Morgunkorn Íslandsbanka

Óbreyttir stýrivextir í takti við spá okkar

05.10.2016

Peningastefnunefnd Seðlabankans hélt stýrivöxtum bankans óbreyttum í takti við spá okkar og flestra annarra sem spá opinberlega fyrir um stýrivexti. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,25%. 

Rök nefndarinnar fyrir óbreyttum stýrivöxtum eru í takti við það sem við reiknuðum með, þ.e. verðbólgan hefur aukist töluvert frá síðustu vaxtaákvörðun og að hagvöxtur er mikill og hagvaxtarhorfur heldur að batna. Það, ásamt áhrifum af leiðréttingu Hagstofunnar, vegur að mati nefndarinnar á móti áhrifum nýlegrar styrkingar krónu og því að verðbólguvæntingar eru áfram við verkbólgumarkmið.

Áfram hlutlaus framsýn leiðsögn

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er tekinn út hluti texta úr síðustu yfirlýsingu er varðar framsýna leiðsögn um næstu skref í peningamálum. Engu að síður er framsýna leiðsögnin hlutlaus líkt og áður og segir nefndin að  varfærni þurfi um þessar mundir við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af efnahagsþróuninni og því hvernig tekst til við losun fjármagnshafta. 

Augun nefndarinnar á væntanlegu afnámi gjaldeyrishafta

Nefndin virðist í þessu m.a. hafa augun á gengisþróun krónunnar, en væntanleg skref í losun fjármagnshafta skapa mun meiri óvissu um væntanlega þróun hennar. Með meira frelsi til fjármagnsflutninga losnar gengið í auknum mæli undan þeirri stjórn sem Seðlabankinn hefur haft á þeirri þróun en samhliða gæti flökt gengisins aukist. Virðist nefndin því vilja fara hægt í sakirnar varðandi frekari breytingar stýrivaxta þar til þetta skref hefur verið stigið. 

Næsta ákvörðun 16. nóvember 

Seðlabankastjóri nefndi á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar í morgun að næsta ákvörðun peningastefnunefndar verður 16. nóvember nk., en þá mun nefndin vera með í höndunum nýa verðbólgu- og hagvaxtarspá bankans og einnig verður þá væntanlega búið að stíga fyrstu skref í losun hafta. Ljóst er að nefndin verður þá með afar mikilvæga þætti er varðar ákvörðun um stýrivexti og næstu skref í peningastjórnuninni. Sagði Seðlabankastjóri að í ljósi væntanlegra skrefa í losun hafta gæti það orðið hluti af spá bankans í nóvember að hafa gengið sem spábreytu, en hingað til hefur bankinn verið með fast gengi sem forsendu í sínum spám. 

Hafa ekki áhyggjur af kostnaði við stóran gjaldeyrisforða

Varðandi kostnað við núverandi gjaldeyrisforða, sem er umtalsverður fyrir Seðlabankann, sagði seðlabankastjóri að allir væru með stóran gjaldeyrisforða um þessar mundir og það væri kostnaðarsamt vegna þess að varasjóðsmyntirnar væru með lága vexti. Sagði hann að ekki væri rétt að gera of mikið úr þessum kostnaði, að hér væri ekki um vandamál að ræða þó svo að forðinn væri kominn nokkuð yfir lágmarksviðmið um stærð forðans. Einnig sagði hann að rétt væri að hafa það í huga að ekki væri búið að losa gjaldeyrishöftin og að bankinn yrði að vera með viðbúnað til að standast það útflæði sem reiknað væri með að í versta felli gæti orðið. Sagði hann að allskonar tækifæri yrðu í framtíðinni til að losa forðann og að vonandi sköpuðust aðstæður til að draga úr mun á innlendum og erlendum vöxtum þegar fram í sækir. 

Síðasta ákvörðun byggð á röngum forsendum 

Aðstoðarseðlabankastjóri sagði á fundinum að síðasta vaxtalækkun hefði verði byggð á röngum forsendum að hluta þar sem skekkja hefði verði í verðbólgumælingu Hagstofunnar. Bætti seðlabankastjóri því við að viðbrögð markaðarins við þeirri ákvörðun hefði verið þannig að hann hefði tímabundið farið nokkuð fram úr sér.

Viðbrögð á innlendum fjármálamarkaði við ákvörðun peningastefnunefndar voru þau í morgun að ávöxtunarkrafa óverðtryggra skuldabréfa hækkaði nokkuð. Veltan á markaði hefur hins vegar verið hófleg enn sem komið er. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall