, má reikna með að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði neikvætt. Afgangur verður engu að síður umtalsverður á utanríkisviðskiptum í ár, sem er sérstakt í sögulegu ljósi m.v. að hagvöxtur hefur verið samfelldur hér á landi síðan á árinu 2011.

Virkir stýrivextir enn við lægri mörk vaxtagangsins

Samhliða uppgjöri slitabúa gömlu bankanna og losun aflandskróna úr hagkerfinu gæti lausafé í umferð minnkað. Peningastefnunefnd gæti viljað bregðast við þessari þróun með því að annað hvort breyta vaxtaganginum, þ.e. þrengja hann, eða með því að lækka alla vaxtaflóruna. Meðlimir peningastefnunefndar hafa sagt að þegar og ef þessi breyting eigi sér stað sé það ekki partur af peningastefnunni, en ef nefndin verður í þeim fasa að vilja herða aðhald peningastefnunnar á sama tíma þá myndi nefndin sæta lagi og láta hækkunina koma fram í auknu peningalegu aðhaldi. Færsla virkra stýrivaxta að miðju vaxtagangsins verður þá til þess að stýrivöxtum verði breytt minna en ella hefði þurft. 

Peningastefnunefndin fylgist vel með markaðsvöxtum og lausafjárstöðu bankann í tengslum við þetta. Ef lausafjárstaða bankanna, a.m.k. einhverra þeirra, breytist yfir í það að vera skortstaða þá breytast lykilvextir Seðlabankans úr því að vera innlánsvextir yfir í að vera veðlánavextir, en þeir eru nú 0,75 prósentum hærri en innlánsvextirnir. Fari bankakerfið í heild að taka veðlán að jafnaði þá hækka virkir stýrivextir bankans sem þessu nemur. Vilji nefndin ekki þá hækkun virkra stýrivaxta sem þessu fylgir gæti hún t.d. tekið allan vaxtaganginn niður um 75 prósentur. Ef millibankavextir fara að þokast upp frá innlánsvöxtunum þá væri það merki um að þetta væri að gerast. Engin merki eru enn um að svo sé nú.

Óbreyttir stýrivextir í mars í takti við spár

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi sínum í mars. Var það í takti við spá okkar og annarra sem birta spár um stýrivexti bankans. Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu nefndarinnar var líka orðrétt óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun. Talar nefndin um í yfirlýsingu sinni að alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafi veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt, en að það breyti hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni. 

Samkvæmt fundargerð peningastefnunefndar vegna ofangreindar vaxtaákvörðunar taldi enginn nefndarmaður tilefni til að breyta vöxtum bankans að þessu sinni. Voru nefndarmenn sammála um að rétt væri að staldra við og halda vöxtum óbreyttum, en á næsta fundi nefndarinnar lægi fyrir ný spá bankans þar sem áhrif nýlegrar framvindu á verðbólguhorfur á næstu misserum yrðu metin. Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra. 

Spáum samanlagt 0,75 prósenta hækkun virkra stýrivaxta á þessu og næsta ári 

Við reiknum með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun virkra stýrivaxta undir lok þessa árs. Spáum við 0,5  prósentustiga hækkun virkra stýrivaxta á síðasta fjórðungi ársins. Við það bætist 0,25 prósentustiga hækkun virkra stýrivaxta í upphafi næsta árs. 

Hugsanlegt er að þessi breyting muni eiga sér stað að einhverju eða öllu leyti þegar virkir stýrivextir bankans færast nær miðju vaxtagangsins. Talsverð óvissa er um hvenær og hvort sú breyting muni eiga sér stað á næstunni. Mun sú breyting  verða að okkar mati ígildi um 0,75 prósentustiga hækkunar virkra stýrivaxta. Verði sú hækkun á sama tíma og peningastefnunefnd telur hentugt að hækka stýrivexti bankans verður ekki um neina eiginlega breytingu stýrivaxta að ræða.

Mikil óvissa um gengisþróun krónunnar 

Gangi áætlun stjórnvalda um afléttingu gjaldeyrishafta á næstu misserum eftir hefur það í för með sér aukna óvissu um gengisþróun krónu, en Seðlabankinn hefur haft styrk tök á henni undanfarið. Má segja að þetta sé einn af stærstu óvissuþáttum stýrivaxtaspár okkar og í leiðinni spár okkar um verðbólguþróun. Spá okkar um stýrivexti byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verða á gjaldeyrishöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær munu ekki raska stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaðinum og ekki kalla á hækkun stýrivaxta til að tryggja þann stöðugleika. Áætlun um losun hafta styður við þessa forsendu okkar enda er þar lögð áhersla á að takmarka sveiflur á gengi krónu og lágmarka hættu á greiðslujafnaðaráfalli eftir því sem aflétting hafta vindur fram. 

Miðað við stöðu hagkerfisins í hagsveiflunni, umtalsverðan afgang af utanríkisviðskiptum og stórbætta erlenda stöðu þjóðarbúsins teljum við líkur á því að raungengi krónunnar muni hækka áfram á næstu misserum. Að stórum hluta mun það eiga sér stað fyrir tilstilli meiri innlendra kostnaðarverðshækkana en í helstu viðskiptalöndunum. Góðar líkur eru hins vegar einnig á því að nafngengi krónunnar muni hækka frekar, sem mun þá verða önnur þróun en við reiknum með í okkar spá. Verði sú þróun raunin eru líkur á minni verðbólgu næsta kastið, og sömuleiðis dregur þá úr líkum á því að peningastefnunenfnd Seðlabankans vilji hækka virka stýrivaxti bankans á þessu og næsta ári.  

Hér má nálgast stýrivaxtaspánna. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall