Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga yfir markmið í fyrsta sinn í 4 ár?

07.03.2018

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,4% í mars frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst 12 mánaða verðbólga úr 2,3% í 2,6% og fer þar með yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans í fyrsta sinn frá janúar 2014. 

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa versnað lítillega frá síðustu spá. Meiri gangur hefur reynst í fasteignamarkaði á fyrstu mánuðum ársins en margir höfðu búist við, og óvissa um launaþróun hefur aukist að mati okkar. Eftir sem áður eru horfur á að verðbólga verði í grennd við markmið Seðlabankans út árið 2019. Hagstofan birtir VNV fyrir mars kl.9:00 þann 26. þessa mánaðar. 

Útsölulok, flug og húsnæði til hækkunar

Að vanda vega útsölulok þungt til hækkunar VNV í spá okkar fyrir marsmánuð. Mest eru áhrifin á verð á fötum og skóm (0,18% áhrif í VNV), enda virðast útsöluáhrif í liðum á borð við húsgögn, heimilisbúnað og raftæki hafa gengið meira og minna til baka í febrúarmánuði. 

Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, hækkaði talsvert í febrúarmánuði þvert á væntingar okkar. Virðist sem nokkurt líf sé enn á húsnæðismarkaði, en mælingar á þessum lið á lokafjórðungi síðasta árs höfðu verið æði sveiflukenndar eftir mikla hækkun fyrr á árinu. Könnun okkar bendir til þess að reiknaða húsaleigan muni hækka um u.þ.b. 0,6% í mars (0,12% í VNV). Óvissa um þennan lið er þó með meira móti að þessu sinni eftir sveiflur síðustu mánaða.

Flugfargjöld til útlanda hafa lækkað um 14% það sem af er ári. Könnun okkar bendir til að breyting verði þarna á, og að hækkun þessa liðar muni vega til 0,06% hækkunar VNV í mars. 

Aðrir liðir hafa minni áhrif í spá okkar fyrir marsmánuð, og sér í lagi er ekki útlit fyrir að margt muni vega til lækkunar VNV í mánuðinum.

Verðbólga við markmið Seðlabankans á næstunni

Útlit er fyrir að verðbólga verði við markmið Seðlabankans næstu mánuðina. Við spáum 0,3% hækkun VNV í apríl, 0,2% hækkun í maí og 0,3% hækkun VNV í júní. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,7% um mitt ár.

Húsnæðisliðurinn leggur mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,13% í mánuði hverjum að jafnaði. Hér er þó um mun hægari hækkun þessa liðar að ræða heldur en raunin var fyrir ári síðan. Þá mun verð á gistingu og þjónustu veitingahúsa væntanlega hækka eftir því sem líður á vorið. Í júní er líklegt að flugfargjöld hækki þegar háannatími ferðaþjónustunnar gengur í garð. Ekki eru vísbendingar um afgerandi áhrif annarra liða á VNV á allra næstu mánuðum að mati okkar, þótt væntanlega muni undirliggjandi þróun verða til hóflegrar hækkunar almennt.

Verðbólga rétt yfir markmiði næstu ár

Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði  á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að jafnaði síðustu mánuði. Þá gerum við ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann, líkt og sjá má í töflu fremst í spánni.

Við teljum að verðbólga verði rétt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á seinni helmingi ársins 2018, og að hún muni mælast 3,0% í árslok. Árið 2019 spáum við 2,7% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga að nærri 2,5% markmiði Seðlabankans fram til ársloka 2019.

Talsverð óvissa er um þróun íbúðaverðs næstu fjórðunga í ljósi breytinga á íbúðamarkaði undanfarið. Liggur þar helsti óvissuþáttur til lækkunar frá spánni að okkar mati. Á móti gæti hröð hækkun launakostnaðar reynst þrálátari þegar frá líður en við gerum ráð fyrir. Þróun krónu er svo óvissuþáttur á báða bóga. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall