Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í mars

17.03.2014

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% á milli mánaða í mars. Gangi spáin eftir vex verðbólga lítillega, eða úr 2,1% í 2,2%, enda hækkaði VNV aðeins um 0,2% í mars í fyrra. Verðbólga verður samkvæmt spánni áfram rétt undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Verðbólguhorfur fyrir yfirstandandi ár eru allgóðar og lítur út fyrir að verðbólga verði við 2,5% markmið Seðlabankans í árslok. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að verðbólga aukist að nýju samhliða vaxandi umsvifum í hagkerfinu, þó þannig að verðbólgan verði töluvert minni en hún hefur að jafnaði verið undanfarin ár. Hagstofan birtir VNV fyrir febrúar kl. 09:00 þann 26. mars næstkomandi.

Útsölulok og íbúðaverð helstu hækkunarvaldar

nullLíkt og jafnan í mars hafa útsölulok  talsverð hækkunaráhrif á VNV. Samtals vega útsölulokin til 0,16% hækkunar VNV að mati okkar. Eru þessi áhrif þó fremur hófleg miðað við sama mánuð undanfarin ár, bæði vegna styrkingar krónu frá nóvemberlokum og eins þar sem útsölulokin komu tiltölulega sterkt fram í febrúar.

Við gerum ráð fyrir að húsnæðisliður VNV hækki um 0,7% í mars (0,19% í VNV). Þar vegur þyngst 1,3% hækkun á reiknaðri húsaleigu, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs. Byggjum við þar á nýlegum markaðsgögnum. Við teljum einnig að flugfargjöld til útlanda muni vega til 0,04% hækkunar VNV.

Á móti vegur að eldsneytisverð hefur lækkað um ríflega 2% (-0,12% í VNV) frá síðustu mælingu VNV. Er það bæði vegna styrkingar krónu gagnvart Bandaríkjadollar og vegna lækkunar á eldsneytisverði á heimsmarkaði. Styrking krónu frá nóvember síðastliðnum hefur einnig áhrif til lækkunar á ýmsa aðra undirliði VNV.

Verðbólga nærri markmiði Seðlabankans út árið

nullHorfur eru á hóflegri verðbólgu út þetta ár. Kjarasamningar á stærstum hluta almenns vinnumarkaðar eru nú í höfn, og mun kostnaðarþrýstingur vegna þeirra verða talsvert minni en verið hefur undanfarin ár. Þá hefur styrking krónu áfram jákvæð áhrif á innflutningsverð og hráefnaverð til innlendrar framleiðslu, þótt við gerum ekki ráð fyrir frekari styrkingu frá núverandi gildum.

Við spáum 0,3% hækkun VNV í apríl, en þar reiknum við m.a. með að krónutöluhækkanir hins opinbera á áfengi og tóbaki sem og eldsneyti um síðustu áramót komi til baka. Í maí reiknum við með 0,2% hækkun og 0,3% hækkun í júní. Gangi sú spá eftir mun verðbólga mælast 2,6% í júnímánuði. Það sem eftir lifir árs verður verðbólga áfram á svipuðu róli og mun hún mælast 2,5% í árslok samkvæmt spá okkar. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að verðbólga færist heldur í aukana vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu, sem skila sér bæði í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkun íbúðaverðs, og einnig vegna gengislækkunar krónu þegar frá líður. Reiknum við með 3,7% verðbólgu yfir árið 2015 og 3,9% verðbólgu yfir árið 2016.

Sú þróun að verðbólga aukist að nýju þegar frá líður er hins vegar ekki óumflýjanleg. Ef gefnar eru þær forsendur í líkani okkar að laun hækki áfram með svipuðum hraða og raunin virðist ætla að verða í ár, og að gengi krónu haldist óbreytt frá núverandi gildum, verður spáin sú að verðbólga verði 2,9% yfir árið 2015 og 3,0% yfir árið 2016. Ljóst er því að það mun skipta verulegu máli fyrir verðbólguþróun komandi missera hvort tekst að halda aftur af hraðri nafnhækkun launa og verulegri veikingu krónu.

Verðbólguspá fyrir mars

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall