Morgunkorn Íslandsbanka

Verulega hagstæð vöruskipti á fyrsta fjórðungi

09.04.2015

Vöruskipti á fyrsta fjórðungi ársins voru hagstæðari en í fyrra, og séu skip og flugvélar undanskilin er vöruskiptaafgangurinn á fjórðungnum sá mesti í þrjú ár. Þróunin það sem af er ári styður þá spá okkar að afgangur á vöru- og þjónustujöfnuði verði á bilinu 180-200 ma.kr., og vöru- og þjónustuviðskipti veiti því krónunni talsverðan stuðning þetta árið. 

Hagstofan birti í morgun bráðabirgðatölur fyrir vöruskipti í mars. Þar kemur fram að vöruútflutningur nam 63,4 mö.kr. og innflutningur 52,1 mö.kr. í mánuðinum. Afgangur af vöruskiptum í mars var því 11,3 ma.kr., sem er mesti afgangur frá nóvember 2013. Útflutningurinn í mars er sá mesti frá upphafi í einum mánuði, og skýrir að mestu þennan mikla afgang. Þar leggst á eitt afar myndarlegur útflutningur sjávarafurða (27,4 ma.kr.) og mikill útflutningur iðnaðarvara (33,7 ma.kr.). Innflutningurinn var aðeins yfir meðallagi síðustu 12 mánaða, en á svipuðu róli og í sama mánuði í fyrra.

Metafgangur á fyrsta ársfjórðungi

Á fyrsta fjórðungi ársins var vöruútflutningur 165,2 ma.kr., og er það mesti vöruútflutningur á fyrsta ársfórðungi frá upphafi. Vöruinnflutningur nam 159,5 mö.kr., og afgangur af vöruskiptum var því 5,7 ma.kr. á tímabilinu, en til samanburðar var afgangurinn á fyrsta ársfjórðungi 2014 3,5 ma.kr. Hér þarf þó að hafa í huga að umfangsmikil flugvélakaup lituðu vöruskiptatölur febrúarmánaðar, þótt þar sé frekar um bókhaldslegt atriði að ræða en viðskipti sem endurspegla gjaldeyrishreyfingar. 

Ef skip og flugvélar eru undanskilin var vöruskiptaafgangurinn 25,4 ma.kr. á tímabilinu, en það er meira en fjórfaldur afgangur sama tímabils 2014 (5,5 ma.kr.). Mikil aukning útflutnings er helsta skýring meiri afgangs, en hana má skýra með hagstæðri verðþróun á sjávarafurðum og áli í krónum talið, ásamt mun betri loðnuvertíð í ár en í fyrra og líklega einhverri aukningu í bolfiskútflutningi milli ára. 

Einnig urðu fremur litlar breytingar á vöruinnflutningi á milli ára ef aukinn flugvélainnflutningur er tekinn út fyrir sviga. Það skýrist að hluta af mun minni innflutningi eldsneytis og olíuvara í krónum talið í ár en í fyrra, sem kemur til af mikilli verðlækkun á erlendum mörkuðum. Hins vegar er nokkurt áhyggjuefni að innflutningur fjárfestingarvara, að flutningatækjum undanskildum, óx aðeins um 1,8% á milli ára. Meiri gangur er í innflutningi neysluvara, sem jókst um 28,2% milli ára í tilfelli mat- og drykkjarvara, og um 16,2% ef horft er á aðrar neysluvörur.

Horfur á verulegum vöru- og þjónustuafgangi í ár

Við spáðum því í upphafi árs að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum gæti orðið á bilinu 180-200 ma.kr. (9-10% af VLF) á árinu. Ofangreindar vöruskiptatölur, ásamt vísbendingum um þjónustujöfnuð það sem af er ári frá kortatölum, brottförum ferðamanna o.s.frv., ríma ágætlega við þessa spá enn sem komið er. Hagstæðari viðskiptakjör, tiltölulega myndarleg loðnuvertíð og lítilsháttar aukning fiskveiðikvóta milli ára skýra aukinn vöruútflutning, og vart þarf að taka fram hversu þungt hraður vöxtur ferðaþjónustunnar vegur í auknum þjónustuútflutningi. Á móti má búast við auknum innflutningi vegna vaxandi innlendrar eftirspurnar og aukinnar aðfanganotkunar útflutningsgreina á árinu. 

Þessi myndarlegi vöru- og þjónustuafgangur sem við spáum mun svo væntanlega hjálpa til að viðhalda nettóinnflæði gjaldeyris á markaði, styðja þar með við gengi krónu og liðka fyrir losun hafta, enda safnar Seðlabankinn jafnt og þétt gjaldeyri í forða sinn þessa dagana líkt og raunin var í fyrra.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall