Morgunkorn Íslandsbanka

Kortavelta sýnir vöxt einkaneyslu og gjaldeyristekna

16.03.2015

Raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga milli ára var  4,3% í febrúar sl. samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslukortaveltu. Þar af nam vöxtur í kortaveltu innanlands 3,3%, sem mátti að öllu leyti rekja til þess að velta kreditkorta jókst um 5,9% á sama tíma og velta debetkorta jókst aðeins um 0,3%. Að vanda var vöxtur í kortaveltu erlendis öllu meiri, eða um 12,6%, sem þó er mun hægari vöxtur en verið hefur að jafnaði síðasta árið. Þetta má sjá í tölum sem Seðlabanki Íslands birti sl. föstudag um greiðslumiðlun í febrúar sl. 

Sé tekið mið af fyrstu tveimur mánuðum ársins nemur raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga 3,6% frá sama tímabili í fyrra, þar af 2,3% innanlands en 15% erlendis. Er það heldur hægari vöxtur en sá 4,8% vöxtur sem var að jafnaði í kortaveltu einstaklinga á síðastliðnu ári. Má hvort tveggja rekja það til veltu innanlands sem jókst að jafnaði um 3,3% í fyrra, sem og veltu erlendis sem jókst að jafnaði um 18,3%. Raunþróun kortaveltu gefur alla jafna góða vísbendingu um þróun einkaneyslu, og eru kortatölurnar það sem af er ári að okkar mati til marks um að vöxtur einkaneyslu muni mælast allnokkur á fyrsta fjórðungi yfirstandandi árs.

Kortavelta útlendinga í fyrsta sinn umfram Íslendinga 

Líkt og verið hefur síðustu misserin var mikill vöxtur í kortaveltu útlendinga hér á landi í febrúar sl., eða um 35,1% í krónum talið frá sama tíma í fyrra. Nam kortavelta þeirra alls 8,1 mö. kr. í febrúarmánuði samanborið við 6,0 ma. kr. í febrúar í fyrra. Þetta rímar ágætlega við tölur Ferðamálastofu Íslands um brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll. Samkvæmt þeim voru erlendir ferðamenn 70,5 þúsund í febrúar sl. samanborið við 52,4 þúsund á sama tíma í fyrra, og jafngildir það fjölgun upp á 34,4% á milli ára.

Kortavelta Íslendinga í útlöndum nam alls 6,8 mö. kr. í febrúar sl., og var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hér á landi að frádreginni veltu Íslendinga erlendis) þar með jákvæður um 1,3 ma. kr. í mánuðinum. Þetta er í fyrsta sinn sem kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi er umfram Íslendinga í útlöndum í febrúarmánuði svo langt aftur sem tölur Seðlabankans ná. 

Myndarlegt gjaldeyrisinnflæði tengt ferðaþjónustu 

Frá áramótum talið nemur kortavelta útlendinga hér á landi 15,4 mö. kr. en Íslendinga í útlöndum 13,2 mö. kr. Hefur kortavelta útlendinga aukist um 32% í krónum talið á milli ára en Íslendinga aukist um 15% á sama tímabili. Er kortaveltujöfnuður þar með hagstæður um 2,2 ma. kr. á þessu tímabili samanborið við 0,2 ma. kr. á sama tíma í fyrra, en árin þar á undan var jöfnuðurinn ávallt í halla á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Við teljum að þessi jöfnuður muni verða enn hagstæðari á komandi mánuðum eftir því sem háannatími nálgast í ferðaþjónustunni, enda spáum við 23% aukningu í komum ferðamanna hingað til lands í ár frá fyrra ári. Hreint gjaldeyrisinnflæði tengt ferðaþjónustunni verður því verulegt á árinu, og mun eiga stóran þátt í þeim 180-200 ma.kr. afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum sem við spáum á yfirstandandi ári. Er það framhald á þróun undanfarinna ára, en uppgangur ferðaþjónustunnar er að mati okkar veigamikill áhrifaþáttur í þeim stöðugleika sem einkennt hefur gengi krónu undanfarin misseri.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall