Morgunkorn Íslandsbanka

Landinn bjartsýnn á nýju ári

27.01.2016

Væntingavísitala Gallup (VVG) hækkaði um tæp 11 stig í janúar frá fyrri mánuði, og stendur vísitalan nú í 124,3 stigum. Er hér um sjötta mánuðinn í röð að ræða sem VVG mælist yfir 100 stigunum sem markar jafnvægi á milli bjart- og svartsýni, og raun er þetta hæsta gildi vísitölunnar síðan í október 2007. Þó mældist gildi vísitölunnar óvenjuhátt þetta umdeilda ár, að jafnaði 134 stig, og frá upphafi mælinga VVG sem var í mars 2001 hefur gildi hennar aðeins í 15% tilvika mælst hærra en nú í janúar. Er gildi VVG nú í janúar 43 stigum hærra en það var á sama tíma í fyrra. Þetta má sjá í fréttatilkynningu sem Gallup birti í gær um Væntingavísitölu sína.

Allar undirvísitölur hækka

Allar undirvísitölur hækka milli mælinga í desember og janúar, og eru þær allar mun hærri en á sama tíma í fyrra eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Munurinn á milli ára er einna mestur á mati neytenda á núverandi ástandi (118,3 stig), en sú vísitala hækkar um rúm 13 stig á milli mánaða og er um 62 stigum hærri en hún mældist á sama tíma í fyrra. Væntingar neytenda til aðstæðna eftir 6 mánuði hækka um rúm 9 stig og mælast 128,4 stig, sem er 29 stigum hærra en á sama tíma í fyrra.

 

Mat neytenda á efnahagslífinu (113,1 stig) hækkar um tæp 15 stig, og er gildi þeirrar undirvísitölu 47 stigum hærra en það var á sama tíma í fyrra. Mat á atvinnuástandinu (135,4 stig) hækkar um tæp 10 stig, og er gildi þeirrar vísitölu einnig 47 stigum hærra en það var á sama tíma í fyrra. Í raun hefur gildi síðarnefndu vísitölunnar ekki mælst hærra síðan í júní 2007.

Í takti við nýlega hagvísa

Eins og áður segir þarf að leita aftur til ársins 2007 til þess að finna eins hátt gildi á VVG og mældist nú í janúar, en þó er samsetning vísitölunnar nú talsvert frábrugðin því sem var á því herrans ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Gallup, og segir þar enn frekar að samsetning VVG sé líkari umhverfinu 2004. Nú, eins og fyrir 12 árum, er mat á núverandi ástandi svipað og væntingar til 6 mánaða. Árið 2007 var hins vegar matið á núverandi stöðu mun hærra en 6 mánaða væntingarnar, og endurspeglaði að mati okkar þá skoðun margra að draga myndi úr því dæmafáa góðæri sem þá ríkti. Ofangreind þróun er í takti við efnahagsþróunina hér á landi, en óhætt er að segja að hér hafi viðrað ágætlega í hagkerfinu að undanförnu og bendir flest til þess að svo verði áfram enn um hríð. Há mæling undirvísitölu fyrir atvinnuástandið rímar einnig við tölur Hagstofunnar af vinnumarkaði sem birtar voru í gærmorgun, sem sýna að atvinnuleysi í árslok var hið minnsta í 8 ár. Má það rekja til verulegrar fjölgunar starfandi, sem aftur hefur leitt til þess að heildarvinnustundum í hagkerfinu hefur fjölgað enda hefur lítil breyting orðið á fjölda vinnustunda.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall