Morgunkorn Íslandsbanka

Minni þrýstingur á krónu vegna sveitarfélaga?

19.09.2013

nullGjaldeyriskaup sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra vegna afborgana af erlendum lánum verða væntanlega talsvert minni í haust og vetur en þau voru á sama tímabili í fyrra. Þrýstingur á krónuna vegna slíkra afborgana ætti að sama skapi að vera minni á næstunni, en gjaldeyriskaup vegna þessa voru líklega talsverður áhrifaþáttur í veikingu krónunnar frá áliðnu síðasta sumri og fram í febrúar á þessu ári. Þetta gæti einnig skýrt að hluta ólíka gengisþróun það sem af er hausti, þar sem krónan hefur að mestu haldið sjó þrátt fyrir að hámark ferðamannatímans sé nú að baki.

Erlendar skuldir sveitarsjóða hafa minnkað verulega

Í lok ágústmánaðar tilkynnti Kópavogur að búið væri að greiða upp 35 m. evra lán frá Dexia. Þar með eru erlendar skuldir bæjarins orðnar óverulegar, en áður hafði verið samið um dreifingu á greiðslum af láninu frá mars til september. Þessi greiðsla var raunar stærsti hlutinn af greiðslum sveitarfélaga af erlendum lánum þetta árið, en samkvæmt tölum frá Seðlabankanum áttu slíkar greiðslur að nema 9 mö.kr. þetta árið. Samkvæmt sömu tölum munu erlendar skuldir A-hluta sveitarfélaga nema u.þ.b. 14 mö.kr. í árslok, og könnun okkar á uppgjörum stærri sveitarfélaganna kemur heim og saman við þá tölu. Þessar skuldir voru tvöfalt hærri, ríflega 30 ma.kr. í árslok 2011 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þá má sjá af framangreindum tölum að afborganir sveitarfélaga af erlendum lánum munu aðeins nema 3 mö.kr. á næsta ári, og því lítur út fyrir að sveitarfélög verði í mun minni mæli kaupendur gjaldeyris næsta kastið en verið hefur.

Minni gjalddagar framundan hjá OR

Orkuveita Reykjavíkur (OR) er annar aðili sem hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið vegna hárra afborgana af erlendum lánum. Námu afborganir félagsins af slíkum lánum  nær 25 mö.kr. á yfirstandandi ári. Þar af voru u.þ.b. 10 ma.kr. á gjalddaga á vordögum, en afgangurinn fellur á seinni hluta ársins. Líklegt er að fyrirtækið sé komið langleiðina með gjaldeyrisöflun fyrir afborganir ársins, enda hefur Seðlabankinn hvatt skuldara með stórar yfirvofandi afborganir til að dreifa gjaldeyriskaupum sínum í aðdraganda afborgananna. Í hálfsársuppgjöri OR kemur fram að afborganir lána frá júlí 2013 til júníloka 2014 nemi samtals 17 mö.kr. Þar kemur einnig fram að laust fé í gjaldeyri nam tæpum 6 mö.kr. í júnílok, og að áætluð sala í gjaldeyri, að frádregnum innkaupum, muni nema rúmlega 6 mö.kr. á tímabilinu. Því bendir flest til þess að gjaldeyrisþörf OR á næstunni sé talsvert minni en raunin var fyrir ári síðan. 

Minni sveiflur í krónu það sem af er hausti

nullUndanfarna daga hefur gengi krónunnar styrkst lítillega eftir nokkra veikingu framan af septembermánuði. Undanfarinn mánuð hefur krónan veikst um 2,5% miðað við gengisvísitölu Seðlabankans. Á sama tímabili í fyrra veiktist krónan hins vegar um 6%. Raunar var hluti af þeirri veikingu líkast til e.k. leiðrétting eftir skammvinnan styrkingarkúf seinni hluta sumars, og enn er vitaskuld ekki útséð um hvernig þróun krónunnar verður á komandi vikum og mánuðum. Við teljum þó að þrýstingur á gengi krónunnar gæti verið eitthvað minni þetta haustið en raunin var í fyrra, ekki síst vegna ofangreindrar þróunar og raunar einnig minni gjaldeyrisþarfar ýmissa annarra innlendra aðila með erlendar skuldir á næstunni.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall