Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,5% hækkun neysluverðs í desember

09.12.2016

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,5% í desember frá fyrri mánuði. Þar með eykst 12 mánaða verðbólgu-takturinn úr 2,1% í 2,3%, gangi spá okkar eftir. Væri það mesta verðbólga frá miðju ári 2014. 

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa þó batnað nokkuð frá síðustu spá okkar. Talsverðar forsendubreytingar hafa verið gerðar á spánni, þar sem gengi krónu er sterkara en í fyrri spá en hækkun launakostnaðar og íbúðaverðs á hinn bóginn hraðari. Til skemmri tíma gerum við ráð fyrir að verðbólga hjaðni að nýju og verði undir 2,0% nær allt árið 2017. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast allhratt, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 2. ársfjórðungi 2018 og vera í grennd við 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs bankans á síðasta fjórðungi þess árs. Hagstofan birtir mælingu VNV kl. 09:00 þann 22. desember næstkomandi.

Flug og húsnæðisliður vega langþyngst til hækkunar

Húsnæðisliður VNV hefur vegið einna þyngst til hækkunar hennar undanfarna mánuði, og verður það einnig raunin nú að okkar mati. Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni hækka um 1,3% í desember (0,21% áhrif í VNV). Í heild vegur húsnæðisliður VNV til 0,23% hækkunar í desember. Auk reiknaðrar húsaleigu hækkar greidd húsaleiga og rafmagnsverð í spá okkar, en á móti vegur lækkun viðhaldskostnaðar.

Flutningar í lofti vega þó þyngst til hækkunar í spá okkar að þessu sinni (0,33% í VNV). Stærsti áhrifavaldurinn þar er flugfargjöld til útlanda, þar sem könnun okkar bendir til óvenju snarprar hækkunar milli mánaða, en einnig gerum við ráð fyrir hækkun á flugfargjöldum innanlands. Fyrrnefndi liðurinn mun hins vegar lækka myndarlega að nýju í upphafi næsta árs að mati okkar, og eru því hækkunaráhrif hans á verðbólgutaktinn tímabundin.
 
Aðrir liðir sem á annað borð hækka hafa mun minni áhrif á VNV nú. Þar má nefna síma- og netkostnað (0,02% í VNV), húsgögn og heimilisbúnað (0,01% í VNV), hótel og veitingastaði (0,01% í VNV), og aðrar vörur og þjónustu (0,02% í VNV).

Matvara, fatnaður o.fl. til lækkunar

Á móti framangreindum hækkunarliðum vegur lækkun ýmissa undirliða VNV þar sem styrking krónu er stór áhrifaþáttur, enda hefur krónan styrkst um ríflega 16% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta frá miðju ári. 

Styrking krónu er þannig helsta skýring á þeirri verðlækkun á mat og drykk (-0,04% í VNV), fötum og skóm (-0,03% í VNV), nýjum bifreiðum (-0,03% í VNV), lyfjum og lækningavörum (-0,02% í VNV), og áfengi og tóbaki (-0,01% í VNV) sem við spáum nú í desember. Áhrif annarra liða eru samanlagt óveruleg í nóvembermánuði.

Verðbólga hjaðnar að nýju næstu mánuði

Horfur eru á að verðbólgutakturinn hjaðni á nýjan leik á fyrsta fjórðungi næsta árs. Við spáum 0,8% lækkun VNV í janúar, 0,5% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,9% í mars næstkomandi. 

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,16% í mánuði hverjum. Í janúar nk. koma útsöluáhrif inn af krafti, en auk þess hefur fyrirhugað afnám tolla á ýmsar innfluttar vörur nokkur lækkunaráhrif sem og væntanleg lækkun veitugjalda fyrir rafmagnsflutninga og kalt vatn hjá OR þótt hækkun annarra veitu- og þjónustugjalda við íbúðarhúsnæði vegi á móti. Einnig gerum við ráð fyrir að flugfargjöld lækki talsvert að nýju í janúar og febrúar eftir mikla hækkun í desember. Gjaldskrárhækkanir, sem oft setja svip sinn á VNV í janúar, virðast munu hafa hófleg áhrif í þetta skiptið. Í febrúar og mars ganga svo útsöluáhrif til baka að mestu.

Verðbólga undir markmiði allt næsta ár

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis svo lengi sem gengi krónu gefur ekki eftir á nýjan leik. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 1,6% á árinu 2017, og að í lok næsta árs mælist hún 1,3%. Í kjölfarið teljum við hins vegar að verðbólga muni fara vaxandi, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á öðrum ársfjórðungi 2018 og verða í grennd við 4,0% efri þolmörk markmiðsins á síðasta fjórðungi þess árs. 

Við höfum gert talsverðar forsendubreytingar á langtímaspá okkar, og byggja þær á nýlegri þróun sem og nýjustu vísbendingum um hvað koma skal á næstu misserum. Við gerum nú ráð fyrir áframhaldandi styrkingu krónu út 3. ársfjórðung 2017, og að styrkingin nemi u.þ.b. 10% frá núverandi gildum. Er það talsvert meiri styrking en í fyrri spám. Ástæðan er m.a. hagfelldari viðskiptajöfnuður en vænst var, mikill bati á erlendri stöðu þjóðarbúsins og hraðari hagvöxtur í ár en áður var búist við. Í kjölfarið teljum við hins vegar að gengi krónu taki að lækka á nýjan leik, enda raungengið þá orðið nokkuð hátt, farið að hægja á hagvexti og spennunni í hagkerfinu, og tekið að draga úr gjaldeyrisinnflæði með minnkandi viðskiptaafgangi. Veikingu krónu fylgir aukin verðbólga, en það mildar þó höggið að útlit er fyrir hægari hækkun á launakostnaði og íbúðaverði á seinni hluta spátímans. Gengi krónu er einnig sterkara allan spátímann en í fyrri spám okkar.

Hins vegar ríkir öllu meiri óvissa en áður um þróun launa á komandi misserum í ljósi vaxandi óróa á vinnumarkaði, og nýlegra samninga sveitarfélaga við grunnskólakennara sem kunna að gefa tóninn varðandi kröfum ýmissa hópa á komandi fjórðungum. Höfum við því bætt í launaforsenduna í verðbólguspá okkar frá fyrri spá. Gerum við nú ráð fyrir því að laun hækki um 6,8% yfir næsta ár, og um 5,2% yfir árið 2018. Einnig höfum við hækkað spá okkar um þróun íbúðaverðs í ljósi hraðrar verðhækkunar undanfarið og vísbendinga um að enn um sinn verði talsverður verðþrýstingur á íbúðamarkaði. Teljum við nú að íbúðaverð muni hækka um 10,3% á næsta ári en um 6,3% á árinu 2018. 

Heildaráhrif þessara forsendubreytinga eru til lækkunar á verðbólgutaktinum árið 2017 frá fyrri spá, en spáin fyrir 2018 er svipuð og fyrr.

Verðbólguspá desember 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall