Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga mælist 2,8% í október

29.10.2018

Gengisfall krónu frá septemberbyrjun er farið að segja til sín í þróun neysluverðs. Þá virðist enn nokkur gangur í hækkun íbúðaverðs, sér í lagi utan höfuðborgarsvæðisins. Horfur eru á vaxandi verðbólgu á næstunni.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,57% október skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,8% en var 2,7% í september. VNV án húsnæðis hækkaði um 0,59% í október og miðað við þá vísitölu mælist 1,7% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

 

Mæling októbermánaðar er í takt við það sem greiningardeildir spáðu. Við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,4% til 0,6% hækkun. Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur nær alfarið í meiri hækkun reiknaðrar húsaleigu og meiri verðhækkun á bílum en við spáðum.


Húsnæðisliður hækkar milli mánaða

Meira líf virðist vera í íbúðamarkaði en við áttum von á ef marka má mælingu Hagstofu á markaðsverði íbúðarhúsnæðis, en sú mæling er uppistaðan í útreikningi á reiknaðri húsaleigu í VNV. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 0,6% í október frá mánuðinum á undan. Mest hækkaði verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæði (1,0%) en fjölbýli á höfuðborgarsvæði hækkuðu minnst (0,5%). Á landsbyggðinni nam hækkunin milli mánaða 0,6%. Vert er að halda til haga að októbermælingin byggir á vegnu meðalfermetraverði í kaupsamningum sem þinglýst var í mánuðum júlí, ágúst og september.

 

Árs hækkunartaktur íbúðaverðs hækkaði á þennan kvarða úr 5,0% í 5,8%. Eins og sjá má af myndinni hefur orðið veruleg breyting í innbyrðis þróun undirliða á þessu ári. Mælist árshækkunin á landsbyggðinni nú u.þ.b. þrefalt meiri en hækkunin á höfuðborgarsvæðinu. Hér vegur þungt að íbúðaverð er enn að hækka allmyndarlega í stórum þéttbýliskjörnum nærri höfuðborgarsvæðinu á borð við Reykjanesbæ, Árborg og Akranes ásamt Akureyri. Mikið hefur hins vegar hægt á hækkunartakti bæði sérbýla og fjölbýla á Höfuðborgarsvæðinu sjálfu miðað við undanfarin tvö ár.

Flugfargjöld, eldsneyti og verð á bílum vegur þungt til hækkunar í október

Í heild hækkaði liðurinn ferðir og flutningar um 1,18% milli mánaða (0,20% í VNV). Það sem vegur þyngst til hækkunar í þeim lið er verð á bílum sem hækkaði um 2,61% (0,21% í VNV), flugfargjöld sem hækkuðu um 5,65% (0,07% í VNV), og eldsneytisverð sem hækkaði um 0,93% (0,03% í VNV). Veiking krónu og hækkun á heimsmarkaðsverði eldsneytis skýra þessar hækkanir að stærstum hluta.

Einnig hækkaði matur, föt og húsnæðisbúnaður í verði milli mánaða enda eru allir þessir liðir talsvert næmir fyrir gengisbreytingum krónu. Matur og drykkjarvörur hækkuðu í verði milli mánaða um 0,87% (0,10% í VNV) sem má áætla að sé helst vegna hækkunar á verði á innfluttum mat. Einnig hækkaði húsgögn og heimilisbúnaður í verði um 1,01% (0,04% í VNV) og föt og skór um 0,64% (0,02% í VNV) þar sem föt hækkuðu um sem nam 0,04% í VNV en skór lækkuðu um sem nam -0,01% í VNV.

 

Veggjöld lækka

Það helsta sem vó til lækkunar í októbermánuði var rekstur ökutækja sem lækkaði um 1,36% (-0,09 í VNV) og annað vegna ökutækja sem lækkaði um 19,21% (-0,13% í VNV). Að stærstum hluta má rekja þessar lækkanir til afnáms veggjalda í Hvalfjarðargöngunum um síðustu mánaðamót. Einnig lækkaði verð á hótelum og veitingastöðum um 0,14% (-0,01% í VNV) en þar um árstíðarbundna lækkun er að ræða.


Aukin verðbólga næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni hækka næstu mánuði og mun verðbólga fara nokkuð yfir 2,5% markmið Seðlabankans. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,3% hækkun VNV í nóvember, 0,5% hækkun í desember en lækkun um 0,1% í janúar næstkomandi. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,5% í janúar. Aukin verðbólga og versnandi verðbólguhorfur hljóta að teljast slæmar fréttir fyrir Seðlabankann, og þarf peningastefnunefnd bankans í næstu viku að vega þá þróun á móti vísbendingum um hægari vöxt hagkerfisins á seinni hluta ársins.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall