Morgunkorn Íslandsbanka

Metafgangur af þjónustujöfnuði á þriðja ársfjórðungi

30.11.2018

Myndarlegur þjónustuafgangur á þriðja fjórðungi ársins ásamt hagfelldari þróun vöruskipta en útlit var fyrir bendir til þess að viðskiptaafgangur í ár verði nokkuð vænn. Ört vaxandi ferðagleði landsmanna hefur þó bitið nokkuð í þjónustujöfnuðinn, en líklegt er að áhrifa veikari krónu á bæði vöru- og þjónustujöfnuð muni gæta á lokamánuðum ársins, sem og komandi fjórðungum.

Afgangur af þjónustujöfnuði hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi en hann var á þriðja fjórðungi þessa árs. Afgangurinn nam tæpum 124 mö.kr. en áður hafði hann mestur orðið tæpir 123 ma.kr. fyrir tveimur árum síðan. Frá sama tíma í fyrra jókst þjónustuafgangur um 8 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar.

Þjónustuafgangur minnkar heldur milli ára

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins nam afgangur af þjónustuviðskiptum tæpum 210 mö.kr. en þjónustuafgangurinn var ríflega 219 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Bæði innflutningur og útflutningur þjónustu jókst á þessu tímabili, en innflutningurinn hafði vinninginn með nærri 16% vexti milli ára í krónum talið á móti ríflega 7% vexti útflutnings. Eins og jafnan undanfarin ár reyndist myndarlegur afgangur af helstu undirliðum þjónustujafnaðar að liðnum „önnur viðskiptaþjónusta“ undanskildum, en hann innheldur m.a. leigugjöld vegna leigu á flugvélum og skipum.

Tekjur þjóðarbúsins af ferðalögum milli landa jukust um rúm 3% á fyrstu 9 mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra og námu þær rúmum 269 mö.kr. Ferðagleði landsmanna virðist hins vegar hafa aukist öllu hraðar, þar sem vöxtur í útgjöldum vegna ferðalaga milli landa nam tæpum 8% á tímabilinu. Voru slík útgjöld alls nærri 148 ma.kr. og þjónustuafgangur vegna ferðalaga nam því rúmum 121 ma.kr. 

Bjartara útlit fyrir jöfnuð vöru- og þjónustuviðskipta

Hagstofan birti einnig brúartöflur fyrir vöru- og þjónustujöfnuð sem sýna slík viðskipti á grunni greiðslujafnaðar. Á þann kvarða var afgangur vegna vöru- og þjónustuviðskipta á 3. ársfjórðungi 80 ma.kr. og hefur hann ekki verið meiri á einum fjórðungi í tvö ár. Þarna skiptir vitaskuld sköpum að háannatími ferðaþjónustunnar fellur að stærstum hluta á þennan ársfjórðung.
 
Það sem af er ári nemur afgangur vöru- og þjónustuviðskipta samtals 90 mö.kr. Í fyrra var afgangurinn tæpir 93 ma.kr. á fyrstu 9 mánuðum ársins og er því um fremur litlar breytingar að ræða á milli ára. Í sem stystu máli má segja að afgangurinn af þjónustujöfnuði hafi reynst heldur rýrari það sem af er þessu ári en við væntum, sér í lagi á fyrri helmingi ársins. Á móti hefur hins vegar vöruskiptajöfnuður þróast með öllu jákvæðari hætti en við væntum, ekki síst vegna samdráttar í innflutningi flutningatækja og hrávara á milli ára. Halli af vöruskiptum nam tæpum 120 mö.kr. á fyrstu þremur fjórðungum yfirstandandi árs, en í fyrra var hallinn nærri 127 ma.kr. 

Á mánudag birtir Seðlabankinn tölur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins til og með loka 3. ársfjórðungs. Fæst þar með heildarmynd af viðskiptajöfnuði fyrstu þriggja fjórðunga ársins þar sem tölur um þáttatekjujöfnuð og framlög milli landa bætast við ofangreindar tölur. Miðað við framangreindar tölur er þó þegar ljóst að töluverður viðskiptaafgangur hefur verið á þessu tímabili. Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í septemberlok gerðum við ráð fyrir að viðskiptaafgangur í ár myndi nema u.þ.b. 65 mö.kr., eða sem samsvarar 2,3% af vergri landsframleiðslu. Miðað við tölurnar hér að framan gæti það mat verið varlegt og afgangurinn reynst eitthvað meiri, einkanlega ef horft er til veikingar krónu undanfarið og þeirra áhrifa sem hún hefur væntanlega á utanríkisviðskipti á síðustu mánuðum ársins.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall