Morgunkorn Íslandsbanka

Væntingar nánast óbreyttar í maí

27.05.2015

Litlar  breytingar urðu á væntingum neytenda til efnahags- og atvinnulífsins nú í maí frá fyrri mánuði samkvæmt Væntingavísitölu Gallup (VVG) sem Capacent Gallup birti í gær. Þannig mældist gildi vísitölunnar 83,3 stig í maí, og lækkaði þar með um 1 stig frá fyrri mánuði.  Þessi þróun kemur ekki á óvart, og teljum við að hana megi rekja að miklu leyti til þess að lítið hafði þokast í kjaraviðræðum frá því mælingin var gerð í apríl, en umræða um kjaramálin hefur haft yfirhöndina í fjölmiðlum upp á síðkastið. Sem kunnugt er lækkaði VVG um heil 17 stig í apríl sl., en sú lækkun kom í kjölfarið á góðri siglingu hennar upp á við mánuðina þar á undan. Var VVG jafnframt komin yfir 100 stigin í mars sl., sem markar jafnvægi á milli bjartsýni og svartsýni neytenda á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.

Fer vísitalan yfir 100 stigin á ný í júní?

Þrátt fyrir þessa þróun í apríl og maí erum við bjartsýn á að talsvert léttara verði yfir landanum á næstu mánuðum, og þá að væntingar neytenda komi til með að sigla upp á við á ný enda fjölmörg teikn á lofti um að hagur neytenda fari stöðugt batnandi. Teljum við í raun að ef ekki væri fyrir þær kjaradeilur sem staðið hafa yfir á þriðja mánuð, þá væri gildi vísitölunnar 10-20 stigum hærra. Af nýjustu fréttum að dæma þá virðist margt benda til þess að lausn geti verið komin í kjaradeilur, a.m.k. að hluta, fyrir næstu mælingu á VVG, og gæti það eitt og sér leitt til þess að neytendur yrðu mun bjartsýnni á stöðu og horfur mála strax í júní. 

Viðrar vel á vinnumarkaði

Niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun sem Hagstofa Íslands birti nú í morgun benda til þess að mikill gangur hafi verið á vinnumarkaði nú í apríl, líkt og verið hefur á árinu. Alls voru 181.000 manns starfandi í apríl sl. sem jafngildir 6,6% fjölgun frá sama tíma í fyrra, eða sem nemur um 11.200 manns. Venjulegar vinnustundir í viku hverri voru 39,3 klst. í mánuðinum, sem felur í sér fjölgun vinnustunda um 0,2 klst. á viku frá því í apríl í fyrra. Heildarvinnustundum fjölgaði því um 7,1% á milli ára samkvæmt rannsókn Hagstofunnar, sem er mesta aukning vinnustunda á þennan mælikvarða í 20 mánuði. Á fyrsta ársfjórðungi hafði vinnustundum fjölgað um 4,2% á milli ára, og líkt og nú í apríl var það hröð fjölgun starfandi sem gerði gæfumuninn hvað þennan mikla vöxt varðar.  

Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar voru 191.600 manns á íslenskum vinnumarkaði að jafnaði í apríl, sem jafngildir 6,0% fjölgun vinnuafls frá sama mánuði í fyrra. Af þessum fjölda voru 10.600 manns atvinnulausir í mánuðinum, eða sem nemur 5,5% af vinnuafli. Hefur atvinnuleysi ekki mælst minna í könnun Hagstofunnar í aprílmánuði í sjö ár, frá því fyrir hrun, og á það einnig við árstíðarleiðréttar tölur. 

Vísbending um vaxandi umsvif í hagkerfinu

Talsverð fylgni er á milli þróunar vinnustunda og hagvaxtar, enda endurspeglar fjöldi vinnustunda eftirspurn eftir vinnuafli, og þar með framboðshlið hagkerfisins. Undanfarin tvö ár hefur fjölgun vinnustunda raunar verið jafn hröð og hagvöxtur, sem felur í sér að framleiðnivöxtur er lítill sem enginn. Við teljum hins vegar að hagvöxturinn verði meiri en sem nemur fjölgun vinnustunda á komandi árum, og framleiðsla á hverja unna klukkustund aukist því að nýju. Þann 5. júní nk. mun Hagstofan birta fyrstu bráðabirgðatölur sínar um landsframleiðslu fyrir 1. ársfjórðung 2015. Ofangreind þróun bendir til þess að um talsverðan hagvöxt hafi verið að ræða á tímabilinu, og verður því spennandi að rýna í þær tölur. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall