Morgunkorn Íslandsbanka

Flugfargjöld og húsnæði helstu áhrifaþættir aukinnar verðbólgu í júní

12.06.2018

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í júní frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá hækkar 12 mánaða verðbólga úr 2,0% í 2,2%.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru lítið breyttar frá síðustu spá. Við gerum ráð fyrir að verðbólga næstu mánuði verði undir markmiðum Seðlabankans og í lok árs verði hún í grennd við markmiðið. Hagstofan birtir VNV miðvikudaginn 27. júní kl. 9.00.

 

Húsnæði, eldsneyti og flug til hækkunar

Þrír liðir vega mest til hækkunar VNV í júní samkvæmt könnun okkar; íbúðaverð, eldsneytisverð og flugfargjöld. Við spáum því að flugfargjöld vegi mest til hækkunar í VNV í júní eða um 10% (0,14%) eftir að hafa lækkað um 9% í síðasta mánuði.  Könnun okkar bendir til þess að eldsneytisverð muni einnig hækka frá fyrri mánuði, eða um 1,82% (0,06% í VNV).

Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, hækkar um 0,50% (0,11% í VNV) samkvæmt könnun okkar. Þessi liður hefur verið nokkuð kvikur undanfarna mánuði og er óvissa um hann því með meira móti. Nokkuð er farið að hægja á hækkunartakti íbúðaverðs frá því hann var hvað hraðastur á fyrri helmingi síðasta árs. Við spáum að húsnæðisliðurinn í heild vegi um 0,12% í VNV í júní.

 

Fátt vegur til verulegrar lækkunar í VNV í júnímánuði samkvæmt spá okkar. Við teljum að matvöruverð muni lækka um 0,51% (-0,06 í VNV) og þá eru horfur á lækkun heimilisbúnaðar um 0,50% (-0,02% í VNV).

Hófleg verðbólga á komandi misserum

Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefi ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir því að gengi krónu verði á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að jafnaði síðustu ársfjórðunga. Þá gerum við ráð fyrir að nokkuð dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs eftir því sem líður á spátímann, en að launakostnaður aukist áfram jafnt og þétt.

 

Útlit er fyrir að verðbólga verði áfram undir markmiði Seðlabankans næstu mánuðina. Við spáum 0,2% lækkun VNV í júlí, 0,5% hækkun VNV í ágúst og 0,4% hækkun í september. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,4% í septembermánuði. Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar á tímabilinu, eða 0,13% í mánuði hverjum að jafnaði. Verulega hefur þó dregið úr hækkunaráhrifum húsnæðisliðar frá síðasta ári, á þessu sama tímabili í fyrra vó húsnæðisliður að jafnaði til 0,28% hækkunar VNV í mánuði hverjum.

Útsöluáhrif munu svo setja svip sinn á júlímælingu VNV að vanda og útsölulok að sama skapi á ágúst-september mælingarnar. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni hækkun flugfargjalda í júlí, en lækkun í ágúst og september.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall