Morgunkorn Íslandsbanka

Verð á neysluvöru og þjónustu 12% hærra hér á landi en í ESB

02.07.2014

nullVerð á neysluvöru og þjónustu hér á landi var 12% hærra en það var að meðaltali innan ESB ríkjanna á síðastliðnu ári samkvæmt upplýsingum sem Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) hefur birt. Hefur landið orðið dýrara í þessum samanburði samhliða uppsveiflunni sem hér hefur verið í efnahagslífinu undanfarin ár. Hefur það fylgt raungengi krónunnar sem hefur verið að hækka frá árinu 2009 þegar verð á vöru og þjónustu hér á landi fór niður í meðaltal ESB ríkjanna. Raungengi krónunnar hefur á fyrstu fimm mánuðum þessa árs verið 8,7% hærra en það var á sama tímabili í fyrra. Miðað við það hefur verð á vöru og þjónustu hækkað enn meira yfir meðaltal ESB ríkjanna á þeim tíma. Haldist nafngengi krónunnar nálægt núverandi gildi út árið og verði verðbólguþróun í takti við okkar spá er við því að búast að verð á neysluvöru og þjónustu verði um 20% hærra en það er að jafnaði innan ESB ríkjanna í ár. 

Þrátt fyrir að verð á vöru og þjónustu sé hærra hér á landi en í ESB ríkjunum, og hafi hækkað á síðustu árum í þeim samanburði, þá er það lágt m.v. það sem það var fyrir hrunið 2008. Á árinu 2007 var verð á vöru og þjónustu 49% hærra hér á landi en það var í ríkjum ESB. Þá var verð á þessum þáttum í fyrra einnig enn nokkuð lægra en á öðrum Norðurlöndum. Dýrast er í Noregi en þar var verð á neysluvöru og þjónustu 55% yfir meðaltali ESB ríkjanna á síðasta ári, eða m.ö.o. 38% hærra en það er hér á landi. Í Danmörk er verð 40% yfir meðaltali ESB ríkja, í Svíþjóð 30% og 24% í Finnlandi. 

Peningastefnunefndin sátt við núverandi raungengi

nullPeningastefnunefnd Seðlabankans hefur lýst því yfir að hún sé sátt við núverandi raungengi næstu misseri. Merkir það í raun að hún vilji ekki sjá verðlag hér á landi hækka meira en orðið er umfram það sem það er í samkeppnislöndunum, mælt á sama gengi. Í þessu sambandi hefur bankinn með inngripum á gjaldeyrismarkaði undanfarið stuðlað gegn frekari styrkingu krónunnar. Hefur bankinn keypt gjaldeyri fyrir tæpa 48 ma.kr. inn í gjaldeyrisforðann á þessu ári og síðast fyrr í þessari viku. Þar með hefur bankinn náð að hindra frekari hækkun raungengisins í bráð og að verðlag hækki meira umfram það sem það er að meðaltali í viðskiptalöndunum. 

Bankinn getur ekki til lengdar hindrað raungengishækkun sem er eðlilegur fylgifiskur þess að hagkerfið er að taka við sér. Bankinn getur hins vegar ráðið nokkru um það með hvaða hætti slík þróun á sér stað, þ.e. hvort hún verði fyrir tilstuðlan þess að hér verði verðbólgan umfram það sem hún er í viðskiptalöndunum eða hvort hækkunin komi vegna hækkunar á nafngengi krónunnar. Ljóst er að peningastefnunefndin og bankinn sjálfur vill sjá þá þróun frekar gerast með hækkun nafngengis krónunnar.

Hótel og veitingastaðir óvíða dýrari

Að undanförnu hefur talsverð umræða verið um háa verðlagningu ferðaþjónustunnar hér á landi. Verð á þjónustu hótela og veitingastaða var á síðasta ári 23% yfir því sem það var að jafnaði innan ESB ríkjanna hér á landi samkvæmt ofangreindum samanburði Eurostat. Er verð þessara þátta ferðaþjónustunnar einungis hærra í 6 löndum í Evrópu af 37 í þessum samanburði.

Meðal þeirra landa sem eru dýrari heim að sækja eru hin Norðurlöndin öll. Íslendingar eru þannig ekki hálfdrættingar á við nágranna sína í Noregi í þessari verðlagningu, en þar í landi var verð á þessum hluta ferðaþjónustunnar 89% yfir meðaltali ESB ríkjanna í fyrra, eða m.ö.o. 54% hærra en það var hér á landi. Eflaust skýrir það að miklu leyti af hverju ferðaþjónustan þar í landi er ekki stærri en raun ber vitni. Eftir Noregi kemur Danmörk með verð sem er 49% yfir meðaltali ESB ríkjanna, svo Svíþjóð með 46% og síðan Finnland með 28%. Af vinsælum sumarleyfisstöðum Íslendinga má nefna að verð á þessum þáttum ferðaþjónustunnar var 91% af meðaltali ESB ríkjanna á Spáni í fyrra, 78% á Tyrklandi og 77% í Portúgal. M.ö.o. þá var verð á hótelum og veitingastöðum 26% lægra á Spáni en það var hér á landi en 37% lægra í Portúgal.

nullÁhugavert er í þessu sambandi að skoða hvort verð á þjónustu hótela og veitingastaða hafi hækkað umfram almennt verðlag hér á landi á síðustu árum. Myndi það benda til þess að annað og hærra raungengi sé að myndast í ferðaþjónustunni. Þegar raunverð þjónustu hótela og gistiheimila er skoðuð í gögnum Hagstofu Íslands virðist það vera þróunin. Var raunverð þessara þátta þannig 15% hærra á fyrstu fimm mánuðum þessa árs en það var á sama tímabili 2009 og 24% hærra en það var á sama tíma 2010. Hið sama kemur út þegar gögn Eurostat eru skoðuð. Samkvæmt þeim hefur munurinn á almennu verðlagi á vöru og þjónustu hér á landi og í aðildarríkjum ESB aukist hægar á síðustu árum en þegar verð á hótel og veitingarekstri er skoðað sérstaklega. Þannig hefur munurinn á hótel og veitingum farið úr tæpum 5% árið 2008 í áðurnefnd 23% í fyrra. Á sama tíma hefur munurinn á almennu verðlagi neysluvöru og þjónustu hér á landi og í ESB aukist úr 4% í 12%. Þrátt fyrir hækkunina er Ísland ódýrt heim að sækja m.v. fyrir hrun en verð á þjónustu hótel og veitingastaða stoð að meðaltali í 80% yfir meðaltali ESB ríkjanna á tímabilinu 2004 til 2006.

Með næsthæsta verð á áfengi og tóbaki

Ferðamenn og raunar Íslendingar líka súpa stundum hveljur yfir verði á áfengi hér á landi. Virðist það ekki vera að ástæðulausu þegar horft er í ofangreinda útreikninga Eurostat. Meðal þeirra tegunda vöru og þjónustu sem samanburður Eurostat nær til var verðmunurinn mestur á verði á áfengi og tóbaki hér á landi og í ESB ríkjunum í fyrra. Var verð þessara vörutegunda 71% hærra hér á landi en það var að jafnaði í ríkjum ESB í fyrra. Einungis í einu ríki af þeim 37 ríkjum Evrópu sem samanburður Eurostat nær til er verð á þessum varningi hærra, og vart kemur á óvart að það land sé Noregur. Þar í landi var verð á áfengi og tóbaki 159% hærra en meðalverð þeirra í ríkjum ESB.  

Raftæki og fatnaður dýr hér á landi

Einnig munar talsvert miklu þegar kemur að verði raftækja og fatnaðar hér á landi og í ríkjum ESB. Var verð raftækja 41% hærra hér á landi í fyrra en það var að meðaltali í ESB ríkjunum og verð á fatnaði 37% hærri. Birtist þar eflaust a.m.k. hluti ástæðu þess af hverju verslun Íslendinga á fatnaði í gegnum netið hefur aukist mikið á undanförnum árum. Samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Haga og kemur fram í ársuppgjöri þess fyrir síðasta ár þá hefur hlutdeild fataverslunar erlendis aukist verulega eftir hrun. Í desember sl. áttu um 39% af síðustu fatakaupum Íslendinga sér stað í erlendum verslunum, en þetta hlutfall var t.a.m. 19% í september 2010.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall