Morgunkorn Íslandsbanka

Enn er metinnflæði gjaldeyris vegna ferðamanna

16.02.2015

Ekki er ofmælt að segja að ferðmannaárið 2015 byrji með látum. Þannig var gríðarleg fjölgun á erlendum ferðamönnum hér á landi í janúar sl. frá sama tíma í fyrra, og hafa þeir að sama skapi aldrei straujað kortin sín í eins miklum mæli í janúarmánuði og nú. Þessi mikli vöxtur leiddi jafnframt til þess að erlendir ferðamenn eyddu talsvert meira hér á landi en Íslendingar eyddu í útlöndum í mánuðinum, og er þetta aðeins í annað sinn sem slíkt er upp á teningnum í janúarmánuði. Þetta má sjá í tölum sem Seðlabanki Íslands birti sl. föstudag um greiðslumiðlun í janúar sl. 

Myndarlegt gjaldeyrisinnstreymi vegna kortaveltu

Alls nam kortavelta útlendinga hér á landi rúmlega 7,3 mö.kr. í síðasta mánuði, sem er aukning upp á rúm 29% í krónum talið frá sama tíma í fyrra. Þetta rímar ágætlega við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt þeim voru erlendir ferðamenn 62,8 þúsund í janúar sl. samanborið við 46,7 þúsund á sama tíma í fyrra. Jafngildir þetta 35% fjölgun á milli ára. Til gamans má geta að fjöldi erlendra ferðamanna nú í janúar er ekki langt frá þeim fjölda sem var hér á landi á háannatíma (júlí og ágúst) árið 2006 og árin þar á undan. 

Kortavelta Íslendinga í útlöndum nam alls 6,4 mö.kr. í janúar sl., og var kortaveltujöfnuður, þ.e. mismunur á kortaveltu útlendinga hér á landi og veltu Íslendinga erlendis, þar með jákvæður um 932 m.kr. Er hér um langhagfelldustu útkomu þessa jafnaðar frá upphafi í janúarmánuði að ræða, og eins og áður segir hefur kortaveltujöfnuður aðeins einu sinni áður mælst jákvæður í mánuðinum. Í janúar í fyrra tókst erlendum ferðamönnum að toppa Íslendinga í þessum efnum í fyrsta sinn, en þá var kortaveltujöfnuður jákvæður um 233 m.kr. 

Ferðaþjónustan orðin langstærsta útflutningsgreinin

Enn liggja ekki fyrir tölur um útflutningstekjur vegna ferðaþjónustu fyrir árið 2014 í heild, en gróflega má áætlaað þær hafi verið um 308 ma.kr. Inni í þeim tölum eru einnig tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþega, hvort sem það er til og frá Íslandi eða annars staðar í heiminum. Miðað við þetta mat okkar voru útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna ferðaþjónustu 28% umfram útflutningstekjur sjávarútvegsins í fyrra, og 43% umfram tekjur af áliðnaði. 

Eins og við fjölluðum nýlega um þá er útlitið bjart varðandi þjónustuviðskipti á árinu. Vísbendingar eru um að ekkert lát ætli að verða á fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands í ár, sem er í raun alveg með ólíkindum m.v. þróun undanfarinna ára. Gæti vöxturinn í ár numið á þriðja tug prósenta frá síðasta ári. Miðað við þá spá má áætla að ferðaþjónustan muni skila okkur 342 mö.kr. í gjaldeyri í ár, sem er um tæpur þriðjungur af þeim 1.200 mö.kr. sem við reiknum með að heildartekjur vegna vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd verði á árinu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall