Morgunkorn Íslandsbanka

Áfram gríðarleg aukning erlendra ferðamanna

06.11.2014

Mikil fjölgun ferðamanna hingað til lands og jafnari dreifing þeirra yfir árið hefur skipt sköpum fyrir gjaldeyrisflæði til landsins undanfarið, og virðist enn ekkert lát á þessum áhrifum. Alls fóru 66,5 þús. erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF) í október sl., og er hér um langfjölmennasta októbermánuð að ræða frá upphafi hvað fjölda þeirra varðar. Aukningin á milli ára nemur tæpum 26%, sem er nokkuð meiri aukning en við höfðum reiknað með í mánuðinum. Þetta má sjá í tölum sem Ferðamálastofa Íslands birti í gær. 

Einnig varð nokkur aukning á brottförum Íslendinga um KEF í október frá fyrra ári. Fóru alls 40,8 þús. Íslendingar erlendis, sem jafngildir 8% aukningu frá sama tíma í fyrra.Virðist októbermánuður vera að festast sig í sessi sem einn stærsti mánuður ársins í utanlandsferðum hjá Íslendingum, og hefur aðeins júnímánuður verið fjölmennari að þessu leyti það sem af er ári. 

Janúar-október: 855 þúsund

Brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um KEF eru nú þegar komnar upp í 854,6 þús. á fyrstu tíu mánuðum ársins samanborið við 692,9 þús. á sama tímabili í fyrra. Þetta jafngildir rúmlega 23% fjölgun á milli ára, eða sem nemur um 161,7 þús. ferðamönnum. Þetta er hreint ótrúleg aukning, enda kemur hún í kjölfarið á mikilli aukningu síðustu ár. Eru ferðamenn þegar orðnir rúmlega 9% fleiri á fyrstu 10 mánuðum ársins en þeir voru allt árið í fyrra. 

Ferðaþjónusta helsta stoðin í gjaldeyristekjum

Brottfarir Íslendinga um KEF eru komnar upp í 339,5 þús. á fyrstu tíu mánuðum ársins, og er það fjölgun upp á 9% frá sama tíma í fyrra. Ferðamannajöfnuður, þ.e. brottfarir erlendra gesta umfram Íslendinga, er nú kominn upp í 515,2 þús. samanborið við 381,2 þús. í fyrra. M.ö.o. komu 2,5 erlendir ferðamenn hingað til lands á fyrstu 10 mánuðum ársins fyrir hvern Íslending sem fór til útlanda. Má til samanburðar nefna að þetta hlutfall var 2,1 allt árið í fyrra og 1,8 árið 2013. Gjaldeyrisflæði vegna ferðamanna hefur að sama skapi breyst síðustu ár, og er nú gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustu og tengdra greina ein helsta stoðin í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.  

Það er einnig afar jákvætt að talsvert hefur dregið úr árstíðasveiflu í ferðamannastrauminum hingað til lands þar sem fjölgun ferðamanna utan háaannatíma hefur verið talsvert hraðari en fjölgunin að sumarlagi. Þannig voru erlendir ferðamenn u.þ.b. 150% fleiri að jafnaði á tímabilinu janúar-maí í ár en raunin var á sama tíma árið 2010, en fyrir tímabilið júní-ágúst var þessi tala 83%. Fjölgunin hefur því verið nærri tvöfalt hraðari á fyrrnefnda tímabilinu, og hefur það átt sinn þátt í að skjóta sterkari stoðum undir krónuna á fyrri helmingi ársins.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall