Morgunkorn Íslandsbanka

Neyslugleði í maímánuði

18.06.2014

nullRaunvöxtur kortaveltu einstaklinga í maí síðastliðnum nam 7,5% frá sama mánuði í fyrra og er þetta hraðasti raunvöxtur kortaveltu á milli ára síðan í október 2011. Hefur kortavelta einstaklinga ekki verið meiri í maímánuði að raunvirði síðan fyrir hrun, og á það bæði við kortaveltu innanlands sem og erlendis.

Kortavelta einstaklinga innanlands jókst um 6,2% í maí að raungildi á milli ára, og hefur vöxtur í kortaveltu innanlands ekki verið meiri síðan í október 2011. Á sama tímabili óx kortavelta einstaklinga erlendis um 19,1%, en sá vöxtur er í takti við þá þróun sem verið hefur síðustu misserin þar sem ör vöxtur erlendra netverslana hefur spilað stóra rullu. Þó gætir einnig áhrifa af þeirri aukningu sem orðið hefur í utanlandsferðum á árinu, en samkvæmt tölum Ferðamálastofu þá hafa ekki jafn margir Íslendingar haldið utan á fyrstu fimm mánuðum ársins síðan fyrir hrun og nú í ár.

Við þetta má bæta að aðrar vísbendingar um neyslu heimilanna eru á sama veg. Þannig hefur gríðarleg fjölgun orðið á nýskráningum bifreiða á árinu, og samkvæmt upplýsingum frá Bilgreinasambandinu þá var sala á nýjum bílum 51% meiri í maí sl. en í maí í fyrra, en bifreiðakaup eru stór hluti þeirrar einkaneyslu sem ekki er greidd með greiðslukortum. Samtals hafa verið skráðir 4.412 fólksbílar á fyrstu fimm mánuðum ársins og er það 32% aukning frá fyrra ári og er aukningin að miklu leyti í sölu til einstaklinga og einnig til fyrirtækja. Einnig má nefna að talsverður vöxtur var í allri tegund verslunar í maí sl. samkvæmt þróun smásöluvísitölu Rannsóknarsetur verslunarinnar, og samkvæmt fréttatilkynningu RSV þá virðist verslun með dýrari vörur vera á hraðri uppleið.

Enginn samdráttur í apríl

nullSá samdráttur sem virtist vera í kortaveltu einstaklinga í apríl sl. heyrir nú sögunni til. Kemur það til vegna þess að Seðlabankinn hefur leiðrétt tölur um veltu innlendra kreditkorta til lækkunar, og nær sú leiðrétting aftur til janúar 2011 og fram til mars 2014. Þannig bentu eldri tölur til þess að kortavelta einstaklinga hefði dregist saman um 2,7% að raungildi á milli ára í apríl sl., en nýjar tölur benda til þess að hún hafi staðið svo til í stað.

Minni neysla en áður var talið

Þessi ofangreind leiðrétting Seðlabankans gerir það að verkum að nú virðist sem kortavelta einstaklinga hafi vaxið mun minna á síðustu árum en áður var talið. Fyrri tölur bentu til þess að kortavelta einstaklinga hefði vaxið að raungildi um 9,5% á milli 2010 og 2013, en nýjar tölur benda til þess að vöxturinn hafi einungis verið 5,9%. Jafnframt virðist sem vöxtur í kortaveltu einstaklinga á fyrsta ársfjórðungi hafi verið heldur minni en fyrri tölur gáfu til kynna þ.e. 5,4% í stað 6,9%. Eftir þessa leiðréttingu er þróun kortaveltu einstaklinga mun meira í samræmi við tölur Hagstofunnar um þróun einkaneyslu. Samkvæmt þeim þá jókst einkaneyslan um 6,3% á milli 2010 og 2013 en um 3,9% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi.

Horfur á talsverðum vexti í einkaneyslu í ár

nullSé tekið mið af fyrstu fimm mánuðum ársins þá hefur kortavelta einstaklinga aukist um 4,8% að raunvirði frá sama tímabili í fyrra. Er það nokkuð umfram kaupmáttaraukninguna á sama tímabili. Hér verður raunar að taka inn í reikninginn að einkaneysla var með rýrara móti á sama tímabili í fyrra, og í raun var vöxtur hennar á árinu 2013 í heild lítill og nokkuð undir vexti kaupmáttar launa. Við teljum líkt og aðrir einkaneyslan muni vega mun þyngra í hagvexti þetta árið en hún gerði í fyrra þegar utanríkisviðskipti, þá ekki síst gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar, drógu hagvaxtarvagninn að langmestu leyti. Rímar því tölur fyrir þróunina það sem af er ári ágætlega við spá okkar um 4,2% einkaneysluvöxt á árinu í heild, en þar gerðum ráð fyrir að eitthvað myndi hægja á vexti einkaneyslunnar eftir því sem liði á árið.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall