Morgunkorn Íslandsbanka

Haustkönnun Greiningar: Niðurstöður

03.10.2017

Í undirbúningsvinnu fyrir þjóðhagsspá Greiningar þetta árið ákváðum við að brydda upp á þeirri nýjung að bera undir lesendur Morgunkornsins sumar af þeim spurningum sem við höfum velt fyrir okkur undanfarnar vikur og mánuði. Undirtektir við þessa stuttu könnun okkar voru betri en við höfðum þorað að vona, og bárust á fimmta hundrað svara. 

Hér sjáum við hvar lesendur Morgunkornsins telja íslenska hagkerfið á vegi statt í hagsveiflunni. Flestir eru svarendur á því að aðstæður í efnahagslífinu séu nokkuð góðar. 

Eins og títt er þegar líður á hagsveifluna sjá flestir einnig fyrir sér svipaðan gang áfram, en fleiri eru þó á því að staðan muni versna á komandi 12 mánuðum en að hún muni batna frekar.

Svarendur í könnuninni okkar eru líka margir hverjir á því að nýlegar spár séu full bjartsýnar á vöxtinn á næsta ári, og kemur það ágætlega heim og saman við svörin hér að ofan. 

Almennt telja lesendur Morgunkorns að staða þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá muni ekki breytast mikið á komandi 12 mánuðum. Nokkru fleiri eru þó á því að staðan muni batna en hitt. 

Þá virðast svarendur svipaðrar skoðunar og kom fram í nýlegri þjóðhagsspá okkar um að einkaneyslan sé að verða helsti drifkraftur vaxtar næsta kastið. Mun færri nefna ferðaþjónustuna, sem kom okkur nokkuð á óvart í ljósi þess hversu stórt hlutverk hún hefur spilað í vexti síðustu misserin.

Við spurðum lesendur Morgunkorns hverja þeir teldu líklegustu þróun krónunnar á komandi 12 mánuðum. Flestir eru á þeirrar skoðunar að hún haldi áfram að veikjast hægt og bítandi, líkt og raunin var yfir sumarmánuðina. Allnokkrir eiga von á svipuðu gengi krónu á tímabilinu, eða lítilsháttar styrkingu. Fáir eru hins vegar á því að veruleg veiking sé framundan. 

Okkur lék einnig forvitni á að vita hvernig væntingar um stýrivexti væru þessa dagana. Flestir telja að vextirnir verði óbreyttir næsta árið, og nokkru fleiri eru síðan á því að þeir muni hækka en að þeir geti lækkað.

Að lokum er rétt að heyra hljóðið í lesendum Morgunkornsins varðandi hvar helst geti verið áhætta í íslenska hagkerfinu um þessar mundir. Fjórir liðir skera sig úr: Ferðaþjónustan, gengisþróun krónu, launaþróun og stjórnmálaástandið. Fyrstu tveir liðirnir eru auðvitað samtvinnaðir að verulegu leyti. Hitt má samt líka benda á að seinni tveir liðirnir gætu samanlagt gert landsmönnum töluverða skráveifu á komandi tíð, það er ef saman fer lausatök og skortur á langtímahugsun í ríkisrekstrinum annars vegar, og átök og óróleiki á vinnumarkaði hins vegar. Má því segja að hættan felist í klassísku ytra áfalli annars vegar, og eins konar sjálfskaparvíti hins vegar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall