Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga aftur undir markmið Seðlabankans?

12.04.2018

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,1% í apríl frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá hjaðnar 12 mánaða verðbólga úr 2,8% í 2,4% og fer þar með undir verðbólgumarkmið Seðlabankans á nýjan leik.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað lítillega frá síðustu spá. Ástæðan er minni verðbólguþrýstingur næstu mánuði í skammtímaspá okkar. Á móti vegur að við teljum nú að íbúðaverð og launakostnaður muni hækka ívið meira þegar frá líður en við töldum áður. Eftir sem áður eru horfur á að verðbólga verði í grennd við markmið Seðlabankans út árið 2019. Hagstofan birtir VNV fyrir apríl kl.9:00 þann 27. þessa mánaðar. 

Húsnæði til hækkunar, flug til lækkunar

Minni sviptingar eru í undirliðum VNV í spá okkar fyrir apríl en verið hefur undanfarna mánuði. Það eru fyrst og fremst tveir liðir sem vegast á varðandi áhrif á VNV að þessu sinni: Húsnæðisliður og flugfargjöld.

Líkt og verið hefur síðustu mánuði hefur húsnæðisliður talsverð áhrif til hækkunar VNV í apríl. Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, muni hækka um 0,6% á milli mánaða (0,12% áhrif í VNV). Liðurinn hefur verið talsvert sveiflukenndur undanfarna mánuði og óvissa er því með meira móti um mælingu hans þennan mánuðinn. Þá gerum við ráð fyrir að greidd húsaleiga muni hækka um 0,4% í apríl (0,02% í VNV) og húsnæðisliðurinn í heild því vega til 0,14% hækkunar VNV.

Á móti vegur að samkvæmt athugun okkar munu flugfargjöld til útlanda væntanlega lækka um u.þ.b. 11% (-0,11% í VNV) eftir 3% hækkun í marsmánuði. Gangi spá okkar eftir munu flugfargjöld til útlanda hafa lækkað um fimmtung frá áramótum þrátt fyrir hækkunina í mars.

 
Aðrir liðir VNV hafa takmörkuð áhrif á þróun hennar í apríl samkvæmt spá okkar. Þó má nefna að við gerum ráð fyrir 0,2% hækkun á matvælaverði (0,03% í VNV) og 0,4% hækkun á þjónustu hótela og veitingahúsa (0,02% í VNV). Á móti eru horfur á að lyfjaverð lækki nokkuð (-0,02% í VNV). Aðrir liðir hafa minni áhrif í spá okkar fyrir apríl.

Verðbólga við markmið Seðlabankans á næstunni

Útlit er fyrir að verðbólga verði við markmið Seðlabankans næstu mánuðina. Við spáum 0,2% hækkun VNV í maí, 0,2% hækkun í júní en 0,1% lækkun VNV í júlí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,5% í júlímánuði.

 

Húsnæðisliðurinn leggur mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,14% í mánuði hverjum að jafnaði. Hér er þó um talsvert hægari hækkun þessa liðar að ræða heldur en raunin var fyrir ári síðan. Þá mun verð á gistingu og þjónustu veitingahúsa væntanlega hækka töluvert þegar háannatími ferðaþjónustunnar gengur í garð, og svipaða sögu má segja af flugfargjöldum. Í júlí koma svo áhrif sumarútsala til sögunnar að vanda. Ekki eru vísbendingar um afgerandi áhrif annarra liða á VNV á allra næstu mánuðum að mati okkar, þótt væntanlega muni undirliggjandi þróun verða til hóflegrar hækkunar almennt.

Verðbólga nærri markmiði næstu misseri

Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði  á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að jafnaði síðustu ársfjórðunga. Þá gerum við ráð fyrir að nokkuð dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs eftir því sem líður á spátímann, en að launakostnaður aukist áfram jafnt og þétt líkt og sjá má í töflu fremst í spánni.

Við teljum að verðbólga verði nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans á seinni helmingi ársins 2018 og að hún muni mælast 2,7% í árslok. Árið 2019 spáum við 2,6% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga í næsta nágrenni við 2,5% markmið Seðlabankans fram til ársloka 2019.

Talsverð óvissa er um þróun íbúðaverðs næstu fjórðunga í ljósi breytinga á íbúðamarkaði undanfarið. Þá gæti gengi krónu styrkst á komandi mánuðum. Liggur þar einn helsti óvissuþáttur til lækkunar frá spánni til skemmri tíma litið að okkar mati. Á móti gæti hröð hækkun launakostnaðar reynst þrálátari verðbólguvaldur þegar frá líður en við gerum ráð fyrir. 

Verðbólguspá fyrir apríl 2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall