Morgunkorn Íslandsbanka

Lækkun á flugfargjöldum styður við vöxt ferðaþjónustunnar

16.03.2017

Síðustu ár hefur verð á flugi samanborið við aðra ferðamáta farið lækkandi. Ástæða lækkunarinnar hefur m.a. verið sú aukna samkeppni sem fylgdi mildun regluverks í kringum flugþjónustu sem og tækniframfarir. Lækkun eldsneytisverðs hefur síðan stutt við þessa þróun. Þetta hefur komið Íslandi vel þar sem lækkandi verð á flugi gerir Íslandsför fýsilegri en samkvæmt gögnum Hagstofunnar fara nú um 22% af útgjöldum ferðamanna í flug og er ferðaákvörðunin talsvert næm fyrir þessu kostnaðarþætti.

Keflavíkurflugvöllur hefur tvöfaldast í stærð

Sú hraða uppsveifla sem orðið hefur í íslenskri ferðaþjónustu hefur leitt til þess að Keflavíkurflugvöllur hefur stækkað hratt. Frá byrjun aldarinnar hefur völlurinn tæplega tvöfaldast í stærð og stæðum við flugvöllinn hefur fjölgað hratt. Á árinu 2016 voru 29 stæði við flugvöllinn en gert er ráð fyrir að þeim fjölgi um 7 á næstu tveimur árum. Íslensk ferðaþjónusta á mikið undir flugvellinum komið enda má segja að hann sé anddyri landsins og upplifun ferðamannsins þar getur haft áhrif á upplifun hans af landinu. 

Viss áhætta felst í því fyrir íslenska ferðaþjónustu sem og hagkerfið allt að einungis sé starfræktur hér einn alþjóðaflugvöllur. Icelandair skoðar nú veðurskilyrði í Hvassahrauni vegna mögulegs flugvallar þar. Þrátt fyrir að verið sé að horfa til innanlandsflugs í þessu samhengi væri líka möguleiki að nýta flugvöll þar fyrir millilandaflug seinna meir. Með því mætti dreifa áhættu og mynda samkeppni á milli flugvalla neytendum til hagsbóta.

Íslensku flugfélögin stærst

Íslensku flugfélögin Icelandair og WOW verða með um 75% flugframboðs í Keflavík á árinu. Þau eru þar með lykil leikandi í framgangi íslenskrar ferðaþjónustu. Þá nýta þau jafnframt Keflavík sem tengihöfn fyrir alþjóðaflug en í því felast töluverð tækifæri en vegna legu landsins er vel mögulegt, sé vilji til, að gera Ísland að áningarstað alþjóðarflugs í ríkari mæli. Það hefði í för með sér talsverðar gjaldeyristekjur auk þess að vera atvinnuskapandi en ATAG hefur áætlað að um eitt starf skapist fyrir hverja 1.000 ferðamenn sem fara um flugvöll. Í því fælist líka áhættudreifing þar sem flugvöllurinn og öll starfsemi þar ætti ekki allt sitt einungis undir íslenskri ferðaþjónustu. 

Þrátt fyrir að íslensku félögin séu umsvifamest á flugvellinum veita erlend flugfélög þeim talsverða samkeppni um beint flug hingað. Þau hafa sýnt með skýrum hætti fram á þá staðreynd að íslensk flugfélög eiga í alþjóðlegri samkeppni og fá engar fákeppnisbætur í sína arðsemi. 

Ef þú hefur áhuga á að lesa meira um flugsamgöngur eða flugvöllinn kynntu þér þá skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu sem birt var fyrr í þessum mánuði.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall