Morgunkorn Íslandsbanka

Íbúðaverðshækkun til hjálpar heimilunum

21.01.2014

nullÍbúðaverð hækkaði um 8,7% á landinu öllu í fyrra. Hækkaði þetta verðmæti íbúðaeigna heimilanna um 245 ma.kr., en heildareignir einstaklinga í íbúðum voru tæplega 2.828 ma.kr. í lok árs 2012 samkvæmt skattframtölum. Jafngildir verðhækkunin um 1.2 m.kr. aukningu í eignum hverrar fjölskyldu í landinu. Er þetta umtalsverð búbót, en þess má geta að eiginfjárstaða hverrar fjölskyldu var að meðaltali 10,8 m.kr. í lok árs 2012 samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Er þá ekki reiknað með eign í lífeyrissjóðum. Hefur eiginfjárstaða heimilanna verið að batna síðustu þrjú ár, m.a. vegna verðhækkunar íbúðarhúsnæðis, eftir að hafa versnað verulega í kjölfa hrunsins. Frá árinu 2010, þ.e. þegar verðið fór lægst eftir hrunið, hefur verð íbúðarhúsnæðis hækkað um 26,1%.  

Verðbólgan vegur upp veðhækkunina að stórum hluta

nullVerðbólgan vó því miður upp tæplega helming af þessum ábata verðhækkana húsnæðisverðs í fyrra. Mældist verðbólgan 4,2% yfir árið. Á húsnæðisverðhækkunin reyndar beint stóran hluta af þeirri verðbólgu, en vístala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 3,3% í fyrra. Óbeint átti húsnæðisverðhækkunin einnig hluta af verðbólgunni, m.a. vegna þeirra áhrifa sem hún hafði á eftirspurn í landinu.

Verðbólgan eykur verðtryggðan hluta skulda heimilanna sem er lang stærsti hluti íbúðaskulda þeirra sem og heildarskulda. Skuldir heimilanna voru 1.922 ma.kr. í lok árs 2012, og voru um 80% þeirra verðtryggðar skuldir og 64% skuldir vegna íbúðalána. Þá kallar verðbólgan einnig á hærri stýrivexti Seðlabankans, sem hefur aftur áhrif út í gegnum vaxtarófið og þannig á þau vaxtakjör sem heimilunum bjóðast. 

Mest hækkun á íbúðum í fjölbýli

Ljóst er að það er nokkuð misskipt hvernig þessi þróun hefur komið niður á einstökum fjölskyldum. Verðhækkun íbúðahúsnæðis í fyrra má að mestu rekja til hækkunar á íbúðum í fjölbýli, en þær hækkuðu um 10,2% (á höfuðborgarsvæðinu) á meðan einbýlishús hækkuðu um 3,6% (á höfuðborgarsvæðinu). Það má því leiða að því líkur að eignaaukning vegna verðhækkunar húsnæðis í fyrra hafi verið hlutfallslega mest hjá efnaminni heimilum. Á móti kemur að skuldsetning er afar mismunandi. Tæplega 70% fjölskyldna voru með jákvæða eiginfjárstöðu í lok árs 2012 og hafði þeim þá fjölgað um 4% frá fyrra ári. Ljóst er að verðhækkun íbúðahúsnæðis hefur bætt enn þetta hlutfall í fyrra og situr mest eftir af verðhækkuninni hjá þeim sem skulda hvað minnst. 

Framhald á þessari þróun

nullVið reiknum með því að húsnæðisverð hækki um 6,5% yfir þetta ár, sem er öllu minni hækkun en í fyrra. Á móti kemur að við reiknum einnig með því að verðbólgan verði minni eða 3,1%. Raunverðshækkun íbúðahúsnæðis verður því í ár svipuð því sem hún var í fyrra samkvæmt okkar spá. Hagur heimilanna mun því halda áfram að vænkast í ár af þessum sökum, þ.e. eignir heimilanna í húsnæði munu halda áfram að aukast bæði að nafnvirði og raunvirði. Þá mun eiginfjárstaða þeirra batna og hlutfall þeirra sem eru í neikvæðri eiginfjárstöðu minnka. Til viðbótar við þetta koma síðan áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til handa skuldugum heimilum, en áætlað er að þær minnki verðtryggðar íbúðaskuldir heimila um 20 ma.kr. á þessu ári.

Hjálpar ekki mikið þeim sem eiga ekki húsnæði

Húsnæðisverðhækkunin undanfarið hjálpar ekki þeim sem eiga ekki sitt eigið húsnæði. Segja má að það geri þeim erfiðara fyrir að koma inn á markaðinn, en íbúðaverð hækkaði á síðasta ári umfram almenna launaþróun. Þá hefur leiguverð verið að hækka hratt en það mótast m.a. af verðhækkun húsnæðis. Hækkaði leiguverð á síðasta ári um 9,8% samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Hefur leiguverðið hækkað um 29,7% frá upphafi árs 2011 en lengra aftur ná gögn Þjóðskrár ekki um leiguverð. Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna 2010-2012 búa um 73% heimila í eigin húsnæði og 27% í leiguhúsnæði. Hlutfall þeirra sem búa í leiguhúsnæði hefur verið að hækka undanfarin ár og hefur ekki áður verið hærra en nú. Það er því talsvert stór hluti heimilanna sem fær engan fjárhagslegan ávinning út úr íbúðaverðhækkuninni sem hér hefur verið undanfarið.  

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall