Morgunkorn Íslandsbanka

Minni verðbólga í apríl en vænst var

28.04.2016

Hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í apríl var talsvert minni en vænst var, og mælist verðbólga enn talsvert undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þar vegur þungt innflutt verðhjöðnun og styrking krónu undanfarið ár, en einnig hefur innlendur verðbólguþrýstingur verið hóflegri en búast mátti við eftir rausnarlega kjarasamninga í tvö ár samfleytt. M.a. í ljósi þessa reiknum við með óbreyttum stýrivöxtum Seðlabankans næsta kastið. 

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,21% í apríl samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 1,6% en var 1,5% í mars síðastliðnum. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,1% í apríl og miðað við þá vísitölu mælist 0,2% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Hækkun VNV milli mánaða er nokkru minni en almennt var spáð. Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,3 - 0,4% hækkun. 

Hægir á hækkun húsnæðisliðar

Stærsta frávik spár okkar frá mælingu Hagstofunnar liggur í húsnæðislið VNV. Könnun okkar hafði gefið vísbendingu um verulega hækkun á reiknaðri húsaleigu, sem að mestu byggir á verðþróun íbúðarhúsnæðis. Sá liður hækkaði hins vegar talsvert minna, eða um 0,5% (0,07% áhrif í VNV). Er þetta annar mánuðurinn í röð sem hækkun reiknaðrar húsaleigu er verulega minni en spáð var. Í heild hækkaði húsnæðisliður VNV um 0,4% (0,10% í VNV). Þrátt fyrir hóflega hækkun húsnæðisliðarins síðustu mánuði vegur hann enn hvað drýgst til verðbólgunnar um þessar mundir, en hækkun hans undanfarna 12 mánuði skýrir 1,4% af þeirri 1,6% verðbólgu sem nú mælist.

Ferðalög og matvara hækkar í verði..

Kostnaður við ferðir og flutninga hækkaði um 0,7% í apríl (0,10% í VNV). Er það að mestu vegna 2,9% hækkunar á eldsneytisverði milli mánaða (0,10% í VNV). Verð á nýjum bílum hækkaði lítillega milli mánaða, en á móti vó að flugfargjöld innanlands lækkuðu um nærri 20%. Flugfargjöld til útlanda, sem oft sveiflast mikið milli mánaða, voru hins vegar nær óbreytt að þessu sinni.Þá hækkaði verð á mat og drykk um 0,3% í apríl (0,05% í VNV), aðallega vegna verðhækkunar á kjötvörum og grænmeti. Einnig hækkaði verð hótela og veitingastaða um 0,6% að jafnaði (0,03% í VNV).

..en samskipti og afþreying lækkar

Á móti þessum hækkunarliðum vó lækkun ýmissa undirliða VNV í apríl. Þar munar mestu um lækkun á kostnaði við síma- og netþjónustu annars vegar (-0,05% áhrif í VNV), og lækkun á tómstunda- og menningarlið VNV hins vegar (-0,05% í VNV), en þar undir falla bæði vörur á borð við sjónvörp, tölvubúnað og tómstundavörur og einnig afþreyingarþjónusta af ýmsu tagi.

Enn rými fyrir meiri verðlækkun á fötum

Athygli vekur að verð á fötum og skóm hækkaði um 0,2% í apríl (0,01% í VNV). Fata- og skóverslun hefur undanfarið notið umtalsverðrar lækkunar á innkaupsverði vara vegna styrkingar krónu síðasta árið og niðurfellingar 15% vörugjalda um síðustu áramót. Verð á fatnaði og skóm hefur hins vegar einungis lækkað um ríflega 3% undanfarið ár. Vissulega hafa innlendir kostnaðarþættir í smásöluverslun hækkað talsvert á tímabilinu, en þó virðist svigrúm til meiri lækkunar á útsöluverði fata og skóbúnaðar en orðið hefur.

Áfram hófleg verðbólga

Þrátt fyrir hóflega hækkun í síðustu mælingum VNV vegur húsnæðisliðurinn þyngst til hækkunar vísitölunnar á komandi mánuðum að okkar mati. Þar spáum við 0,7% hækkun í mánuði hverjum líkt og raunin hefur verið að meðaltali undanfarna 12 mánuði. Útsöluáhrif vega svo upp árstíðabundna hækkun flugliðar og aðra hækkunarþætti í júlí. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,2% í maí og um 0,3% í júní, en verði óbreytt milli mánaða í júlí. Verðbólga verður skv. bráðabirgðaspánni 1,4% í júlí, og horfur eru á að hún fari ekki yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrr en um næstu áramót.

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall