Morgunkorn Íslandsbanka

Talsverður kraftur í einkaneyslu í ársbyrjun

16.03.2018

Talsverður vöxtur er enn í einkaneyslu landsmanna þrátt fyrir að hægt hafi á vexti kaupmáttar undanfarin misseri. Þó virðist sem heldur sé að hægja á einkaneysluvextinum, og teljum við að vöxturinn í ár verði talsvert hóflegri en raunin var í fyrra.

Samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans yfir greiðslumiðlun nam heildarvelta innlendra greiðslukorta 70 mö.kr. í febrúar síðastliðnum. Það jafngildir 7,9% aukningu í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Að raunvirði nam aukningin hins vegar 8,8% á milli ára. Líkt og undanfarið var raunvöxtur í erlendri kortaveltu (29,6%) mun hraðari en vöxtur innlendrar veltu (4,7%) á milli ára. Endurspeglar það bæði sístækkandi hlut alþjóðlegra netverslana í innkaupum landsmanna og einnig vaxandi ferðagleði landans. Má þar nefna að brottförum Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um 14,4% á milli ára í febrúar samkvæmt tölum Ferðamálastofu.

Útlit fyrir hægari einkaneysluvöxt í ár

Það sem af er ári nemur raunvöxtur kortaveltu rétt ríflega 10% frá sama tíma í fyrra. Það er býsna myndarlegur vöxtur, en engu að síður hægasti vöxtur á þennan kvarða frá lokafjórðungi ársins 2015. Til samanburðar jókst kortavelta á þennan kvarða að jafnaði um 11,3% á síðasta ári. Þetta bendir til þess að heldur sé að draga úr vexti einkaneyslu, og gefa aðrir hagvísar á borð við Væntingavísitölu Gallup svipaða þróun til kynna. Slík þróun er eðlileg í ljósi þess að hægt hefur töluvert á vexti kaupmáttar launa frá því vöxturinn var hvað hraðastur  á árinu 2016.

Á síðasta ári óx einkaneysla um 7,8%, en að teknu tilliti til fólksfjölgunar jókst einkaneysla á mann um 5,1%. Er það í ágætu samræmi við kaupmáttarþróun, þar sem kaupmáttur launa jókst að jafnaði um 5,0% í fyrra. Íslensk heimili virðast því nokkurn veginn hafa sniðið sér stakk eftir vexti hvað einkaneyslu varðar, en fyrir áratug síðan var mikill munur milli kaupmáttarþróunar og vaxtar einkaneyslu og var það bil brúað með aukinni skuldsetningu heimila.

Við gerum ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu verði nokkru hægari í ár en í fyrra. Gerum við ráð fyrir tæplega 5% vexti einkaneyslu í ár. Munurinn skýrist bæði af hægari fólksfjölgun og af því að horfur eru á minni aukningu kaupmáttar í ár en var á síðasta ári. Vöxturinn verður samt myndarlegur í alþjóðlegum samanburði og mun einkaneysla vera einn helsti burðarás hagvaxtar í ár að mati okkar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall