Morgunkorn Íslandsbanka

Dregur úr afkomu Eimskips

02.09.2013

nullAfkoma Eimskips á öðrum ársfjórðungi nam 2,0 m.EUR en var 7,4 m.EUR fyrir sama tímabil á síðasta ári. EBITDA hagnaður dróst saman um 20% milli ára. Rekstartekjur jukust aðeins um 1,2% á meðan kostnaður hækkaði um 3,9%. EBITDA tímabilsins sem hlutfall af sölu nam 9,1%. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu var farið í breytingar á siglingaleiðum á tímabilinu sem gerðu það að verkum að EBITDA félagsins var um 800 þ.EUR lægri en annars. Breytingin var með þeim hætti að tvö gámaskip voru tekin á leigu og sett á svo kallaða strandleið (rauð leið) en leigu var sagt upp á skipi sem var að vinna í flutningum tengdum Færeyjum. Að sögn félagsins má reikna með að ákveðin tíma taki að ná upp magni í flutningum þegar skipi er bætt á leið en þegar félagið bætti við skipi á Bandaríkjaleið (græn leið) þá tók um ár að ná upp magni í flutninga á það skip.

Háðir efnahagsaðstæðum á Íslandi

Félagið hafði um 48% af tekjum sínum frá Íslandi á fyrri hluta ársins og er félagið því mjög háð efnahagsaðstæðum hér heima. Segja má að félagið hafi vaxið of hratt mælt í framboðnu flutningsmagni miðað við innlenda eftirspurn. Innflutningur til landsins hefur verið dræmur samhliða litlum nýfjárfestingum og litlum vexti einkaneyslu. Félagið hefur lengi viljað draga úr þeirri áhættu sem felst í því að fá mikinn hluta af tekjum sínum frá Íslandi líkt og birtist í kynningu félagsins á nýju siglingakerfi í byrjun mars sl. Væntingar eru um  að það leiði til aukins tekjuvaxtar þegar fram líða stundir sem og aukinnar hlutdeildar erlendra tekna. Félagið hefur nú birt spá um afkomu ársins og gerir ráð fyrir að EBITDA hagnaður muni nema 36-40 m.EUR en EBITDA hagnaður síðasta árs af áframhaldandi starfsemi nam 40,1 m.EUR.

Ný skip eiga meðal annars að styðja við mögulega stóriðjuflutninga

Eins og þekkt er varð töf á afhendingu tveggja skipa sem eru í smíðum í Kína. Samkvæmt forstjóra félagsins hefur þessi afhendingardráttur ekki komið sér illa fyrir félagið í ljósi þess að staðið hefur á uppgangi hér heima. Meðal þess sem þessi tvö nýju skip áttu að gera var að auka flutningsgetu vegna stóriðjuframkvæmda á Bakka við Húsavík og í Helguvík. Helguvík er mun stærri framkvæmd en sú á Bakka, en fyrir liggur að mikil óvissa eru um þær framkvæmdir. Þeim hefur raunar árlega verið frestað fram á næsta ár undanfarin fimm ár. Lágt álverð eykur svo ekki líkurnar á framkvæmdum í bili, sérstaklega þegar hugsanlega er að draga úr vilja innlendra orkuseljenda til að tengja orkuverð við álverð, en Landsvirkjun hefur þegar stigið skref í þá átt. Nýju skipin eiga þó ekki aðeins að taka á nýjum flutningum heldur er ætlunin að segja upp leigusamningum um skip samhlið afhendingu þeirra. Afhending skipanna er áætluð á fyrri hluta árs 2014.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall