Morgunkorn Íslandsbanka

Lífeyrissjóðirnir eiga í það minnsta 32% af útgefnu hlutafé

11.09.2013

nullLífeyrissjóðirnir eiga nú í það minnsta samtals 32% markaðsvirðis útgefins hlutafjár. Hlutdeild þeirra er metin út frá lista sem Kauphöllin gefur út yfir 20 stærstu hluthafa og er hlutdeild þeirra því vantalin að því marki sem einstakir sjóðir ná ekki inn á þann lista. Hér er tekið tillit til hlutfallslegra eigna lífeyrissjóðanna í Framtakssjóð Íslands. Það er einnig gert í þeim útreikningum sem á eftir koma.

Lífeyrissjóðirnir hafa aukið verulega eign sína í félögum Kauphallarinnar það sem af er ári. Hlutdeild þeirra var tæp 28% í ársbyrjun en er nú sem fyrr segir 32%. Í byrjun árs nam verðmæti hlutabréfa í eigu sjóðanna 95 mö.kr. en var 133 ma.kr. í byrjun þessa mánaðar. Hefur heildar markaðsvirði eigna þeirra því aukist um 38 ma.kr., eða sem nemur um 40%. Ef einungis er litið til eignahluta 20 stærstu hluthafa skráðra félaga þá eiga lífeyrissjóðirnir nú 36% af þeim bréfum en áttu 31% í byrjun árs. Ákveðnir hnykkir eru í hlutdeildar yfirliti félaganna en þeir skýrast af nýskráningum Eimskipa annars vegar og hins vegar VÍS. Þá stækkar heildarmarkaðurinn mikið en hlutdeild sjóðanna jókst ekki að sama skapi.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stórtækur á árinu

nullLífeyrissjóður Verslunarmanna er atkvæðamesti einstaki lífeyrissjóðurinn á hlutabréfamarkaði og nam hlutabréfaeign hans í byrjun mánaðarins um 41 mö.kr. Næststærstur er LSR með um 32 ma.kr. eign og sá þriðji stærsti er Gildi með 21 ma.kr. eign. Markaðsverðmæti hlutabréfa LSR hefur aukist verulega á árinu, eða um 75%. Á sama tíma hefur eign Lífeyrissjóðs Verslunarmanna í skráðum hlutabréfum aðeins aukist um 24% og eign Gildis um 29% sem er nokkuð undir meðal aukningu sjóðanna, en heildar samanlögð aukning á markaðsvirði sjóðanna nemur 40% á árinu. Ef litið er til stærstu hreyfinga minni sjóða þá hafa Stapi og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda verið stórtækir í kaupum á árinu. Sá fyrrnefndi hefur rúmlega þrefaldað hlutabréfaeign sína en sá síðarnefndi tvöfaldað hana en hlutabréfaeign hvors þeirra nam um 6 mö.kr. í byrjun mánaðarins.

Eru stórir eigendur í öllum félögum Kauphallarinnar

nullLífeyrissjóðirnir eru stórir eigendur í öllum félögum Kauphallarinnar. Mest eiga þeir nú hlutfallslega í Vodafone, eða um 46%, en þeir eiga litlu minna í Icelandair, eða 45%. Sjóðirnir eiga minnst í VÍS, 17%, en þeir fengu tiltölulega lítinn hlut í félaginu við skráningu þess á markað.

Því er stundum haldið fram að lífeyrissjóðirnir éti alla þá fjárfestingakosti upp sem á vegi þeirra verða. Ef við skoðum hins vegar myndina af hlutdeild þeirra þá sjáum við að þeir finnast bæði á kaup og söluhlið. Þannig fór t.d. hlutdeild þeirra í Icelandair hæst í 50% en hefur síðan minnkað. Við sjáum líka að sjóðirnir hafa mismikla matarlist á félögum Kauphallarinnar en þannig eru kaupferlar mis brattir. Viðskipti virðist reyndar yfirleitt minnka eftir því sem lengra líður frá skráningu félaganna en þó hafa sjóðirnir t.d. bætt verulega við sig í Högum á árinu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall