Morgunkorn Íslandsbanka

Viðsnúningur á vinnumarkaði

23.08.2018

Leitni á vinnumarkaði virðist hafa breyst nokkuð eindregið á tímabilinu frá miðju ári 2016 fram á vordaga 2017. Fram að þeim tíma hafði sívaxandi spenna einkennt íslenskan vinnumarkað en margir helstu mælikvarðar á ástand hans bera hins vegar vott um stöðugleika eða jafnvel minnkandi spennu. Þetta lesum við úr mánaðargögnum Hagstofunnar um vinnumarkað til og með júlí 2018 sem birtust í morgun.

Talsvert flökt er í mánaðargögnum Hagstofu um vinnumarkaðinn og árstíðarsveifla í þeim er sterk. Því er gagnlegt að skoða lengri tíma leitni í gögnunum, t.d. með 12 mánaða hlaupandi meðaltali eins og hér er gert. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá að leitnin í atvinnuleysishlutfallinu á vinnumarkaði hefur verið eindregið til lækkunar linnulaust frá ársbyrjun 2011 fram á veturinn 2016-2017. Lækkaði hlutfallið að jafnaði um 0,06% af vinnuafli í mánuði hverjum árin 2011-2016. Frá ársbyrjun 2017 hefur hlutfallið aftur á móti að jafnaði verið stöðugt á þennan kvarða.

Svipaðar breytingar virðast hafa orðið á leitninni í hlutfalli starfandi. Á tímabilinu frá ársbyrjun 2012 fram í apríl 2017 er leitnin nokkuð stöðug og hækkaði hlutfall starfandi að jafnaði um 0,1 prósentu í mánuði hverjum á því tímabili. Frá maí 2017 hefur leitnin hins vegar snúist við og lækkað jafnt og þétt, um sem nemur 0,14 prósentur í mánuði hverjum.

Meiri sveiflur hafa verið í leitni fjölda vikulegra vinnustunda undanfarin ár en þó má þar einnig greina áþekka þróun. Eftir talsverðar sveiflur misserin á undan virðist hækkunarleitnin hafa verið nokkuð stöðug frá vordögum 2013 fram á mitt ár 2016. Að jafnaði fjölgaði vinnustundum um 0,02, þ.e. meðalvinnutíminn lengdist um 1 mínútu og 12 sekúndur, í hverjum mánuði á því tímabili. Eftir mitt ár 2016 hefur vikulegur vinnutími hins vegar styst að jafnaði um 1 mínútu og 48 sekúndur í mánuði hverjum á þennan kvarða.

Mikill uppgangur í mannaflsfrekum greinum á borð við ferðaþjónustu og mannvirkjagerð hefur sett mark sitt á vinnumarkað undanfarin ár og þörf fyrir fleiri vinnandi hendur verið í vaxandi mæli mætt af innfluttu vinnuafli. Miðað við ofangreindar tölur virðist hins vegar sem þrýstingur fari minnkandi á vinnumarkaði og hann færist jafnt og þétt nær jafnvægi líkt og víðar eru merki um í íslensku hagkerfi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall