Morgunkorn Íslandsbanka

Teikn um mikinn einkaneysluvöxt

19.01.2017

Útlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu á nýliðnu ári hafi verið sá mesti í a.m.k. áratug hér á landi. Þetta má ráða af tölum Seðlabankans um kortaveltu, en þróun hennar gefur nokkuð skýr merki um hvert einkaneyslan stefnir. Tölur desembermánaðar lágu fyrir á föstudag, og þær sýndu enn og aftur myndarlegan vöxt í kortaveltu Íslendinga, eða sem nemur um 8,9% að raunvirði (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis). Þrátt fyrir talsverðan vöxt var hann þó í hóflegri kantinum m.v. árið í heild sinni. Þannig jókst kortavelta einstaklinga um 11,2% að raunvirði á árinu 2016 frá fyrra ári, en það er mesti vöxtur hennar á ársgrundvelli síðan 2005. Bendir þetta til þess að einkaneysla hafi vaxið verulega á síðastliðnu ári, sem rímar ágætlega við síðustu spá okkar um 8,1% einkaneysluvöxt, sem yrði þá mesti vöxtur hennar frá 2005.

Verslun Íslendinga færist í auknum mæli út fyrir landsteina

Í desember var vöxtur í kortaveltu Íslendinga í útlöndum mun meiri en innanlands, eða sem nemur um 45% að raunvirði á milli ára á móti 5,2%. Þessi gríðarlegi vöxtur í kortaveltu í útlöndum er síður en svo nýr af nálinni, og hefur vægi slíkrar veltu stóraukist. Myndin hér fyrir neðan sýnir 12 mánaða raunbreytingu í kortaveltu einstaklinga á mánuði síðastliðin tvö ár, hlutað niður í framlag kortaveltu innanlands og svo kortaveltu í útlöndum. Nokkuð augljóslega má sjá að kortavelta Íslendinga í útlöndum skýrir stærri og stærri hlut í þeim vexti sem verið hefur á heildarkortaveltunni.

Myndin hér fyrir neðan er eins og sú hér fyrir ofan, nema sett fram á ársgrundvelli. Þar má augljóslega sjá hvernig framlag kortaveltu í útlöndum hefur stóraukist, og hefur í raun aldrei verið meira en á nýliðnu ári. Hluti af skýringunni er eðlilega mikil fjölgun í utanlandsferðum Íslendinga á árinu (+19%) en einnig skýrist þetta af stórauknum viðskiptum Íslendinga við erlendar netverslanir. Nærtækt er að nefna það sem fram kom í nýlegri frétt Rannsóknarseturs verslunarinnar, að pakkasendingum hjá Íslandspósti frá útlöndum hafi fjölgað um 61% á milli ára á síðustu tveimur mánuðum ársins 2016. 

Stigvaxandi erlend velta frá 2009

Af heildarveltu innlendra greiðslukorta nam hlutdeild veltu erlendis 13,8% og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Til samanburðar má nefna að þetta hlutfall var að jafnaði 7,6% árin fyrir hrun. Hlutdeild veltu erlendis er mun hærri í kreditkortum en debetkortum. Í fyrra voru þessi hlutföll t.a.m. 20,6% á móti 6,5%. Þróun greiðslukortaveltu innlendra korta erlendis má sjá á myndinni hér fyrir neðan, og þarf ekki glöggt auga til að sjá að vægi hennar hefur aukist verulega á síðustu árum.

Smásöluverslun innanlands fær aukna samkeppni

Af ofangreindri umfjöllun er ljóst að verslun á Íslandi á í stóraukinni samkeppni við erlendar netverslanir. Þetta á einkum og sér í lagi við í fata- og skóverslun, en eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan hefur vöxtur í slíkri verslun verið mun hægari síðustu ár en vöxtur í annarri smásöluverslun. Er þetta einnig áhugavert í ljósi þeirrar fjölgunar sem verið hefur á erlendum ferðamönnum hér á landi, sem t.a.m. versluðu fatnað fyrir 5,2 ma. kr. með greiðslukortum sínum á nýliðnu ári sem hlýtur að hafa haft eitthvað að segja fyrir veltu í slíkum verslunum. Velta má fyrir sér hvort að fataverslun hafi í raun dregist saman hér á landi á undanförnum árum ef ekki væri fyrir erlenda ferðamenn.

Þessi almenna þróun er ekki bundin við Ísland, en þróunin hvað varðar fataverslun virðist þó nokkuð sér á báti hérlendis. Þegar við bætist að ferðum Íslendinga á erlenda grundu fjölgar hratt um þessar mundir og að heimsóknir í fataverslanir eru vinsælar í slíkum ferðum má ljóst vera að innlend fataverslun á við ramman reip að draga í erlendri samkeppni. Þær tollalækkanir sem farið var í á síðasta ári virðast þannig ekki hafa dugað til að bæta samkeppnisstöðu íslenskra verslana. Launakostnaðarhækkanir síðasta árs hafa vísast vegið þungt á móti, en jafnframt hafa sumir kaupmenn sagt hátt fermetraverð leiguhúsnæðis íþyngjandi þátt í rekstri. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall