Morgunkorn Íslandsbanka

Ferðaþjónusta: Ótrúlegt ár að baki

09.01.2014

Ekki er ofmælt að ótrúlegt ár sé að baki hvað ferðaþjónustu hér á landi varðar, enda má segja að sú grein hafi heldur betur fært landinu björg í bú á nýliðnu ári. Má hér í fyrsta lagi nefna að sá 3,1% hagvöxtur sem mældist á fyrstu 9 mánuðum nýliðins árs var að verulegum hluta drifinn áfram af stórauknum tekjum í ferðaþjónustu, enda var framlag þjónustuviðskipta við útlönd til hagvaxtar 2,0% á tímabilinu. M.ö.o. lögðu þjónustuviðskiptin til tvo þriðju hluta af þeim vexti sem mældist á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Jafnframt hefur gengi krónunnar notið góðs af auknu gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustunnar, sem er orðin ein stærsta útflutningsgrein Íslands. Þar er sér í lagi mikilvægt hversu ferðamannastraumur utan háannatíma hefur vaxið mikið undanfarin tvö ár, enda hefur árstíðarsveifla í gjaldeyrisflæði vegna ferðamennsku verið mikil til skamms tíma hér á landi. Aukið gjaldeyrisinnflæði vegna þessa mikla vaxtar ferðaþjónustu hefur raunar vegið upp minnkandi gjaldeyristekjur af útflutningi sjávarafurða og áls, og gott betur.

Gríðarleg aukning í desember

nullÍ desember sl. fóru 41,7 þúsund erlendir gestir frá landinu um Keflavíkurflugvöll (KEF), sem er aukning upp á heil 49% frá sama tíma árið á undan. Er hér um að ræða mestu hækkun milli ára allt frá því í nóvember árið 2012 þegar áhrifa af breytingu á tímasetningu á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves  gætti. Vart þarf að nefna að hér er um að ræða langstærsta desembermánuð í fjölda erlendra gesta frá upphafi, en þeir höfðu áður flestir orðið 28,0 þúsund í jólamánuðinum, sem var  árið 2012. Þetta má sjá í gögnum sem Ferðamálastofa Íslands birti yfir brottfarir um KEF nú í morgun.

Langstærsta ferðamannaár í sögu Íslands

nullAf ofangreindu er ljóst að árið 2013 er langstærsta ferðamannaár í sögu landsins, en á árinu í heild fóru 781,0 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um KEF. Jafngildir þetta aukningu upp á um 21% á milli ára, eða sem nemur 134,1 þúsund erlendum ferðamönnum. Þetta er hreint ótrúlega mikil aukning, og ekki síst í ljósi þess að gríðarleg aukning hafði verið tvö árin þar á undan, eða um 20% árið 2012 og 18% árið 2011. Þetta þýðir að erlendir ferðamenn voru 70% fleiri í fyrra en árið 2010, eða sem nemur 321,8 þúsund ferðamönnum.

Í raun komu talsvert fleiri erlendir ferðamenn til landsins en ofangreindar tölur gefa til kynna, en bæta má við þeim fjölda sem kemur hingað til lands með Norrænu sem og um aðra flugvelli. Ferðamálastofa áætlaði að rúmlega 96% erlendra gesta hafi farið um KEF árið 2012, og hafi hið sama verið upp á teningnum í fyrra var fjöldi erlendra gesta 811 þúsund. Þess má geta að í þessum tölum eru ekki meðtaldir þeir farþegar sem koma hingað til lands með skemmtiferðaskipum, en þeir gista um borð í skipunum og dvelja oftast í mun skemmri tíma en aðrir.

Ísland í aðalhlutverki

nullVerður spennandi að fylgjast með hvort svipuð saga verður uppi á teningnum í ár hvað ferðamannastraum varðar og verið hefur síðastliðin þrjú ár. Teljum við slíkt ekki útilokað, og þá kannski sérstaklega í ljósi þess að Ísland hefur fengið sitt fyrsta aðalhlutverk í Hollywood kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty, en svo var komist að orði í grein sem birtist nýlega á vef The Guardian. Ætla má að ferðaþjónustan láti þá landkynningu ekki fram hjá sér fara, og nýti tækifærið til þess að auka enn á ferðamannastraum til landsins. Má geta þess að þegar er farið að skipuleggja ferðir hingað til lands í fótspor (og hjólför) draumóramannsins Walter Mitty, en eins og þeir vita sem séð hafa myndina leikur Ísland þar einnig aukahlutverk sem Grænland og Himalayafjöll. Hvað sem áhrifum af mynd Ben Stiller líður teljum við að ekkert lát verði á fjölgun erlendra ferðamanna á nýju ár, þó aukningin á milli ára verði þó heldur hóflegri en hún hefur verið síðustu þrjú ár.

Dregur verulega úr árstíðarsveiflu

nullSé litið á þróunina innan ársins 2013 má sjá að erlendum ferðamönnum fjölgaði hlutfallslega mun meira utan háannatímans. Telst það afar jákvætt þar sem með því dregur úr árstíðarsveiflu í ferðamannastraumi til landsins, og þá jafnframt í gjaldeyrisflæði til landsins. Sé árinu skipt niður í þrjú tímabili, þ.e. janúar-maí, júní-ágúst og september-desember, má sjá að aukningin milli ára í fyrra var langmest á því fyrstnefnda, eða um 30%, en minnst yfir háannartímann, eða um 14%. Á síðustu mánuðum ársins var aukningin að jafnaði 18%. Eftir sem áður koma þó enn langflestir ferðamenn til Íslands yfir sumartímann, eða sem nam rúmum 44% allra erlendra gesta í fyrra. Þetta hlutfall hefur þó aldrei verið svo lágt áður, og má hér nefna til samanburðar að það var 47% árið 2012 og 50% árið 2010.
 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall