Morgunkorn Íslandsbanka

Myndarlegur viðskiptaafgangur og batnandi erlend staða í ár

04.12.2018

Viðskiptaafgangur á fyrstu níu mánuðum ársins var litlu minni en á sama tímabili í fyrra, þökk sé myndarlegum afgangi á þriðja ársfjórðungi. Horfur eru á ágætum viðskiptaafgangi á árinu í heild sem og komandi ári. Erlend staða þjóðarbúsins batnaði talsvert á þriðja fjórðungi ársins og hafa eignir þjóðarbúsins umfram skuldir aldrei verið meiri.

Viðskiptaafgangur á þriðja ársfjórðungi 2018 var 76,5 ma.kr. samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans.  Þetta er mesti viðskiptaafgangur á einum ársfjórðungi í tvö ár og sá næstmesti frá upphafi. Umtalsverð árstíðasveifla er í viðskiptajöfnuðinum þar sem stór hluti þjónustutekna frá ferðaþjónustu skilar sér á þriðja fjórðungi ár hvert. 

Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli var 43,7 ma.kr. og afgangur af þjónustujöfnuði 123,7 ma.kr. á 3F. Frumþáttatekjur skiluðu 2,4 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 6,0 ma.kr. halla á fjórðungnum. Frumþáttatekjur eru að stærstum hluta vegna fjármagnstekna og -gjalda til og frá landinu. Undanfarna fjórðunga hefur verið nokkuð gott jafnvægi milli tekna og gjalda af eignum og skuldum þjóðarbúsins. Á árum áður, þegar erlendar skuldir voru til muna meiri en erlendar eignir þjóðarbúsins, var þessi liður hins vegar talsverður dragbítur á viðskiptajöfnuðinn og þar með uppspretta gjaldeyrisútflæðis frá landinu.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins nam viðskiptaafgangur 76,7 mö.kr. sbr. við 83,4 ma.kr. afgang á sama tímabili í fyrra. Þjónustuafgangur minnkaði um 10 ma.kr. á tímabilinu en vöruskiptahalli dróst saman um 7 ma.kr. Þáttatekjur og framlög skiluðu u.þ.b. 3 mö.kr. lakari niðurstöðu í ár en á sama tíma í fyrra.

Áfram útlit fyrir ágætan afgang

Útlit er fyrir að viðskiptaafgangur í ár verið af svipaðri stærðargráðu og á síðasta ári, þegar hann nam alls 87 mö.kr. Við eigum von á því að einhver afgangur verði af viðskiptajöfnuði á síðasta fjórðungi ársins í ljósi þess að viðskiptakjör hafa verið að batna með lækkandi olíuverði og dregið hefur úr vexti bæði einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingar. Þetta er meiri afgangur en við gerðum ráð fyrir í þjóðhagsspá okkar í september síðastliðnum. Skýrist munurinn af minni vexti vöruinnflutnings og heldur meiri vexti í ferðaþjónustu á seinustu mánuðum ársins en við áætluðum. Þá eru sömuleiðis horfur á því að áfram verði afgangur af viðskiptajöfnuði á komandi ári. Veiking krónu mun skila sér í því að færa innlenda eftirspurn í auknum mæli inn fyrir landsteinana ásamt því að liðka fyrir áframhaldandi ríflegum afgangi af þjónustuviðskiptum.

Erlend staða þjóðarbúsins aldrei sterkari

Hrein erlend staða þjóðarbúsins var jákvæð um 368 ma.kr., eða sem samsvarar 13,3% af VLF, í lok september sl. Erlendar eignir voru alls 3.380 ma.kr. en erlendar skuldir 3.012 ma.kr. Hefur erlend staða þjóðarbúsins aldrei verið betri á þennan kvarða. Sterk erlend staða þjóðarbúsins er afar mikilvæg fyrir vaxtarmöguleika og lífskjör í landinu litið fram á við, þar sem hún gerir þjóðarbúinu kleift að búa við hærra raungengi en ella væri án þess að halli myndist á utanríkisviðskiptum að öðru jöfnu.

Erlenda staðan batnaði um nærri 6% af VLF á milli ársfjórðunga. Hrein fjármagnsviðskipti bættu stöðuna um 86 ma.kr. og gengis/verðbreytingar bættu stöðuna um 79 ma.kr. vegna 4% gengislækkunar krónu og 4% verðhækkunar á erlendum mörkuðum. Horfur eru á frekari bata á erlendri stöðu þjóðarbúsins næsta kastið þar sem áfram er útlit fyrir viðskiptaafgang á komandi fjórðungum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall