Morgunkorn Íslandsbanka

Mildari tónn í peningastefnunefndinni

20.08.2014

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni og er það í takti við okkar spá og annarra. nullTónninn í yfirlýsingu nefndarinnar hefur verið mildaður og eru það stóru tíðindin í yfirlýsingunni. Segir í yfirlýsingunni nú að miðað við grunnspá bankans sé útlit fyrir að núverandi vaxtastig dugi til að halda verðbólgu í markmiði. Í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar í júní var hins vegar tekið fram að aukinn vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum myndi að öðru óbreyttu krefjast þess að raunvextir Seðlabankans hækkuðu frekar, og það færi eftir framvindu verðbólgu og verðbólguvæntinga hvort það yrði í formi hækkunar stýrivaxta á næstunni.

Hefur haft talsverð áhrif á skuldabréfamarkaði

Ofangreind breyting í tón peningastefnunefndar hefur haft umtalsverð áhrif á ávöxtunarkröfu skráðra innlendra skuldabréfa í morgun. Hefur krafa óverðtryggðra bréfa lækkað um 6-17 punkta en krafa verðtryggðra bréfa lækkað um 5-11 punkta frá opnun þegar þetta er ritað (kl. 11:00). Auk þessa hefur yfirlýsing peningastefnunefndar haft áhrif á gengi tryggingafélaganna á hlutabréfamarkaði, en gengi þeirra hefur hækkað í morgun um 1,0-1,6%. Áhrifin koma til af því að eignasafn þeirra er að stórum hluta innlend ríkistryggð skuldabréf.

Bjartsýnni á verðbólguhorfur

nullBankinn er bjartsýnni á verðbólguhorfur í uppfærðri verðbólguspá sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni nú en í undanförnum spám. Er spá bankans nú að verðbólgan verði við verðbólgumarkmiðið út spátímann, sem nær til ársins 2017. Bankinn spáir því nú að framleiðsluspennan í hagkerfinu myndist seinna og verði ekki eins mikil og reiknað var með í  síðustu spá bankans sem birt var í maí sl. Vegur þessi breyting þungt í því hvers vegna bankinn er að lækka verðbólguspá sína og peningastefnunefndin að milda vaxtahækkunartóninn. Fram kom á fundi Seðlabankans vegna vaxtaákvörðunarinnar í morgun að óvissa væri um þetta mat og að það væri ekki meginástæðan fyrir breyttum tón peningastefnunefndarinnar. Á móti vegur að í spá bankans er launakostnaður á framleidda einingu að vaxa hraðar og innlend eftirspurn að aukast öllu meira á komandi misserum en í síðustu spá.

Regluleg gjaldeyriskaup halda áfram í núverandi mynd

Peningastefnunefndin segir að stefnt sé að því að regluleg kaup bankans á gjaldeyri haldi áfram í núverandi umfangi svo lengi sem aðstæður nullbreytast ekki umtalsvert, en áður voru þeir búnir að segja að kaup þessi yrðu endurskoðuð með haustinu. Í yfirlýsingunni segir að eftir sem áður mun bankinn beita óreglulegum viðskiptum í því skyni að draga úr sveiflum í gengi krónunnar. Er bankinn búinn að kaupa gjaldeyri fyrir 61 m.kr. frá upphafi þessa árs. Jafngildir þetta um 3% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Sagði Seðlabankastjóri á fundi vegna vaxtaákvörðunarinnar í morgun að án þessara kaupa hefði gengi krónunnar hækkað verulega.

Hagvaxtarspáin lítið breytt

Hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir þetta ár hefur verið lækkuð aðeins í takti við það sem við reiknuðum með. Er bankinn nú að spá 3,4% hagvexti í ár en reiknaði með 3,7% hagvexti í maíspá sinni. Er bankinn þar að nálgast okkar spá, en við reiknum með 3,2% hagvexti í þjóðhagsspá okkar frá maí síðastliðnum. Annars er hagvaxtarspá bankans lítið breytt nullút spátímabilið sem nær til 2016. Spáir bankinn 3,9% hagvexti á næsta ári og 2,8% á árinu 2016.  Sú breyting hefur verið gerð að ekki er lengur gert ráð fyrir álveri í Helguvík á spátímanum, en þess í stað er áætlað að þrjú kísilver verði byggð á komandi misserum í stað eins áður. Stóriðjufjárfesting verður því heldur minni í nýju spánni, en meiri vöxtur í annarri atvinnuvegafjárfestingu vegur þá breytingu upp og gott betur.

Dregur úr líkum á hækkun stýrivaxta á næsta ári

Mildari tónn peningastefnunefndarinnar skapar óvissu um þá spá okkar að bankinn muni hækka vexti á næsta ári. Höfum við reiknað með 0,75 prósentustiga hækkun á því ári, að sú hækkun yrði tekin í þrem jafnstórum skrefum og það fyrsta snemma á árinu. Ef grunnspá Seðlabankans gengur eftir er líklegt að ekki verði af þessum hækkunum.    

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall