Morgunkorn Íslandsbanka

Er að hægja á einkaneysluvexti?

22.06.2018

Helstu hagvísar sem gefa tóninn varðandi þróun einkaneyslu benda til þess að dregið hafi úr vexti hennar á öðrum ársfjórðungi. Neyslugeta heimilanna eykst nú öllu hægar en undanfarið, væntingar þeirra fara lækkandi og hægt hefur á raunvexti kortaveltu. Engu að síður á einkaneysla eftir að verða ein meginstoð þess hóflega vaxtar sem við gerum ráð fyrir í ár.

Hægari kaupmáttaraukning..

Nýlega birtar tölur Hagstofunnar um þróun launa og kaupmáttar í maí hljóða upp á 6,3% hækkun launa og 4,2% aukningu kaupmáttar launa í maímánuði frá sama mánuði ári fyrr. Þótt þessi hækkunartaktur þætti býsna myndarlegur víðast hvar meðal þróaðra landa hefur hann ekki verið hægari í rúmt ár. Horfur eru á að kaupmáttaraukningin verði á svipuðum nótum næsta kastið og hún var í maímánuði, en þó gæti hægt eitthvað frekar á henni.

..og hóflegri kortaveltuvöxtur..

Nýverið birti Seðlabankinn tölur um greiðslukortaveltu til og með maí. Úr þeim má lesa að raunaukning kortaveltu í maímánuði nam 4,1% frá sama tíma ári fyrr. Athygli vekur að samdráttur var í kortaveltu innanlands að raungildi á milli ára, en það hefur ekki gerst í rúm fjögur ár. Vöxtur í kortaveltu á erlendri grundu var hins vegar myndarlegur, en hann nam tæplega 28% að raungildi milli ára í maí.

Loks má nefna að væntingar neytenda hafa látið nokkuð undan síga upp á síðkastið. Væntingavísitala Gallup mældist í sínu lægsta gildi það sem af er ári í maí og hefur vísitalan lækkað um 30 stig (ríflega fimmtung) það sem af er ári þótt hún sé raunar enn yfir 100 stiga jafnvæginu milli svartsýni og bjartsýni. 

Segja má því að allt beri þetta að sama brunni: Neyslugeta almennings eykst nú heldur hægar en undanfarið, væntingar þeirra um betri tíð hafa einnig minnkað nokkuð og fyrir bragðið virðast íslenskir neytendur ganga hægar um gleðinnar dyr í neysluvexti en raunin hefur verið upp á síðkastið.

..benda til hægari vaxtar einkaneyslu

Einkaneysla óx um 5,9% á fyrsta fjórðungi ársins frá sama tíma árið áður samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það var hægasti vöxtur einkaneyslunnar frá 3F árið 2015. Þróun framangreindra hagvísa bendir til þess að einkaneysluvöxturinn verði eitthvað hægari á öðrum ársfjórðungi, en þó ber að halda til haga að júní er enn óskrifað blað hvað þetta varðar. Í nýlegri hagspá okkar spáðum við því að einkaneysla myndi vaxa um 4,6% að raungildi í ár eftir 7,8% einkaneysluvöxt í fyrra. Þróunin það sem af er ári er að mati okkar í ágætu samræmi við þá spá. Gangi hún eftir mun einkaneysla verða einn af helstu drifkröftum þess 2,6% hagvaxtar sem við spáum fyrir árið í ár.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall