Morgunkorn Íslandsbanka

Vaxtahækkun vegna versnandi verðbólguhorfa

07.11.2018

Versnandi verðbólguhorfur og hækkandi verðbólguvæntingar eru helstu ástæður þess að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur í morgun. Ekki er þó víst að fleiri vaxtahækkanir fylgi í kjölfarið á allra næstu mánuðum ef marka má framsýna leiðsögn peningastefnunefndar. Þar mun ráða miklu hvort verðbólguhorfur versna frekar á næstunni  og á móti hversu hratt hægir á vexti einkaneyslu og fjárfestingar næsta kastið.

Fyrsta hækkun vaxta í þrjú ár

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að hækka stýrivexti bankans samkvæmt yfirlýsingu sem birt var í morgun. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, fara því úr 4,25% í 4,50%. Þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember 2015 sem bankinn hækkar vexti, en fyrir hækkunina nú höfðu stýrivextir verið óbreyttir síðan í október í fyrra.

Ástæða vaxtahækkunarinnar nú er sú að „aukin verðbólga og hærri verðbólguvæntingar síðustu mánuði hafa lækkað raunvexti  Seðlabankans umfram það sem æskilegt er í ljósi núverandi efnahagsástands og -horfa“, svo vitnað sé í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Í henni er bent á að verðbólguvæntingar séu yfir 2,5% markmiði bankans á alla mælikvarða og verðbólguhorfur hafi versnað, en á móti líti út fyrir að hraðar dragi úr vexti efnahagsumsvifa en áður var talið. 

Hækka vextir meira á næstu mánuðum?

Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu peningastefnunefndar er óbreytt frá síðustu yfirlýsingu í október síðastliðnum. Tónninn í yfirlýsingunni er fremur harður, en þó ekki jafn eindreginn í átt til aukins aðhalds á næstu mánuðum og margir væntu. Orðaði Seðlabankastjóri það þannig á leiðbeining nefndarinnar til skemmri  tíma væri hlutlaus. Þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga er sem fyrr lykilatriði í næstu vaxtaákvörðunum. Aðrir þættir sem munu vega þungt eru annars vegar hversu hratt hægir á hagvexti og þar með spennu í hagkerfinu og hins vegar hvernig launaákvarðanir í komandi kjarasamningum. Ítrekar nefndin enn og aftur að „hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar.“

Hófleg bjartsýni í hagspá Seðlabankans

Ný þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birt var í Peningamálum í morgun, gerir ráð fyrir nokkru meiri hagvexti (4,4%) í ár en í fyrri spá (3,6%). Árið 2019 spáir Seðlabankinn 2,7% hagvexti. Þetta er talsvert meiri hagvöxtur en við gerum ráð fyrir samanlagt þessi tvö ár. Munurinn liggur í minni innflutningsvexti á yfirstandandi ári og talsvert meiri vexti innlendrar eftirspurnar á næsta ári í spá Seðlabankans en í okkar spá.

Þá spáir Seðlabankinn nú að verðbólga aukist allhratt, fari hæst í 3,5% um mitt næsta ár en hjaðni í kjölfarið að nýju og verði komin nærri verðbólgumarkmiðinu í árslok 2020. Er þetta heldur minni verðbólga en við væntum, en við gerum þó einnig ráð fyrir hjaðnandi verðbólgu þegar frá líður.

Krónan og kjarasamningar meðal helstu óvissuþátta

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina varð stjórnendum Seðlabankans nokkuð tíðrætt um þá óvissu sem felst í komandi kjaraviðræðum. Taldi aðalhagfræðingur bankans, Þórarinn G. Pétursson, að óvissa um launaþróun á komandi árum væri fremur upp á við en hitt miðað við spá bankans, en benti þó á að gert væri ráð fyrir talsverðri aukningu launakostnaðar framan af í spánni.

Þá nefndi Þórarinn að gengi krónu væri væntanlega ekki langt frá jafnvægisgildi sínu í kjölfar gengislækkunar síðustu vikna. Jafnvægisraungengi krónu hefði líklega lækkað nokkuð vegna lakari viðskiptakjara og óhagstæðari útflutningshorfa. Seðlabankinn gerir þó ráð fyrir því að gengi krónu styrkist lítillega á næsta ári frá núverandi gildum en verði í kjölfarið á svipuðum slóðum árin þar á eftir.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall