Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga enn við markmið Seðlabankans

30.08.2018

Verðbólga hjaðnaði lítillega í ágúst og er nú við markmið Seðlabankans. Verulega hefur dregið úr áhrifum hækkandi íbúðaverðs á verðbólguþróun. Útlit er fyrir að verðbólga verði áfram innan seilingar við verðbólgumarkmiðið á næstunni.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,20% í ágúst skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,6% en var 2,7% í júlí. Verðbólga er því áfram rétt við markmið Seðlabankans. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,10% í ágúst og m.v. þá vísitölu mælist 1,3% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling ágústmánaðar er undir öllum birtum spám.  Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,3% – 0,4% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur m.a. í minni hækkun íbúðaverðs en við væntum og seinkun á áhrifum útsöluloka miðað við fyrra ár.

Enn dregur úr hækkunartakti íbúðaverðs 

Eftir myndarlega hækkun íbúðaverðs í verðbólgumælingum Hagstofunnar síðustu mánuði var hækkunin í ágústmánuði hófleg. Í heild hækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,4% á mælikvarða Hagstofunnar sem byggir á þriggja mánaða meðalverði í kaupsamningum. Hækkunin milli mánaða var áþekk hvort sem litið er til sérbýla eða fjölbýla, höfuðborgarsvæðis eða landsbyggðar.

Undanfarið hefur dregið jafnt og þétt úr hækkunartakti íbúðaverðs hér á landi eftir mjög stigvaxandi hækkunartakt frá miðju ári 2016 fram á sumarið 2017. 12 mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs er nú 6,1% og hefur ekki verið hægari frá ársbyrjun 2015. Áhugavert er að skoða innbyrðis þróun helstu undirliða í mælingu Hagstofunnar. Undanfarna 12 mánuði hefur fjölbýli á höfuðborgarsvæði til að mynda aðeins hækkað um tæp 3% á meðan sérbýli á höfuðborgarsvæði hefur hækkað um tæp 9% og íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað um ríflega 14%. Það leynir sér tæpast, ef horft er á grafið hér að ofan, að landsbyggðin er að draga talsvert á höfuðborgarsvæðið hvað íbúðaverð varðar þessa dagana. 

Ef skyggnst er dýpra ofan í tölurnar kemur í ljós að þessi myndarlegi hækkunartaktur landsbyggðarinnar skrifast að miklu leyti á verðþróun við jaðar höfuðborgarsvæðisins, t.d. í Reykjanesbæ, Árborg og á Akranesi. Líklegar skýringar á breyttri innbyrðis þróun eru annars vegar að framboð íbúða á höfuðborgarsvæði hefur verið að aukast jafnt og þétt undanfarið, og hins vegar að eftir mikla verðhækkun á höfuðborgarsvæði fóru fleiri að líta nágrannabyggðirnar hýru auga. Almennt teljum við hins vegar að þróunin undanfarið beri vott um betra jafnvægi á íbúðamarkaði en verið hefur síðustu ár.

Eðlilegri samsetning verðbólgunnar

Þótt ekki hafi orðið verulegar breytingar á verðbólgutaktinum undanfarið ár hefur samsetning verðbólgunnar breyst mikið. Fyrir ári síðan var verðbólgan nánast alfarið knúin af hækkun íbúðaverðs en innflutt verðhjöðnun vegna styrkingar krónu misserin á undan hélt aftur af verðbólgunni. Nú eru hins vegar allir megin undirliðir VNV að vega til hækkunar hennar þótt áhrif íbúðaverðs séu enn sýnu mest. Að okkar mati er þetta jákvæð þróun og sér í lagi má gleðjast yfir því að kostnaður við innlenda þjónustu virðist enn sem komið er hækka hóflega þrátt fyrir myndarlega hækkun launa síðustu misserin.

Verðbólga áfram við markmið Seðlabankans

Útlit er fyrir að verðbólga verði í nágrenni við markmið Seðlabankans næstu mánuðina. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,3% hækkun VNV í september, 0,3% hækkun í október en 0,1% hækkun VNV í nóvember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,9% í nóvembermánuði. Hins vegar gæti hækkun VNV í september orðið eitthvað meiri ef útsölulok koma af meiri krafti inn í mælinguna þá en þau hafa gert í september síðustu ár, en áhrif útsöluloka á ágústmælinguna voru í hóflegra lagi. Þá hefur eldsneytisverð hækkað nokkuð á síðustu dögum og gæti það sett svip á septembermælinguna.

Greinilegt var á yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans í gær og ummælum Seðlabankafólks í kjölfarið að þar á bæ hafa menn nokkrar áhyggjur af hækkun verðbólguvæntinga undanfarið. Enn sem komið er virðist þó ótímabært að vænta þess að verðbólga fari verulega yfir markmið Seðlabankans að jafnaði á næstu mánuðum og raunar hljóðar síðasta spá okkar upp á verðbólgu innan seilingar við markmiðið út áratuginn. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall