Morgunkorn Íslandsbanka

Auknar líkur á lækkun stýrivaxta í maí

03.04.2014

Meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans (SÍ) studdu allir tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 19. mars sl. Kemur þetta fram í fundargerð vegna síðasta nullvaxtaákvörðunarfundar Peningastefnunefndar sem Seðlabankinn var að birta. Hefur vaxtahaukur nefndarinnar þar með þagnað að nýju, en á vaxtaákvörðunarfundi í desember sl. hefði hann fremur viljað hækka vexti um 0,25 prósentur og í febrúar sl. kaus hann gegn tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta vexti og vildi hækka um 0,25 prósentur. Í ársskýrslu bankans, sem birt var í síðustu viku, kom svo fram að þarna var um að ræða aðalhagfræðing bankans, Þórarinn G. Pétursson.

Ræddu möguleikann á lækkun um 0,25 prósentur

Á fundinum ræddu nefndarmenn ólíka kosti varðandi breytingu vaxta bankans. Helst þótti koma til álita að halda vöxtum óbreyttum eða lækka þá um 0,25 prósentur. Eru þetta tíðindi, en á síðustu vaxtaákvörðunarfundum nefndarinnar hefur vaxtalækkun ekki komið til álita. Undirstrikar þetta enn frekar þann vaxtalækkunartón sem mátti skynnja í yfirlýsingu nefndarinnar vegna síðustu vaxtaákvörðunar, og í orðum Seðlabankastjóra í aðdraganda og samhliða þeirri ákvörðun.

Vildu sjá verðbólguvæntingar koma niður

Í fundargerðinni kemur fram að nefndarmenn voru sammála um að verðbólguhorfur hefðu batnað, en þó töldu þeir ekki tímabært að lækka vexti, meðal annars þar sem lengri tíma verðbólguvæntingar virtust enn vera töluvert yfir verðbólgumarkmiðinu. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur lækkað um 0,3 – 0,4 prósentur frá síðustu vaxtaákvörðun, og þá verður Seðlabankinn kominn með nýja mælingu á verðbólguvæntingum markaðsaðila þegar kemur að vaxtaákvörðuninni í maí. Reikna má með því að verðbólguvæntingar þessara aðila muni lækka. Horfur eru því á að myndin hvað verðbólguvæntingar varðar muni hafa breyst til batnaðar þegar að vaxtaákvörðuninni kemur.   

Samsetning hagvaxtar skiptir máli

Það er áhugavert að einn nefndarmaður hafði minni áhyggjur en aðrir af framtíðarverðbólguþróun að því leyti sem hagvöxtur væri drifinn áfram af ferðaþjónustu, þar sem væri vannýtt framleiðslugeta yfir vetrarmánuðina. Hann sagði auk þess að aðflutt vinnuafl gæti einnig mætt aukinn eftirspurn í ferðaþjónustu og fjölgun ferðamanna styrki gengi krónunnar vegna þess gjaldeyrisinnflæðis sem þeim fylgdi. Að mati þessa nefndarmanns væri ekki víst að hagvöxtur drifinn áfram af ferðaþjónustu auki hættu á verðbólgu eða kalli á hækkun vaxta í sama mæli og hagvöxtur drifinn áfram af innlendri eftirspurn.

Hefur haft áhrif á skuldabréfamarkaðinn í morgunn

nullSegja má að ofangreind atriði í fundargerðinni beri með sér að auknar líkur séu á að peningastefnunefndin komi til með að lækka stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunardegi þann 21. maí nk. Samkvæmt fundargerðinni voru nefndarmenn sammála um að það myndi fara eftir þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga næstu mánuði hvort skapast gæti tilefni til lækkunar nafnvaxta.

Hefur birting fundargerðarinnar haft áhrif á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa í morgun sem hefur lækkað um 1-5 punkta í ríflega 1,2 ma.kr. viðskiptum. Verði stýrivextir bankans lækkaðir í maí er það fyrsta vaxtalækkunin síðan í febrúar 2011 og fyrsta vaxtabreytingin síðan í nóvember 2012. Verður þá rofið lengsta samfellda tímabil óbreyttra stýrivaxta í yfir þrjá áratugi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall