Morgunkorn Íslandsbanka

Mikill einkaneysluvöxtur í upphafi árs

14.03.2014

nullÚtlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu muni mælast umtalsverður á fyrsta fjórðungi ársins, ef marka má nýjar tölur Seðlabankans um greiðslukortaveltu. Vöxturinn er að verulegu leyti til kominn vegna mikillar aukningar í netverslun erlendis, ekki síst í kínverskum netverslunum.

Raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga milli ára var 6,1% í febrúar. Þar af jókst kortavelta innanlands að raungildi um 4,5% en kortavelta erlendis um 24,1%. Vöxturinn er heldur hægari en í janúar, þegar hann reyndist 7,5% á þennan mælikvarða. Þó er hér tvímælalaust um býsna myndarlegan vöxt að ræða, og samanlagt hefur kortavelta landsmanna aukist að raungildi um 6,9% það sem af er 1. fjórðungi ársins frá sama tíma í fyrra. Þar af nemur vöxturinn innanlands 5,4% en vöxturinn erlendis ríflega 24%.

Kaupgleði í kínverskum netbúðum

nullÞessi hraði vöxtur í erlendri kortaveltu er athyglisverður, sér í lagi í ljósi þess að erlend kortavelta hefur vaxið mun hraðar en sem nemur auknum utanlandsferðum Íslendinga. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu fjölgaði brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöll um ríflega 6% á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra, og er því vöxtur erlendu kortaveltunnar fjórfalt hraðari en sem nemur aukningu í utanlandsferðum.

Nærtæk skýring á þessum mun virðist vera sá gríðarlegi vöxtur sem verið hefur undanfarið ár í viðskiptum landsmanna við póstverslanir í Kína og Hong Kong. Samkvæmt frétt RÚV fyrr í vikunni voru póstsendingar frá þessum löndum 18.500 talsins í janúar sl, og þar með fleiri en þær voru allt árið 2012. Er aukin verslun í gegnum netverslunarvefi á borð við AliExpress talin meginástæða þessarar miklu aukningar, en mest mun vera pantað af fatnaði og raftækjum í slíkum netverslunum. Enn gæti bætt í áhuga landsmanna á fatakaupum í slíkum verslunum þegar líður á árið og fríverslunarsamningur við Kína tekur gildi, en þá fellur niður um 15% tollur á fatnað sem framleiddur er þar í landi.

Bætir verulega í vöxt einkaneyslu

nullKortatölurnar benda til þess að vöxtur einkaneyslu verði myndarlegur á 1. ársfjórðungi. Vöxtur kortaveltu hefur ekki verið jafnhraður og á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá miðju ári 2011, en á þeim tíma mældist vöxtur einkaneyslu í kringum 5% að raunvirði. Allsterkt samband hefur löngum verið milli raunþróunar kortaveltu og einkaneyslu, þótt fylgnin þar á milli hafi raunar minnkað nokkuð síðustu misserin. Því til viðbótar má nefna að samkvæmt nýlegri frétt á Vísi.is jókst sala nýrra bifreiða til einstaklinga um 15% á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra, en samdráttur í bílasölu hafði væntanlega sitt að segja um fremur lítinn vöxt einkaneyslu á síðasta fjórðungi liðins árs.

Einkaneysla óx aðeins um 1,2% að raungildi á síðasta ári, og var því dragbítur á hagvöxt fremur en hitt, en samkvæmt framangreindum tölum virðist það heldur betur vera að breytast, í bili að minnsta kosti. Það má svo spyrja hvort innstæða verður hjá heimilunum fyrir svo hröðum vexti þegar fram í sækir, þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur ekki vaxið í líkingu við neyslugleðina sem lesa má úr kortatölunum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall