Morgunkorn Íslandsbanka

Íslenskir neytendur svartsýnir í vetrarbyrjun

28.11.2018

Verulega sló á væntingar íslenskra neytenda til efnahags- og atvinnulífsins nú í nóvember frá fyrri mánuði samkvæmt nýlega birtri væntingavísitölu Gallup (VVG). Vísitalan lækkar um 16,2 stig frá fyrri mánuði og mælist nú 75,8 stig. Hefur hún ekki mælst lægri í fimm ár. Vísitalan hefur lækkað nær samfellt frá því í lok síðasta árs eða um heil 45% frá því í desember 2017. Væntingavísitalan hefur nú verið undir 100 stiga jafnvægisgildinu sem markar jafnvægið milli bjartsýni og svartsýni neytenda frá því í júlí á þessu ári.

Allar undirvísitölur lækka

Allar undirvísitölur VVG lækka á milli mánaða. Mat á núverandi ástandi lækkar mest (-29,3) og mælist 117,7 stig. Sú vísitala er þó eina undirvísitalan sem er yfir 100 stiga jafnvægisgildinu. Eins lækka vísitölurnar sem eiga að endurspegla mat neytenda á efnahagslífinu (-18,8) og mat neytenda á atvinnuástandi (-13,1). Sú fyrrnefnda mælist 63,2 stig og sú síðarnefnda 81,3 stig. Mat neytenda á atvinnuástandi hefur ekki mælst lægra í rúm 4 ár og má áætla að það sé vegna mikillar óvissu á vinnumarkaði á næstu misserum.  

Undirvísitalan væntingar neytenda til næstu 6 mánaða lækkar minnst milli mánaða (-7,6) en er lægst allra undirvísitalnanna, í 48 stigum.  Að undanskildum september síðastliðnum þegar undirvísitalan mældist 47,7 stig þarf að leita til ársins 2009 til að finna hana í lægri gildum en nú.

Hægir snarpt á vexti einkaneyslu?

Athyglisvert er að skoða væntingavísitöluna í samanburði við einkaneyslu því þróun þessara stærða helst oft í hendur. Hægt hefur á vexti einkaneyslu frá því hún náði hæstu hæðum í júlí 2017 og á sama tíma voru gildi VVG enn talsvert há. Væntingavísitalan hefur lækkað jafnt og þétt það sem af er ári og er nú komin í sín lægstu gildi í lengri tíma. Væntingar neytenda benda til þess að það gæti hægt snarpt á vexti einkaneyslu á komandi misserum og eru þegar allsterkar vísbendingar um að talsvert hafi hægt á einkaneysluvextinum á seinni hluta þessa árs. 

Konur og elsti aldurshópurinn svartsýnust

Í gegnum tíðina hafa konur mælst lægri í væntingum neytenda og í nóvember var engin breyting þar á. Væntingar kvenna lækkuðu um heil 22,8 stig og mælast í 64,4 stig. Einnig lækkuðu væntingar karla (-10,7) sem standa í 85,5 stig. Bæði gildin teljast talsvert lág og hafa ekki verið lægri í 5 ár. Þrátt fyrir að kynin meta stöðuna ólíkt og að konur séu alla jafna svartsýnni en karlar er ljóst að væntingar beggja kynja til efnahags- og atvinnulífsins í dag eru til muna svartsýnni en verið hefur undanfarið. 

Samkvæmt gildum væntingavísitölunnar má áætla svo að því eldri sem neytendur eru, því svartsýnni. Allir aldurshóparnir eru undir 100 stiga jafnvægisgildinu. Hins vegar lækkaði yngsti aldurshópurinn, 18-24 ára, mest milli mánaða (-27,5) og mælist nú 93,6 stig. Elsti aldurshópurinn, 55-80 ára, lækkaði einnig töluvert (-21,8) og stendur í 58,5 stigum. Hinir aldurshóparnir mælast á bilinu 66-92 stig og lækka gildin eftir því sem aldurinn hækkar. Það lítur því út fyrir að allir aldurshóparnir séu svartsýnir en þeir sem eldri eru virðast umtalsvert svartsýnni en þeir sem yngri eru.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall