Morgunkorn Íslandsbanka

Peningastefnunefnd Seðlabankans boðar vaxtahækkun í júní

13.05.2015

Bein og óbein áhrif af miklum launakröfum og vaxandi spennu í yfirstandandi kjaraviðræðum virðast ein helsta ástæða þess að peningastefnunefnd Seðlabankans boðar nú hækkun stýrivaxta strax í næsta mánuði. Líklegt er að frekari hækkun vaxta fylgi í kjölfarið á komandi fjórðungum þar sem verðbólguhorfur hafa versnað og útlit er fyrir meiri spennu í hagkerfinu en áður.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum við vaxtaákvörðun sína í morgun, og er það í takti við spá okkar og aðrar opinberar spár greiningaraðila. Vextir á 7 daga bundnum innlánum eru því áfram 4,5% og vextir á 7 daga veðlánum 5,25%, en vextirnir hafa verið óbreyttir frá desember síðastliðnum eftir 0,75 prósentu lækkun á 4. ársfjórðungi í fyrra.

Nýlunda að boða yfirvofandi vaxtahækkun

Stóru fréttirnar í yfirlýsingu nefndarinnar nú eru hins vegar þær að framvirk leiðsögn hennar breytist umtalsvert, og boðar nefndin nú vaxtahækkun á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum sem verður 10. júní nk. Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar í mars var hins vegar gefið í skyn að vextir gætu jöfnum höndum lækkað eða hækkað eftir því hvernig framvinda verðbólgu og kjarasamninga yrði. Sagði nefndin þá að áframhaldandi verðbólga undir markmiði og hóflegar launahækkanir í komandi kjarasamningum gætu skapað forsendur fyrir frekari lækkun vaxta. Miklar launahækkanir og sterkur vöxtur eftirspurnar gætu grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka yrði vexti á ný. Segir í yfirlýsingunni nú að þróun kjaraviðræðna að undanförnu ásamt hækkun verðbólguvæntinga og vísbendingum um öflugan vöxt eftirspurnar bendi til þess að síðarnefndu aðstæðurnar séu nú að skapast og því líklegt að hækka þurfi vexti þegar á næsta fundi nefndarinnar í júní.

Af yfirlýsingu nefndarinnar má ráða að hún vill ekki hækka vexti nú á viðkvæmum tíma í kjaraviðræðum, þó svo að hún greini í hinum miklu launakröfum sem eru uppi að hálfu verkalýðsfélaga að forsendur séu fyrir hækkun. Nefndin telur eflaust rétt að staldra við uns niðurstaða færst í kjaraviðræður, hvenær sem það nú verður. Boðuð vaxtahækkun nefndarinnar í júní er því með þeim fyrirvara að þá verði komnar niðurstöður í kjaraviðræður og að umsamdar launahækkanir séu umfram það sem samrýmist stöðugu verðlagi. Á kynningarfundi bankans í morgun sagði Seðlabankastjóri aðspurður að hækkun vaxta í júní gæti orðið meiri en minni ef niðurstaða samninga yrði miklar launahækkanir, og kemur það i raun í sama stað niður og ef vextir hefðu verið hækkaðir nú og svo aftur í júní nema hvað varðar óvissu um niðurstöðu kjarasamninga sem ætti að vera frá í júní.

Með því að halda vöxtum óbreyttum, en gefa sterklega í skyn yfirvofandi vaxtahækkun fæst einnig að okkar mati betri samfella í framsýnni leiðsögn peningastefnunefndarinnar en ella væri. Ef vextir hefðu hækkað nú eftir tiltölulega hlutlausa framsýna leiðsögn í mars hefði stökkið verið ansi stórt að okkar mati, og ekki til þess fallið að auka gildi framsýnu leiðsagnarinnar sem vegvísis fyrir það sem koma skal í þróun stýrivaxta. Er því þessi nýbreytni í framsýnu leiðsögninni af hinu góða að okkar mati.

Meiri hagvöxtur og meiri verðbólga í kortunum

Seðlabankinn reiknar í nýrri hagvaxtarspá með meiri hagvexti á þessu ári og á spátímabilinu í held sem nær til ársins 2018 en þeir voru með í sinni síðustu spá, sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í febrúar. Spáir bankinn nú 4,6% hagvexti á þessu ári og 3,4% vexti næsta ár, en fyrri spá hljóðaði upp á 4,2% vöxt í ár og 2,8% vöxt árið 2016. Munurinn liggur að stórum hluta í meiri spáðum vexti fjárfestingar á þessu ári en hagstæðara framlagi utanríkisviðskipta á því næsta. Spáin bendir því til þess að meiri framleiðsluspenna myndist á tímabilinu en áður var reiknað með og mun það eiga sinn þátt í að auka verðbólgu. 

Ný verðbólguspá bankans endurspeglar einnig verri verðbólguhorfur en í síðustu spá hans í febrúar. Spáir bankinn núna ríflega prósentustigs meiri verðbólgu á næstu ársfjórðungum en hann gerði í sinni síðustu spá, og reiknar nú með því að verðbólgan fari yfir verðbólgumarkmið bankans fyrir lok þessa árs og haldist yfir verðbólgumarkmiðinu út allt spátímabilið eftir það. Endurspeglar þetta raunar þróun verðbólguvæntinga sem hafa hækkað talsvert síðan í upphafi árs, og er það sérstakt áhyggjuefni nefndarinnar og stór þáttur í því af hverju hún boðar nú með afgerandi hætti vaxtahækkun í júní. 

Þróun kjarasamninga gæti leitt til meiri verðbólgu

Á kynningarfundi Seðlabankans í morgun var töluverðu púðri eytt í fráviksdæmi þar sem dregnar voru upp mögulegar afleiðingar ef niðurstöður kjarasamninga yrðu í ætt við kröfur þeirra launþegasamtaka sem nú eiga í kjaraviðræðum, og laun hækki um u.þ.b. 11% á ári næstu ár. Var niðurstaðan sú að vextir Seðlabankans yrðu 3-5 prósentum hærri að tveimur árum liðnum, verðbólga 3,5- 5 prósentum meiri og hagvöxtur 1,5-2,5 prósentum minni í þessu tilfelli en gert er ráð fyrir í grunnspá bankans. Þar gerir Seðlabankinn raunar ráð fyrir að nafngengi krónunnar lækki vegna áhrifa kjarasamninga, en undanfarin misseri hefur gengið verið býsna stöðugt m.v. vegna körfu helstu viðskiptamynta.

Grunnspá bankans gerir hins vegar ráð fyrir 7,1% hækkun nafnlauna á þessu ári og 5,1% hækkun árið 2016. Að okkar mati eru það heldur bjartsýnar forsendur, enda tekur peningastefnunefndin fram í yfirlýsingu sinni að framvinda kjaraviðræðna eftir að spánni var lokað hafi aukið hættuna á meiri verðbólgu en spáð er í grunnspánni.

Talsverð áhrif á skuldabréfamarkaði

Óverðtryggð krafa á skuldabréfamarkaði hefur hækkað í morgun og er hækkunin búin að vera mest á stuttum bréfum eða um u.þ.b. 20 punktar. Á lengri enda ríkisbréfaferilsins nemur kröfuhækkunin 3-10 punktum þegar þetta er ritað. Endurspeglar þetta eflaust auknar væntingar skuldabréfafjárfesta um vaxtahækkun Seðlabankans í júní, og mögulega frekari vaxtahækkun í kjölfarið. Lítil viðbrögð hafa hins vegar verið á verðtryggða hluta markaðarins enn sem komið er.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall