Morgunkorn Íslandsbanka

Lítilsháttar hjöðnun verðbólgu í október

29.10.2015

Verðbólgumæling Hagstofunnar í október er í samræmi við spá okkar. Taktur verðbólgunnar hjaðnar lítillega á ný, og útlit er fyrir að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út árið. Húsnæðisliðurinn skýrir stærstan hluta verðbólgunnar þessa dagana, en verðhjöðnun á innfluttum vörum vegur á móti hækkun innlendra liða.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um  0,07% í október skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 1,8%, en var 1,9% í september sl. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,20% í október og mælist verðbólga á þann kvarða 0,3% samanborið við 0,5% í september. Vísitölumælingin nú er í miðju spábils miðað við opinberar spar, og í samræmi við spá okkar. Við spáðum 0,1% hækkun VNV milli mánaða en spár voru á bilinu 0,1% lækkun til 0,2% hækkun.

Húsnæðisliðurinn vegur þyngst í verðbólgu

Húsnæðisliðurinn á einna stærstan þátt í mældri verðbólgu þessa dagana, en 6,1% hækkun hans undanfarið ár hefur áhrif til 1,7% verðbólgu að öllum öðrum þáttum slepptum. Liðurinn hafði einnig mest áhrif til hækkunar VNV milli mánaða í október. Hækkaði hann um 0,7% (0,2% áhrif á VNV), sem er öllu meiri hækkun en við höfðum gert ráð fyrir. Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 1,2% (0,2% í VNV) og greidd húsaleiga um 0,6% (0,03% í VNV).  

Af öðrum hækkunarliðum má kannski helst nefna fata- og skóliðinn sem hækkaði um 0,8% (0,03% í VNV) í október. Þá hækkun má að öllu leyti rekja til rúmlega 8% hækkunar á skóm (+0,05% í VNV) enda lækkaði fataliðurinn um 0,5% (-0,02% í VNV). 

Innflutt verðhjöðnun eftir krónustyrkingu

Hins vegar lækkuðu ýmsir undirliðir VNV í október, ekki síst vegna styrkingar krónu síðustu mánuði og lækkunar á eldsneytisverði. Mest munar þar um ferða- og flutningalið vísitölunnar, en lækkun hans um rúm 0,7% vó til 0,11% lækkunar VNV í október. Lagðist þar á eitt tæplega 0,9% verðlækkun á bílum (-0,05% í VNV), 1% lækkun á eldsneytisverði (-0,03% í VNV) og 1,2% lækkun á flugfargjöldum (-0,02% í VNV). Lækkun á flugfargjöldum er til komin vegna  3,2% lækkunar á flugfargjöldum til útlanda, enda hækkuðu flugfargjöld innanlands um rúm 18%. 

Þá lækkaði verð á matvöru og drykkjum um rúm 0,2% (-0,03% í VNV), en stórmarkaðir hafa undanfarið auglýst verðlækkun á ýmsum innfluttum matvörum vegna hagstæðara innkaupagengis. Áfengi og tóbak lækkaði einnig lítillega (-0,01% í VNV). Loks lækkaði verð á símaþjónustu um 2,1% (-0,07% í VNV), en sú lækkun tengist ekki sérstaklega gengi krónu svo séð verði.

Undanfarið ár hefur verð á innfluttum vörum lækkað um 3,3% samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Bein áhrif þessa eru til ríflega 1% verðhjöðnunar. Þar að auki hefur styrking krónunnar síðustu mánuði lækkunaráhrif í ýmsum innlendum liðum á borð við ferðakostnað og viðhaldkostnað húsnæðis. Á móti er innlend verðbólga, að húsnæði frátöldu, nú 3,4%. Hin hóflega verðbólga nú endurspeglar því talsverða innlenda verðbólgu annars vegar, og innflutta verðhjöðnun hins vegar.

Hófleg verðbólga næsta kastið

Horfur fyrir þróun VNV næstu mánuði eru svipaðar og við áætluðum í nýjustu verðbólguspá okkar. Þó er heldur óvissa til eitthvað minni hækkunar VNV fremur en meiri. Styrking krónunnar síðustu vikur hefur áhrif til minni hækkunar VNV á næstunni, og auk þess reiknum við með fyrirfram áhrifum af afnámi tolla á föt og skó sem tekur gildi um næstu áramót. Bráðabirgðaspá okkar nú gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,1% í nóvember, um 0,2% í desember og lækki um 0,5% í janúar. Verðbólga verður skv. spánni 2,3% í árslok. 

Seðlabankinn óhóflega svartsýnn í ágúst

Verðbólga verður talsvert minni næsta kastið en spáð var af Seðlabankanum í ágúst sl. og mun ný spá hans, sem birt verður í næstu viku, hljóða upp á talsvert minni skammtíma verðbólgu en fyrri spá hans gerði að okkar mati. Í ágúst spáði Seðlabankinn því að verðbólga yrði við efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins undir lok ársins og myndi mælast 4,3% á fyrsta fjórðungi næsta árs, en við teljum nú horfur á að verðbólga verði í námunda við 2,5% verðbólgumarkmiðið fram yfir mitt næst ár. Óhófleg svartsýni í verðbólguspá Seðlabankans í ágúst skrifast raunar að stórum hluta á þá gengisforsendu sem þar var gefin, en gengi krónu er nú ríflega 6% hærra að jafnaði en þar var reiknað með. Auk þess virðist bankinn hafa gert ráð fyrir talsvert meiri hækkun launakostnaðar á seinni hluta yfirstandandi árs en útlit er fyrir nú. 

Þess má geta að við síðustu vaxtaákvörðun var tiltekið að minni verðbólga en spáð hafði verið á 3. ársfjórðungi skýrðist að hluta af sveiflukenndum liðum, og voru flugfargjöld þar sérstaklega nefnd til sögu. Okkur þykir það fráleit skýring, enda ætti verðbólguspá Seðlabankans að taka tillit til árstíðabundinna hreyfinga eins gjarnan er með verð á flugfargjöldum. Þróunin nú, þar sem flugfargjöld lækkuðu þriðja mánuðinn í röð, kom okkur ekki sérstaklega á óvart enda er hún í samræmi við árstíðarsveiflu, auk þess sem sterkari króna og lækkun eldsneytisverðs hefur þar áhrif. Við eigum því ekki von á að þessi liður vegi sérstaklega til aukinnar verðbólgu á næstunni, þótt væntanlega hækki hann með vorinu líkt og jafnan er raunin.
 
Bjartari skammtíma verðbólguhorfur munu væntanlega vega allþungt við vaxtaákvörðun Seðlabankans í næstu viku. Líkt og fram kom í Morgunkorni í gær spáum við óbreyttum stýrivöxtum næstkomandi miðvikudag, og að frekari hækkun vaxta bíði næsta árs.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall