Morgunkorn Íslandsbanka

Þjóðhagsspá: Þróttmikill hagvöxtur framundan

08.10.2014

Með hagvexti síðustu ára hefur íslenskt efnahagslíf hrist af sér mestmegnis af þeim slaka sem myndaðist eftir hrunið 2008. Jafnvægi hefur náðst og sjaldséður stöðugleiki einkennt bæði verðbólgu og gengisþróun á þessu ári. Áfram hefur dregið úr atvinnuleysi og staða vinnumarkaðarins styrkst. Efnahagur fyrirtækja og heimila hefur batnað, kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist, eignaverð hækkað og skuldahlutföll lækkað. Allt eru þetta merki um bata í efnahagslífi þjóðarinnar. 

Hagvaxtarhorfur hér á landi eru heilt á litið góðar að okkar mati, og væntum við þess að efnahagslífið muni halda áfram að styrkjast á næstu árum. Við spáum því að hagvöxtur verði 3,1% á þessu ári samanborið við 3,5% í fyrra. Spáum við síðan 3,2% hagvexti á næsta ári og 2,9% á árinu 2016. Samhliða þessu mun hagur fyrirtækja og heimila halda áfram að batna.

Horfur í efnahagsmálum mótast m.a. af því hversu vel tekst að varðveita stöðugleikann. Hvílir hann m.a. á því hvernig tekst til í stjórn opinberra fjármála og peningamála. Hann hvílir einnig á því hvernig tekst til við að leysa úr þeim kerfislæga vanda sem fjármagnshöftin voru sett upp til að verja hagkerfið fyrir, og þá í leiðinni hvort takist að afnema þau án þess að fórna stöðugleikanum. Má segja að stöðugleikinn sé bæði einn af hornsteinum spár okkar og í leiðinni einn af stóru óvissuþáttunum.

Efnahagsuppsveifla síðustu ára hefur hvílt að stórum hluta á aukinni nýtingu náttúruauðlinda. Reiknum við með að sú þróun haldi áfram þó að samsetningin muni breytast. Draga mun úr vexti sem byggir á Íslandi sem ferðamannastað. Sú auðlindanýting muni þó áfram eiga stóran þátt í hagvextinum á spátímabilinu. Á móti mun fjárfesting aukast og síðar útflutningur sem byggir á aukinni nýtingu orkuauðlinda. 

Í fyrra var hagvöxtur fyrst og fremst borinn uppi af utanríkisviðskiptum, þ.e. kröftugum vexti í útflutningi á sama tíma og hægur vöxtur var í innflutningi. Við gerum ráð fyrir annarri samsetningu hagvaxtar á spátímabilinu. Verður hagvöxtur í ár byggður á miklum vexti í innlendri eftirspurn, sem mun jafnframt halda áfram að aukast allhratt á næstu tveim árum þó að nokkuð dragi úr vextinum. Þessum vexti í innlendri eftirspurn fylgir vaxandi innflutningur, sem gerir það að verkum að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtarins á spátímabilinu mun verða neikvætt allan tímann.  

Framleiðsluslakinn er nú nánast horfinn úr íslensku efnahaglífi. Hagvöxtur næstu tveggja ára verður það mikill samkvæmt spá okkar að framleiðsluspenna fer að myndast í hagkerfinu á tímabilinu. Mun því fylgja aukin verðbólga sem Seðlabankinn mun bregðast við með hækkun stýrivaxta.  Einnig mun þróttmikill hagvöxtur birtast í því að atvinnuleysi lækkar frekar og staða vinnumarkaðarins batnar. 

Þjoðhagsspá Greiningar haust 2014
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall